Páfinn sem sagði af sér

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Væntingar þeirra sem tilheyra rómversk-kaþólsku kirkjunni við kjör Josephs Ratzingers til páfa 2005 hafa óhjákvæmilega verið æði mismunandi. Hann hafði verið prófessor við ýmsa þýska háskóla, síðast í Regensburg. Ungur var hann frjálslyndur guðfræðingur en snérist til aukinnar íhaldssemi kringum ´68. Á 8. áratugnum varð hann erkibiskup af Mainz, kardínáli og „trúfræðilögga“ kirkju sinnar (forstöðumaður Congregatio pro Doctrina Fidei). Hugsanlega var hann talinn geta snúið vörn kirkjunnar í sókn meðal fræðilega þenkjandi fólks í gamla heiminum. Hann boðaði enda afturhvarf til hefðbundinna grunngilda kirkjunnar sem svar við aukinni veraldarhyggju Vesturlanda. Þess vegna má líta á hann sem fulltrúa þeirrar skerpingar á sérstöðu kristninnar í heiminum sem mjög er kallað eftir nú á dögum — m.a. hér á landi — til að mæta þeim áreitum sem kirkjan verður fyrir í samtímanum.

Fyrrverandi páfi?

Þá hefur mat manna á fyrir hvað Benedikst XVI mundi helst verða minnst verið mismunandi fram undir þetta. Nú er það þó hafið yfir allan vafa. Hans verður minnst sem páfans sem sagði af sér. Þar er enda um stórtíðindi að ræða — ekki aðeins vegna þess hve sjaldan þetta hefur gerst, heldur miklu frekar sökum þess að afsögn stríðir gegn þeirri hugmyndafræði sem páfaembættið hvílir á. Samkvæmt henni er aðeins ein leið fær út úr páfadómi og hún liggur yfir móðuna miklu. Þetta skýrir tilfinningauppnám margra þeirra sem fréttamenn tóku tali á Péturstorginu strax eftir afsögnina. Mörg töldu páfann hafa óhlýðnast og brugðist trausti Guðs og manna.

Benedikt XVI olli líka ýmsum vanda með afsögn sinni. Praktískt hugsandi maður á borð við þann sem þetta ritar spurði t.d. strax: Hvernig ætli hann komi til með að standa í símaskránni í framtíðinni — sem Benedikt fv. páfi eða sem J. Ratzinger? Nú er svar fengið við þeirri spurningu. Hans fyrra sjálf verður aftur virkt og hann leystur undan öllum vegtyllum páfa. Hvorki rómversk-kaþólska kirkjan né heimsbyggðin rúmar heldur nema einn mann í páfadómi þótt mörg dæmi séu auðvitað um að tveir eða jafnvel þrír hafi tekist á um embættið fyrr á öldum.

Sjónvarpið olli afsögninni

Hin uppgefna ástæða fyrir afsögn Benedikts XVI er hrakandi heilsa hans og engin ástæða er til að draga hana í efa þótt fleira kunni að koma til. J. Ratzinger hafði enda skilað drjúgu dagsverki og náð eftirlaunaaldri og vel það er hann var valinn páfi.

Heilsan er þó ekki eina skýringin. Auðvitað hafa páfar oft verið ófærir um að gegna störfum um langt skeið áður en dauðinn leysti þá frá skyldum sínum. Fram undir þetta hefur Vadíkanið þó myndað leiktjöld sem hafa gert þetta mögulegt. Svo fremi sem páfi hefur getað birst í eigin persónu í glugganum fræga við Péturstorgið við nauðsynleg tækifæri hefur verið búandi við heilsulausan páfa. Við kúríuna hefur væntanlega alltaf verið nægan mannskap að finna sem fús var að vinna nauðsynleg verk og taka óhjákvæmilegar ákvarðanir. Hrumur páfi hefur aðeins fært kardínálasamkomunni aukin áhrif.

Eins og síðustu ár Jóhannesar Páls II sýndu gengur þetta ekki lengur. Sjónvarpið hefur gert það ómögulegt. Hrumur páfi gerir sig ekki í beinni útsendingu og það eykur ekki traust og tiltrú til embættisins eða rómversk-kaþólsku kirkjunnar ef ljóst er að æðsti stjórnandi hennar og einn af áhrifamestu leiðtogum heims er ekki lengur fær um að gegna embættinu af þeim myndugleika sem það krefst af handhafa sínum.

Nývæðing?

Benedikt XVI, kúrían, eða hverjir það voru sem að atburðarásinni sem lauk með afsögn páfa komu, sýndu mikla dirfsku. Þarna var hugsað af framsýni og viturleika eins og svo oft þegar stigið er út úr kassanum hver sem hann er. Nú er eftir að sjá hvort afsögnin verður einstakur atburður sem ekki endurtekur sig fyrr en eftir nokkur hundruð ár eða hvort hér var stigið róttækt skref í átt að nývæðingu á páfadæminu og í framhaldi af því rómversk-kaþólsku kirkjunni í heild.

Ekki er við því að búast að tekinn verði upp fastur eftirlaunaaldur páfa. Hitt kann þó að vera að ný leið hafi verið hönnuð út úr embættinu til frambúðar, viðurkennt að mögulegt sé að láta af embætti páfa líkt og hverju öðru köllunarhlutverki í kirkjunni svo ekki sé sagt starfi! Með því opnast t.d. leið til að kjósa yngri menn en oftast hefur verið raun á án þess að eiga þrásetu á hættu.

Ný hugsun kringum páfaembættið gæti líka flýtt fyrir endurskoðun á ýmsum öðrum atriðum sem valda því að rómversk-kaþólska kirkjan á undir högg að sækja víða um heim. Er þar átt við kröfuna um einlífi presta svo ekki sé minnst á prestsvígslu kvenna, afstöðuna til getnaðarvarna og samkynhneigðar. Þetta eru mál sem í sjálfu sér eru algerlega óskyld embættislokum páfa en verða rómversk-kaþólsku kirkjunni vaxandi fjötur um fót í náinni framtíð. Það þarf dirfsku og nýhugsun í kirkjunni til að glíma við þau hver sem niðurstaðan verður og hvort sem hún fæst fyrr eða síðar.

Ekkert af þessu þarf þó að breytast við þá atburði sem orðnir eru. Afsögn Benedikts XVI kann að verða algert einsdæmi. Þá verður hans aðeins minnst fyrir þá djörfung sem hann sýndi.

Kaþólskari en páfinn?

Við hér, mótmælendur uppi á Íslandi, höfum svo e.t.v. ástæðu til að hugsa skilning okkar á biskupsembættinu svolítið upp á nýtt í kjölfar afsagnarinnar ef við ætlum okkur ekki að verða „kaþólskari en páfinn“.

Í seinni tíð hefur verið litið svo á að sá eða sú sem eitt sinn hafi verið kjörin/-n biskup verði það áfram þótt viðkomandi láti af starfi: Eitt sinn biskup ávallt biskup. Þetta gildir greinilega ekki um Rómabiskup eða hvað? Hver eru þá rök okkar?


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *