Að verða sá sem man

Fjörutíu ár. Þegar ég varð fjörutíu ára fyrir bráðum átta árum upplifði ég tímamót. Ég varð fullgildur einstaklingur. Búin að læra eitthvað. Hafði lifað sitthvað. Dálítið pottþétt eins og vottuð möbelfakta Ikea-mubla. Var ekki að verða nokkuð. Bara var.

Núna er ég hins vegar komin á þann aldur að ég man það sem gerðist fyrir fjörutíu árum. Það skelfir mig og gerir mig einhvern veginn háaldraða.

Ég heyrði inn í næturdraum að síminn hringdi. Það hafði aldrei gerst áður. Hver hringir um miðja nótt og til hvers? Ég var enn of ung til að vita að símhringingar að næturlagi flytja yfirleitt annaðhvort fréttir af fylleríi eða feigð.

Pabbi var á næturvakt í Loftskeytastöðinni í Gufunesi, já, stöðin sú var langt fyrir utan bæinn og kjarasamningurinn kvað á um að hann fengi fría rútuferð í og úr vinnu vegna fjarlægðar frá heimili. Nú stendur hús þessa fyrrum fjarskiptamáta við Sóleyjarrima í Grafarvoginum. Mamma svaraði í símann. Að loknu símtali vakti hún þrjú af fjórum börnum sínum, það yngsta tveggja og hálfs árs fékk að sofa. Eldgos. Það var byrjað eldgos í Vestmannaeyjum og pabbi hringdi í mömmu til að segja henni tíðindin. Mamma kveikti á útvarpinu sem var samvaxið grammófón, mubla á fótum. Við settumst berleggja á nýparketlagt gólfið í hálfinnréttuðu húsinu okkar í Garðahreppi, einblíndum á tauið sem huldi hátalarana og hlustuðum á tilkynningar Almannavarna ríkisins til Vestmannaeyinga um að fara niður að höfn um borð í báta til Reykjavíkur. Þarna varð ég, langt gengin á áttunda árið, í fyrsta sinn þátttakandi í því sem var að gerast í þjóðfélaginu, að mér fannst. Ég var vakin um miðja nótt til að verða vitni að náttúruhamförum. Ég var vakin til að fylgjast með fréttum af fólki sem ég þekkti ekki neitt. Ég var vakin til að vera með og finna samkennd.

Og síðan eru liðin fjörutíu ár. Í fréttum af því að þessi áratugafjöld væri liðin frá því að gosið í Heimaey hófst var talað um mikilvægi þess að skrá söguna því sífellt fækkaði þeim sem myndu Eyjar eins og þær voru fyrir gos. Þótt ég hafi ekki verið á staðnum og ekki þekkt neinn í Eyjum get ég ekki komið þeirri hugsun undir hraun að ég er ein af þeim sem man. Og allt í einu, 23. janúar 2013, líður mér eins og hundrað ára gömlu konunum sem talað er við í blöðunum og muna frostaveturinn mikla 1918. 

Halla Margrét Jóhannesdóttir,
meistaranemi í ritlist


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *