Átröskun og ábyrgð fjölmiðla

„Hefurðu kastað eitthvað upp í dag?“ Læknirinn horfði rannsakandi á mig. Ég gat ekki horft í augun á honum heldur starði í kjöltuna á mér. „Nei en ég er nú reyndar ekki búin að borða neitt síðan ég vaknaði…“ Þetta samtal átti ég á afmælisdaginn minn í Heilsugæslunni Hlíðum þann 23. júlí fyrir hálfu ári.

Ég, sem hef alltaf verið mikið afmælisbarn og alltaf eytt heilu vikunum í að skipuleggja fögnuð og kræsingar á afmælisdaginn, var skyndilega komin í þessar aðstæður. Að þrotum komin, með svima, hausverk og brotna sjálfsmynd að ræða vandamál mín við heimilislækninn. Á sjálfan afmælisdaginn. Aldrei hefði mig órað fyrir því að ég myndi einhvern tímann komast á þennan stað.

Þegar þarna var komið sögu hafði ég verið að glíma við megrunaráráttu í um það bil tvö ár. Í kjölfarið fór ég með hjálp vina og fólks í kringum mig að átta mig á vandanum sem ég var komin í. Síðan ég greindist með sjúkdóminn hef ég verið meðvitaðari en áður um skaðsemi staðalímynda í fjölmiðlum og fitufordóma sem því miður allt of margir eru haldnir. Fjölmiðlar eru að miklu leyti ábyrgir fyrir þessum fordómum því þeir eiga stóran þátt í að móta samfélagsálitið. Fréttir af Hollywoodstjörnum snúast gjarnan um vaxtarlag þeirra, megrunarráð, hvernig þær halda sér grönnum og svo berast fréttir í tonnavís ef líkamsþyngdarsstuðull einhverra þeirra fer að nálgast kjörþyngdarmörkin. Og fjölmiðlarnir nærast á þessu. Mest lesnu fréttirnar á helstu fréttamiðlum landsins snúast oftar en ekki um það hver sást með appelsínuhúð á ströndinni og hver missti nýlega þrjátíu kíló en þetta tvennt er að sjálfsögðu mælikvarði á ágæti viðkomandi. Upp á síðkastið hefur þó orðið örlítil vitundarvakning um þessi mál en betur má ef duga skal.

Fjölmiðlar birta enn reynslusögur fólks sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og ég og „losað sig við kílóin“ en umfjöllunin er ekki lengur gagnrýnislaus í öllum tilvikum. Margir greina frá fitufordómum sem þeir urðu fyrir áður en átakið hófst og að aðkastið (sem þeir urðu fyrir) hafi orðið til þess að þeim hafi fundist þeir tilneyddir til að breyta sér. En svar samfélagsins er það sama; leitt að þú hafir orðið fyrir fordómum en gott hjá þér að breyta þér, og frösum á borð við „sæta sæta“ gjarnan skeytt við. Það er hinsvegar ekki nóg að gera sér grein fyrir alvarleika fitufordómanna, það þarf að átta sig á að það er vandinn sem þarf að uppræta, ekki fituprósentan sjálf.

Á leið minni út frá lækninum rakst ég á fjarskylda frænku. Hún átti ekki orð þegar hún sá mig og hélt yfir mér ræðu sem ég hafði heyrt að minnsta kosti vikulega í nokkra mánuði. „Mikið líturðu vel út – þú ert komin í svo gott form! Hvernig í ósköpunum fórst þú að þessu…..“ Ég hefði getað svarað velviljuðu frænku minni sannleikanum samkvæmt og sagt henni að ég hefði náð þessum „árangri“ með því að æla, að ég væri nýkomin frá lækni og að ég hefði aldrei verið í verra formi á ævinni enda gæti ég varla gengið upp stiga án þess að fá aðsvif. Í stað þess kinkaði ég bara brosandi kolli og þakkaði fyrir með eins fáum orðum og mögulegt var.

Inni hjá lækninum velti ég því fyrir mér hvernig ég hafði eytt afmælisdögum mínum fram að þessu en þeir höfðu alltaf innihaldið dýrðarinnar hnallþórur, hlátrasköll og góða vini. Hvernig ætli ég hefði eytt 25 ára afmælisdeginum mínum ef samfélagið væri ekki svona meðvirkt í fitufordómum? Ég væri allavega ekki stödd á Heilsugæslunni að ræða uppköst.

Júlía Margrét Einarsdóttir,
meistaranemi í ritlist


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *