Útrýmingarbúðir á Íslandi

Ímyndið ykkur að sjá aldrei sólina. Að fæðast, lifa (stutt) og deyja án þess að sjá nokkurn tímann himininn. Ímyndið ykkur að deyja án þess að anda að ykkur fersku lofti, nema kannski á leiðinni á aftökustað ef þið eruð heppin. Ímyndið ykkur að einhver neyði ykkur til þess að eignast börn og börnin séu síðan tekin frá ykkur við fæðingu. Ímyndið ykkur ef þið hefðuð verið tekin frá mæðrum ykkar við fæðingu og svo geld nokkurra daga gömul án deyfingar. Ímyndið ykkur að vaða eigin skít upp að hnjám á hverjum einasta degi. Að liggja í eigin skít, að sofa í eigin skít. Ímyndið ykkur að skíturinn brenni húðina á fótunum hreinlega af. Ímyndið ykkur svo að þurfa að berjast í gegnum þvögu af samföngum ykkar, á brenndu fótunum, til þess að fá að borða.

Það er ástæða fyrir því að kjúklingur og svínakjöt er ódýr matur. Grísir fá bara að sjúga spena mæðra sinna í gegnum rimla. Ef þeir eru geltir áður en þeir verða sjö daga gamlir þarf ekki að deyfa þá, heldur fá þeir bara verkjastillandi lyf. Í ályktun frá Dýralæknafélagi Íslands segir: „Það er eins og að gefa eingöngu panodil áður en farið er undir hnífinn“.  Það er ekkert sem bendir til þess að nýfæddir grísir finni síður til sársauka en eldri. Þegar grísirnir eru teknir frá gyltum eru þær sæddar aftur. Og aftur og aftur. Svo er þeim slátrað þegar þær eru orðnar útjaskaðar. Þriggja ára gamlar.

Í skýrslum Matvælastofnunnar kemur fram að eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum hafi ítrekað tilkynnt misdjúp sár vegna dritbruna á fótum kjúklinga, ár eftir ár. Í skýrslunni frá 2011 gerðu dýralæknar athugasemdir við að kjúklingar í einum sláturhópi voru mjög marðir. Ástæðan var talin of mikill „þéttleiki“ í eldishúsinu. Í skýrslunni frá 2010 kemur fram að fætur og vængir brotni „aftur og aftur“ á leið til slátrunar. Í skýrslunni frá 2009 er talað um „opin beinbrot“. Árið 2010 þurfti að aflífa 32 alifuglahópa vegna salmonellusmits. Skýrslan kallar aðferðina sem beitt var „gösun“ og tekur fram að hún krefjist „reynslu og vandaðra vinnubragða“. Einnig sé hægt að snúa fuglana úr hálslið, en sú aðferð sé „mann- og tímafrek“.

Í íslenskum stórmörkuðum er eingöngu hægt að kaupa verksmiðjuframleitt svína- og kjúklingakjöt. Næst þegar þið fáið ykkur hunangslegnar grísalundir eða hvítlauksmarineraðar kjúklingabringur skuluð þið þakka þeim sem lifðu, þjáðust og dóu til þess að þið gætuð borðað ódýrari mat. Þeirra vegna hafið þið jafnvel ráð á því að skola honum niður með glasi af góðu hvítvíni.

Það hentar víst einstaklega vel með ljósu kjöti.

Hildur Knútsdóttir,
meistaranemi í almennri bókmenntafræði


Comments

19 responses to “Útrýmingarbúðir á Íslandi”

 1. Takk fyrir gott innlegg í mikilvæga umræðu

 2. Jón Jónsson Avatar
  Jón Jónsson

  Kæra Hildur,
  mér misbýður það innilega að þú skulir líkja slátur og ræktunarstöðvum dýra við útrýminingarbúðir með því að færa þessar aðstæður yfir á mannfólk. Við erum ofar öllum tegundum á jörðinni. Við erum eina tegund jarðarinnar sem getur drepið allar hinar. Þetta veldur því að við séum efst í fæðukeðjunni. Þú talar um vandamál en bendir ekki á lausnir, hvernig er hægt að vinna kjúkling og svínakjöt án þess að gera það að munaðarvöru? Því mér þykir það skömminni skárra að geta farið út í búð og geta keypt þessar vörur á verði sem ég, einstæður faðir með tvær dætur, á efni á. Fyrir mér og 90% af öllum á Íslandi er þetta ekkert issue og það er ekki vegna þess að fólkið er svo illa upplýst um aðstæðurnar þarna, einfaldlega bara það að það er allt í lagi að vera alveg sama um dýr og þjáningu þeirra.

  Svo í lokinn verð ég að spurja, hvernig kemur það pistlinum við að þú sért bókmenntafræðinemi? Hvaðan færðu þessar heimildir? ertu grænmetisæta eða vegan?

 3. Ester Eyjólfsdóttir Avatar
  Ester Eyjólfsdóttir

  Kæri Jón,
  Þú biður um lausnir. Þú gætir til dæmis farið að elda baunarétti í staðinn fyrir að nota kjöt. Í 100 gr af kjúklingabaunum eru 9 gr af próteini sem er vissulega minna en þessi 15 gr sem eru í 100 gr. af kjúklingakjöti, en á móti kemur að baunirnar innihalda fimm sinnum minni fitu en kjúllinn, margfalt minna salt og ekkert kólesteról.
  Verðið fyrir 500 gr poka af lífrænt ræktuðum kjúklingabaunum í Hagkaup eru 285 kr, og þú getur örugglega fengið þær ódýrari ef þú kaupir þær ekki lífrænar og í ódýrari búð. Það er 50% minna en kílóverðið fyrir heilan kjúkling. Þannig að minnkuð kjötneysla kemur vel út fyrir heimilið, án þess að fara nánar í hluti eins og hvað er hægt að fæða mikið fólk á landskika sem ræktað er á korn miðað við að beita þar dýrum, eða vatnsneysluna.

  Heimildir mínar hef ég héðan http://nutritiondata.self.com/ og frá hagkaup.is. Ég er ekki grænmetisæta né vegan, og ég held að Hildur hafi bara skrifað að hún væri nemi í bókmenntafræði vegna þess að almennt tíðkast að setja starfsheiti höfundar á greinar sem þessar.

  Að lokum vil ég benda á að ég efast um að 90% fólks væri sama ef einhver mætti og sparkaði í hundinn þeirra sökum yfirburða yfir dýrinu.

 4. Jón Jónsson, mikið er þetta aumkunarverður hugsunarháttur hjá þér.

  Vonandi kemur þú aldrei að vinnu þar sem þarf að hugsa um dýr. Þú hefur ekki þroska í svoleiðis vinur.

 5. Þú Jón Jónsson, ert alveg augljóslega ekki ofar öllum öðrum dýrum í keðjunni ef þú telur það allt í lagi að tala svona. Manneskjan er ógeðslegasta, svívirðilegasta og í raun réttdræpasta dýrið af þeim öllum. Ég myndi vilja sjá þig tala svona ef það væri þú í þeirra sporum, og já ég tala um þau eins og þau skilji því þau gera það án efa, þau skilja mun meira en fólk heldur og greinilega mun meira heldur en þú meðalgreinda manneskja:)

 6. “Fyrir mér og 90% af öllum á Íslandi er þetta ekkert issue og það er ekki vegna þess að fólkið er svo illa upplýst um aðstæðurnar þarna, einfaldlega bara það að það er allt í lagi að vera alveg sama um dýr og þjáningu þeirra.”

  Þarna sannar þú bara að við erum ekki ofar öllum tegundum á jörðinni.

 7. Jóhannes Ólafsson Avatar
  Jóhannes Ólafsson

  Það kemur alltaf fram hvað pistlahöfundar eru að læra, það kemur málinu tæknilega ekki við.

  Má ég spyrja þig að einu Jón, bara af því maður getur eitthvað þýðir það að maður ætti að gera það?

  Og að lokum eru hugvekjur eins og þessi pistill ekki endilega lausn. Bara það sem nafnið gefur til kynna, hugvekja.

 8. Jón Jónsson, hvað nákvæmlega er það sem gerir okkur mannfólk æðri öðrum dýrategundum?

  Allavega duga það mér ekki sem rök að við eigum skilið betri meðferð af því að við getum drepið öll önnur dýr..!

 9. Hverju skiptir það máli þótt að við getum drepið öll hin dýrin? Ég get líka drepið menn og borðað fína kjötið af þeim en þýðir það að ég eigi að gera það? Dýr hafa þróuð taugakerfi eins og við og finna fyrir sársauka. Er samasem merki á milli þess að við séum efst í fæðukeðjunni og að það sé allt í lagi þótt að dýr séu að þjást allt sitt líf? Þú þarft aðeins að hugsa um eitthvað meiri en sjálfan þig. Hverjum er ekki drullusama þótt að þú þurfir stundum að nota tofu í staðin fyrir kjúkling?! Tofu kostar 600 kall kílóið og er með svipuðum hlutföllum næringarlega(protein/kolvetni/fita) en ég veit fyrir fram að þú sættir þig ekki við neitt nema limlestan kjúkling 😉 Með því að gera meðferð á dýrum betri mun kílóverðið hækka um nokkra hundraðkalla en það mun gera lífið mun bærilegra fyrir þessi óheppnu dýr.

  Hvernig er meðferðin á dýrum eitthvað skárri heldur en meðferð evrópubúa á svart fólk frá afríku á þrælatímabilinu? Hvíti maðurinn hafði “meira vit” og betri tækni og gat auðveldlega yfirbugað þrælana og öllum var drullusama því að þetta voru bara negrar sem áttu að þjóna okkur eins og mjólkurkúin sem er látin standa í bás allt sitt líf og pumpa út mjólk og börnum í leiðinni sem hún fær aldrei að sjá því að þau eru tekin frá henni strax við fæðingu og slátruð! Kúin fær ekki einu sinni að sjá barnið sitt sem hún elskar.

  Þú misbýður mér Jón Jónsson

 10. Þorvaldur Avatar
  Þorvaldur

  Kæra fólk sem hefur svarað Jóni.

  Ekki fóðra tröllið.

 11. Auðunn Lúthersson Avatar
  Auðunn Lúthersson

  Takk Hildur fyrir mjög þarfa ábendingu!

 12. Jón Jónsson Avatar
  Jón Jónsson

  Ester: Ég mun aldrei koma til með að hætta að borða kjöt, ég var að tala um lausnir á vandamálinu um slæma meðferð dýra án þess að gera kjöt þeirra að munaðarvöru. Það er ekki lausn við því vandamáli að borða baunir í staðin fyrir kjötið. Svo þetta með hvort 90% af fólki væri sama um ef að einhver mætti og sparkaði í hundinn þeirra, þetta er alveg rétt hjá þér, en bara vegna þess að fólk gerir upp á milli tegunda. Hvalveiðar eru slæmar en það er í lagi að skjóta rjúpur og hreindýr. Hundar eru krúttlegir, svín og kjúklingar eru matur.

  Þór: Ég myndi aldrei sækja um ummönnunnarstöðu fyrir dýr á meðan það þjáist mannfólk á jörðinni, aldrei nokkurtíman. Svo þetta með að setja út á þroska minn út af því að ég þori að viðurkenna að ég láti ekki hræðsluáróður einhverra dýraverndunarsinna -sem er kominn svo langt út fyrir öll velsæmismörk- hræða mig, þykir mér frekar ad hominem.
  Þegar ég segi að þetta sé komið langt út fyrir velsæmismörk þá skal ég pósta hingað tveimur myndum, annari úr útrýmingarbúðum, hinni úr ræktunarstöð á kjöti.
  Svínarækt: http://www.bbl.is/Uploads/images_2009/svin_net.gif
  útrýmingarbúðir: http://en.valka.cz/files/dachau_2_100.jpg
  Að líkja þjáningu mannfólks við þjáningu dýra er viðurstyggilegt.

  Aníta: Ég er langt yfir öllum öðrum dýrategundum í keðjunni og það ert þú líka. Það er alveg í lagi að tala svona og eflaust betra að koma fram af hreinskilni varðandi málið heldur en ekki. Manneskjan er langt frá því að vera svívirðilegasta, ógeðslegasta og réttdræpasta dýrategundin. Við erum í rauninni andstæðan við það. Þótt nokkrir svartir sauðir tegundarinnar hafi náð rosalegum völdum og spillst þýðir það ekki að meðal maður þurfi að svara fyrir glæpi þeirra. Við tórum á toppi vistkerfisins og komum til með að gera það þar til við deyjum út. Og þetta með “ef þú værir í þeirra sporum” og “þau skilja eflaust meira en flestir vita” er bara bull. Þetta er ekki sambærilegt. Þjáning dýra er ekki sambærileg þjáningu mannfólks. Þú gerir þér kannski ekki grein fyrir því en efnahagur okkar er nánast byggður á aflífun dýra einu saman? Dýr skilja ekkert, þau vita akkúrat ekkert hvað er í gangi inni í þessum sláturhúsum. Ég get svo sagt þér það að ég er kannski meðalgreindur(sem ég er reyndar ekki) en ég er allavega málefnalegur.

  Jóhannes: Ég er alls ekki að segja að við eigum að drepa dýr. Ég er alveg jafn mikið á móti því að drepa dýr ef maður ætlar ekki að nýta kjötið/skinnið rétt eins og hver annar maður. Ég hef drepið dýr áður og hef alltaf passað mig að gera það á eins skjótan og þjáningarlítinn máta og mögulegt er.

  Hildur: Við erum eina dýrategundin sem hefur þróað með sér tungumál(fyrir utan nokkrar ágætlega heppnaðar tilraunir á öpum við að kenna þeim táknmál), við erum eina tegundin sem hefur plantað sér gjörsamlega allsstaðar á jörðinni(að sjónum undanskildum, sem við lærðum að ferðast um þó). Við erum eina dýrategundin sem getur flogið án þess að hafa þá líffræðilegu eiginleika. Við erum eina dýrategundin sem getur eyðilagt heila borg á sekúndu. Það á ekki að gilda sama siðferði um manninn og skepnur. Skepnum er skítsama um allt nema sjálfa sig og afkvæmi.

  Kolbeinn: Það skiptir engu máli að við getum drepið öll hin dýrin í rauninni, við ættum ekki að gera það nema þörfin verði til. Og nú ertu að bera mannin saman við skepnuna, það er ekki sambærilegt því miður. Þetta með þjáningu dýra á ræktunarstöðvum á Íslandi þá hefur enginn bent á neinar heimildir fyrir því. Þessi pistill er af öllum líkindum bara einhver þýddur PETA texti sem bara á alls ekki við Ísland, en ef einhver getur bent á einhverjar heimildir fyrir því að þetta sé svona líka á íslandi þá skal ég sætta mig við það. Ég vil halda kjötinu á því verði sem það er núna. Þar að auki þykir mér tofu vont og ætla ekki að byrja að borða það bara til að linna þjáningu einhverra kjúklinga.
  Hvernig er meðferðin á dýrum skárri en meðferð evrópumanna á blökkumönnum hérna í denn? Blökkumenn eru fólk.End of story. Svo eru Evrópumenn ekkert þeir einu sem tóku þátt í þrælahaldi. Þrælahald er jafn gamalt og mannkynið sjálft og tíðkast enn í dag innan sumra Afríkuríkja, Evrópuríkja(sem og Íslandi, þessar Austur Evrópsku vændiskonur gera þetta ekki sjálfviljugar), Asíuríkja(þá er ég ekki að tala um ‘sweat shops’ heldur mansal og fleira, allir sem vinna í ‘sweat shops’ gera það sjálfviljugir og gera það aðeins vegna þess að það er lang besti kosturinn í þeirra stöðu.), Norður og Suður Ameríku. Þrælahald er enþá til og ætti alls ekki að líðast. Svo bara til að benda á það einn eina helvítis ferðina, þjáning mannsins er ekki sambærileg þjáningu dýrs. Kjúklingar eru ekki sjálfmeðvitaðir, þ.e., þeir vita ekki einu sinni að þeir eru til. Sama gildir um svín, kýr, og öll dýr sem ræktuð eru til matar. Belja finnur ekki fyrir neinni sorg þegar kálfurinn er tekinn frá henni. Það gerist ekki.

 13. Baconlover420 Avatar
  Baconlover420

  Gotta get that bacon baby

 14. Gunnar Geir Avatar
  Gunnar Geir

  Kæra fólk,

  eigum við ekki að svara hvort öðru af meiri yfirvegun. Maður sér ekki ljósið á sama tíma og manni er ögrað, sbr. fyrstu setningu í seinna svari Jóns. Grein Hildar er hnitmiðuð og góð, höfum því umræðurnar helst á sama plani.

  Kæri Jón: Ég held að þér sé ekki alveg sama um þjáningu dýra. Þér væri ekki sama ef einhver kæmi og sparkaði í hundinn þinn (ef þú ættir hund). Þér væri ekki sama vegna þess að þú veist að hann myndi þjást. Alveg eins þjáist kýrin þegar kálfurinn er tekinn frá henni – í dýraríkinu sést hvernig mæður vernda afkvæmi sín með öllum tiltækum ráðum.

  Vegna þess að þér er ekki sama um þjáningu dýra vil ég kurteisislega benda þér á að fiskurinn í sjónum fær að lifa frjáls í umhverfi sem er honum eðlislægt. Að sama skapi gengur lamb ekki í gegnum sömu hörmungar og kjúklingar og svín gera hér á landi. Grænmeti virðist ekki þjást í uppskeru, svo að því marki sem þér finnst óþægilegt að dýr þjáist getur þú valið ofangreindar afurðir í meiri mæli en áður ef þú kærir þig um.

  Af því að þú kallaðir eftir því er hér viðtal við dýralækni sem hefur kynnt sér verksmiðjuframleiðslu á Íslandi:
  http://velbu.is/ummaeli

  Bestu kveðjur,
  Gunnar Geir

 15. Dýr eru ekki fólk.
  Kálfar eru ekki börn.

  Þótt að þetta sé ágætis hugvekja þá er þetta ósmekklegur samanburður.

 16. Oddur Stefáns Avatar
  Oddur Stefáns

  Elsku fólk

  Lausn á þessu vandamáli verður komin innan 20 ára, (og mögulega innan 10) – Og verður að öllum líkindum orðin almenn innan 50 ára:

  http://www.fastcompany.com/1778661/ramen-hp-wild-possibilities-printing-food

  Prentaður matur er þegar til, en en sem komið er, er notast við sama hráefni (þ.e. dýr í prentuðum “kjötuðum” mat) en það er á kristaltæru að framtíðar 3D prentarar sem prenta úr frumefnum munu lýta dagsins ljós á almennum markaði (þar af leiðandi low cost) .. Ástæðan fyrir því að það er alveg á hreinu er vegna þess að nú þegar eru til prentarar, rándýrir reyndar, sem prenta líffæri (með misjöfnum árangri). Þannig að prentarar sem prenta mat úr frumefnum (þjáningar og karma free) munu verða að veruleika.

  Það er líka alveg öruggt að þeir verða notaðir fram yfir hefðbundin verksmiðju búskap, eingöngu vegna cost efficency… Það er miklu ódýrara að prenta úr frumefnum heldur en að rækta kjöt í margar vikur eða mánuði (eða ár), svo lengi sem prentara tæknin hefur náð tipping point hvað varðar “economy of scale” þ.e. þegar búið er að ná upp í þróunarkostnað og fjöldaframleiðsla komin af stað.

  Þeir sem munu reyna að rækta á hefðbundin verksmiðju máta (og hvað þá “lífrænt”) munu verða reknir af markaði útaf hefðbundunum framboðs og eftirspurnar lögmálum.

  Matur sem er prentaður mun einnig geta bragðast eins og matur búinn til á gamla mátann, og prentun býður líka uppú fleiri, áður óþekktar bragðtegundir.

  En það er samt ekkert að örvænta, þið hafið alveg nokkur ár enn til þess að stallsetja ykkur, með frontal lobe heilahvelin ykkar alveg laus við nokkur áhrif frá neðri heilahvelunum (nema þegar kemur airy fairy wide-eyed bambi yfirlætis rausi)

  P.s. Steingervinga saga staðfestir nokkuð vel að það er allavega algjörlega samliggjandi correlation á milli nægs aðgangs að kjöti (og ekki skemmdi fyrir þegar það var eldað) og stækkun framheilans í okkar tegund… þ.e. þessum parti heilans sem þið notið til að ímynda ykkur yfir aðra hafna. Þannig að þó við þurfum að býða í nokkur ár í viðbót áður en við upgrade-um okkur ennþá hærra frá frumskógarlögmálunum en tæknin hefur nú þegar leyft, þá eigum við öll kjötáti samt helvíti mikið að þakka, þar með talið getuna til að búa til svona karma free tækni. Geri önnur dýr betur.

 17. Mjög flott grein ! 🙂
  einmitt það sem ég er búin að vera að leita að eftir að ég horfði á Hungry for change, Vegucated, Food inc, Forks over knives og fleiri svipaðar

  en eitt finnst mér samt sérstakt miðað við kommentin, ef þið hugsið í alvörunni svona :
  “Dýr eru ekki fólk.
  Kálfar eru ekki börn.”
  Afhverju, ef börnin ykkar eru ekki kálfar, viljið þið endilega láta þau drekka mjólk sem er eingöngu gerð fyrir kálfa? (það er ekki eins og við þurfum hana eitthvað…)

 18. Jón, ekkert í þessari upptalningu þinni svaraði því af hverju í ósköpunum menn ættu að vera æðri öðrum dýrum á jörðinni.

 19. Dagbjartur Avatar
  Dagbjartur

  en hann svaraði öllu hinu andskoti vel..

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *