Um höfundinn

Pétur Knútsson

Pétur Knútsson er dósent emeritus í ensku við Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru ensk hljóðfræði, mállýskufræði, félagsmálvísindi, setningaráherslur og hljómfjall, bragfræði, málsaga, forn- og miðenska, og munnmenntir. Sjá nánar

Þá hafa fræ cognitive studies, hugrænna fræða, loksins borist til Íslands, to blow our bodies away, eins og Charles Lock sagði eitt sinn við mig um eitthvað svipað. Begga og Tolli standa að einu heilstæðasta hefti Ritsins ever, allt um allt hugrænt, frá Skallagrími til setningarfræði. Þetta var erfitt; nóg er að lesa núna um jólin, listinn yfir ólesna skyldulesningu lengist í hið óendanlega, en samt var Ritið það forvitnilegt að forgangsröðin hrundi.

„Cognitive science“er að vísu dálítið skondin tvítekning: hvernig væru t.d. óhugræn vísindi, dyscognitive science? Fyrst datt mér það helst í hug að hugvísindasamfélagið væri að komast í ofurefnishyggjugír með því að staðsetja hið hugræna í líkamanum og líkamann í náttúrunni og náttúruna í rökheiminum og rökheiminn í excelskjali, og þá væri endanlega úti um andann. En þegar ég las meira fannst mér að menn væru loksins farnir að bregðast við andleysi fræða sinna undanfarna áratugi með því að finna aðferð til að umgangast andann í hlutunum án þess að hafa hátt um það, án þess að einhver færi að hvá. Að tala um andann án þess að nefna hann, eins og kettir í kringum heitan grautinn. Hugvísindamenn virðast vera í æðisgenginni leit að leiðum til að vera andlegir í hugsun án þess sýnilega að komast út úr skápnum.

Vandinn virðist vera að þeir hafa ekkert skilið í Goethe og því síður Coleridge, því þeir eru aldir upp í trúnni á að vitsmunastarfið í þeim sjálfum, eigin hugsanagangur, sé birtingarmynd flókinna algórytma, og að því flóknari sem þessir algórytmar séu, því merkilegri heilastarfsemin.

En vitsmunastarf og hugsanagangur er tvennt ólíkt. Röksemdarfærslan er alltaf greining eftir á, greining sem við beitum á hið þegar fullmótaða. Íslenska orðið hugsun merkir bæði það að hugsa, og það sem hugsað er. Hugsa er bæði áhrifssögn og áhrifslaus sögn. Á ensku getum við greint á milli thinking og thought, en fæstir nenna því, enda er orðið thought einnig tvíbent eins og hugsun.  Hugsun (=það að hugsa) er alltaf þegar um garð gengin áður en hugsunin (=það sem hugsað var)  birtist okkur, hún starfar alltaf á undan vitundinni.

Ættu þá ekki hugrænu fræðin að kenna okkur að hugsun (=það að hugsa) starfi einnig á undan líkamanum, á undan náttúrunni? Á undan orðinu? Var Orðið e.t.v. þegar til staðar?

Takk, Begga og Tolli, fyrir verulega bitastætt  Rit. Nú er að bakka aðeins og lesa Coleridge—í þetta skipti almennilega. Vitsmunasamfélagið er e.t.v. komið á það stig, að Coleridge kunni að byrja að meika sens.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *