Þrettán – eitt fyrir typpin: Dólgslæti í stúkunni

Lífið á vellinum getur stundum verið vandasamt. Maður fagnar ákaft yfir tilþrifum í jafnréttisdeildinni og ýtir samviskusamlega á læk takkann þegar tilefni gefst. Stundum  er kvartað undan dólgslátum klappliðsins en ég veit ekki til þess að nokkurt okkar hafi sprengt upp nektardansstaði eða rænt nauðgara í nafni málstaðarins. Sjálf hef ég ekki einu sinni málað fúkyrði á karlrembuhöllina þó mig hafi oft langað til þess.

Oftast sitja klappstýrurnar stilltar og prúðar. En friðarspillarnir gera ekki boð á undan sér. Líffræðilegar vangaveltur um annars ágæta pistlasíðu RÚV urðu til dæmis tilefni að þessum síðustu ólátum. Allir pistlahöfundarnir eru nefnilega með typpi, nema einn. Þrettán ­­– eitt, fyrir typpin. Eru þetta lokatölur? Stuðningsmenn jafnréttis liggja sárir eftir og almestu bullurnar vilja kæra dómgæsluna. Þegar einhver vogar sér að telja typpi og píkur á opinberum vettvangi stekkur margur umsvifalaust eftir límbandsrúllunni, þessari með brúna límbandinu sem heldur svo asskoti vel. Líma fyrir túllann á þeim. Er það ekki besta leiðin til að taka á dólgum?

Dólgur: Tröll, riddbaldi, groddi. Dólgafemínisti hlýtur þá að vera agalegur útlits. Jötunn að vexti, einhver sem þú vilt ekki mæta að næturlagi í illa upplýstu götusundi. Hvað þá á vellinum. Þið getið því rétt ímyndað ykkur undrun mína þegar ég fletti upp orðinu. Dólgur sem forliður vísar nefnilega ekki í hárvöxt eða groddaskap viðkomandi heldur merkir orðið að sá hinn sami sé léttvægur í fræðimennsku sinni eða brúki hugtakakerfi femínista á yfirborðslegan hátt. Sá grunur læðist óneitanlega að manni að límbandsrúllugengið hafi ekki kíkt í orðabókina lengi. Það er að minnsta kosti eitthvað hressandi ef ekki beinlínis fallegt að nú þyki það ófínt að vera lélegur femínisti.

Það má svo sem vel vera að ég sé illa að mér í femínískum fræðum. En ég kann að telja og þegar ég tel þrettán karla og eina konu í pistlahöfundabunka RÚV gerist eitthvað í höfðinu á mér, eitthvað alveg ótengt jólunum. Eitthvað öfgadólga.

Helga Ágústsdóttir,
meistaranemi í ritlist.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *