[container]
Blár. Hún gengur hægum skrefum í átt að gámnum. Með ekkert í augsýn nema tærnar á sjálfri sér. Ætli hún muni hvernig himininn lítur út? Ég ímynda mér að hún reiði sig á heyrnina. Líkt og blindir gera. Samt er hún ábyggilega að missa hana líka. Hvernig hún komst í fötin skil ég ekki. En þau eru engu að síður fín. Dökkblá kápa strekkt utan um bakið, svartir hælaskór úr leðri, nælonsokkar. Skref fyrir skref silast hún áfram með höndina útrétta. Kræklóttir fingurnir krepptir utan um glæra flösku úr gleri. Hún hefur flöskuna á loft. Eins hátt og hún getur en hana skortir kraft. Flaskan vill ekki ofan í gáminn og hún haltrar á brott án þess að nokkur gefi henni gaum.
Hvítur. Gamall maður í svörtum jakka, svörtum skóm og með svart pottlok á sköllóttu höfðinu styður sig við göngustaf sem líka er svartur. Það er dimmt og hráslagalegt. Með titrandi hendi baksar hann við að ýta glerflösku inn um op endurvinnslugáms. Hún situr föst. Að lokum gefst hann upp og mjakast ofurhægt út í nóttina. Ungur maður fylgist með af hliðarlínunni, glottir en aðhefst ekkert.
Rauður. Öldruð kona stendur á götuhorni í París. Við hlið hennar er hjól sem augljóslega er ekki hennar eigið. Hár hennar er hvítt og lýsir upp rökkrið. Gráyrjótta ullarkápan sem hún klæðist virðist hlý og þótt það sé dimmt lítur ekki út fyrir að vera kalt. Konan heldur á tómri vínflösku. Stirðir fingurnir láta ekki að stjórn þegar hún reynir að losa sig við flöskuna sem situr föst í gatinu. Ung kona fylgist með. Hún gengur upp að þeirri gömlu og ýtir laust við flöskunni. Brothljóð heyrist. Loksins hefur tekist að koma flöskunni ofan í bannsettan gáminn.
Recycle and die. Kieslowski var ítrekað spurður hver merkingin að baki atriðanna væri. Sjálfur vildi hann ekki meina að honum væri sérlega umhugað um endurvinnslu. Hann vildi aðeins minna okkur á að hugsanlega yrðum við einhvern daginn nógu gömul til að þurfa hjálp við að koma glerflösku ofan í endurvinnslugám.
Ellen Ragnarsdóttir,
meistaranemi í ritlist
[/container]
Leave a Reply