Konur eru líka menn… NOT!

Í fyrra útskrifaðist ég úr kvikmyndaskóla. Tæplega þriðjungur nemenda var kvenkyns og var hlutfall kvenna hæst í leiklistardeildinni, þar var hlutur kvenna og karla jafn. Ég var ekki í leiklistardeildinni og var eini kvenmaðurinn í mínum bekk. Áður en ég hóf nám í kvikmyndaskólanum var ég við nám í Háskóla Íslands þar sem hlutfall kvenna og karla er nokkuð jafnt, þótt konur séu örlítið fleiri. Aldrei tók ég eftir því að komið væri öðruvísi fram við konur en karla. Hvorki af hálfu starfsfólks né nemenda. Frá kvikmyndaskólanum hef ég aðra sögu að segja. Konur fengu síður að spreyta sig á þeim störfum sem hafa verið eyrnamerkt körlum. Ég man hins vegar eftir að hafa verið sett í hlutverk förðunar- og hárgreiðsludömu, að mér forspurðri. Ég hef engan áhuga á förðun, jafnvel þótt á mig vanti typpi. Ég man líka þegar ég var beðin að vera skrifta, bara vegna þess að ég er stelpa. Og nei, strákurinn sem bað mig um það var ekki að grínast. Ég hélt að ástæðan væri sú að  skólinn sem ég var í er alþjóðlegur. Hugsanlega væri jafnrétti styttra á veg komið í heimalöndum samnemenda minna en á Íslandi. Svo virðist þó ekki vera. Að lítilsmeta konur er alþjóðlegt fyrirbæri. Og hvers vegna er ég að vekja máls á þessu núna? Jú, vegna þess að um síðustu helgi voru Edduverðlaunin veitt.

Í október á síðasta ári var RIFF (Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík) haldin. Aldrei hafði hlutfall kvenleikstjóra sem áttu verk á hátíðinni verið hærra. 37% leikstjóra voru konur og ég gladdist. Það er nefnilega til fullt af hæfileikaríkum konum í kvikmyndagerð. Fullt. Á Facebook síðu wift (women in film and television) á Íslandi eru tæplega tvöhundruð meðlimir. Þessar konur hafa ekki minna fram að færa til kvikmyndagerðar en karlmenn. Samt er litið framhjá þeim. Ef litið er á tilnefningar til Edduverðlaunanna má sjá að hlutur kvenna var rýr. Af þeim tólf einstaklingum sem tilnefndir voru fyrir besta handrit voru tvær konur. Af þeim átta sem tilnefndir voru fyrir bestu klippinguna var ein kona. Þrjár konur voru tilnefndar sem besta leikkonan í aðalhlutverki, þrjár í aukahlutverki. Fimm karlmenn voru hinsvegar tilnefndir sem bestu leikarar, í aðal- og aukahlutverkum. Ekki þarf að taka fram að engin kona var tilnefnd sem besti leikstjórinn. Flestir íslenskir leikstjórar eru karlmenn. Flest handrit að íslenskum kvikmyndum eru skrifuð af karlmönnum. Um karlmenn.

Og þá komum við að því sem vakti mesta furðu hjá mér. Engin kona þótti þess verðug að hljóta titilinn sjónvarpsmaður ársins. Ekki ein einasta. Og þó starfar fjöldi kvenna í sjónvarpi. Hinsvegar voru fimm karlmenn tilnefndir; Andri Freyr Viðarsson, Björn Bragi Arnarson, Gísli Einarsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson og Sigmar Guðmundsson. Þeir voru valdir í netkosningu sem fór fram á vísi.is. Í hugum kjósendanna er greinilega ekki til sú kona á landinu sem kemst með tærnar þar sem þessir mætu menn hafa hælana. Eða þá að kjósendur hafi ruglast vegna þess að ekki var kosið um sjónvarpsfólk ársins. Hugsanlega héldu þeir að það væri sér kosning um sjónvarpskonu ársins … djók.

En hvaða lærdóm getum við (konur) þá dregið af þessu? Skilaboðin eru skýr. Áhorfendur vilja fremur karlmenn á skjáinn. Nema um leikið sjónvarpsefni sé að ræða. Þar eru konur velkomnar. Sérstaklega ef þær eru í hlutverki kynþokkafullra skurðlækna, já eða ósvífinna meinatækna sem koma glæpamönnum á bak við lás og slá (stífmálaðar og á háum hælum að sjálfsögðu). Og þar höfum við það. Árið er 2013 og það er greinilegt að konur eru ekki líka menn. Allavega ekki sjónvarpsmenn.

Ellen Ragnarsdóttir,
meistaranemi í ritlist.


Comments

3 responses to “Konur eru líka menn… NOT!”

  1. Sveinbjörn Hjörleifsson Avatar
    Sveinbjörn Hjörleifsson

    Ég er sammála nánast öllu sem þú sagðir í þessum pistli. Það er einungis eitt sem ég vil benda á.

    Ég vildi satt best að segja að fólk hætti að fylgjast með þessum verðlaunahátíðum, hætti að mæta, hætti að veita þeim viðurkenningu, hætta að láta eins og þær séu mikilvægar. Þetta eru samkundur þar sem innanbúðarfólk klappar hvort öðru og sjálfu sér á bakið og litið er niður á allt það sem er ekki menningarelítunni að skapi. Þú getur til að mynda oftast nær bókað það að verk sem fer of langt út fyrir ramma hins borgaralega smekks, hvort sem varðar stíl eða efnistök, er algjörlega hundsað.

  2. Harpa Börnsdóttir Avatar
    Harpa Börnsdóttir

    Takk fyrir góða grein. Ég var líka alveg sérstaklega hugsi yfir þessu með sjónvarpsmann ársins, þar er nefnilega margt góðra kvenna og karla í vali. Ég veit ekki með aðra, en ég horfi sjálf oft á N4, norðlensku stöðina á Akureyri, sem er einhvers konar “Landinn” (ef fólk vill álíta landsbyggðina einhvern sérafkima Íslands, en höfuðborgina veislusalinn). Þar er sjónvarpskona sem ég daíst mikið að, hún er vel að sér, aðlaðandi, spyr góðra spurninga, og laðar fram það áhugaverða hjá fólkinu sem hún ræðir við. Heitir Hilda Jana Gísladóttir. Hún er verðlauna verð. Það er allt of oft sem landsbyggðin gleymist í þessu landi, og hún gleymist alveg örugglega þegar kemur að Eddunni eða annarri viðurkenningu fyrir vel unnin störf, þá er eins og ekkert gerist fyrir utan höfuðborgasvæðið…….samt er Mugison úti á landi, Eiríkur Örn Norðdahl, og margt fleira fólk sem er að gera stórkostlega hluti…….og býr úti á landi á meðan það geir það………..meira að segja Baltasar er fluttur úr höfuðborginni í Skagafjörðinn og telur sig vinna betur úti á landi að kvikmyndum sínum, sérstaklega forvinnunni og eftirvinnunni, (handrit, skipulag, klipping), sem er reyndar ekki síst veigamikið og krefst einbeitingar sem ef til vill finnst ekki friður til í borginni.

  3. Ragnar Thorisson Avatar
    Ragnar Thorisson

    Hárrétt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *