Art in Translation – ráðstefna um ritlist

Art in Translation er alþjóðleg ráðstefna sem haldin verður dagana 24. – 26. maí í Norræna húsinu og Öskju. Þar verður stefnt saman listamönnum og fræðimönnum og skoðaðir ýmsir fletir á ritlist, bæði í fræðilegum erindum og listrænum gjörningum. Um 50 lista- og fræðimenn hvaðanæva úr heiminum hafa boðað komu sína.

Robin C. Hemley, sem stýrir ritsmiðju við Iowaháskóla, mun flytja opunarfyrirlestur á ráðstefnunni en aðrir lykilfyrirlesarar verða Abé Mark Nornes, prófessor í asískum kvikmyndafræðum við Michiganháskóla og Calum Colvin myndlistarmaður og prófessor frá Skotlandi.

Í tengslum við ráðstefnuna verða settar upp tvær myndlistarsýningar, á ljósmyndum Calums Colvin og á bókverkum myndlistarmanna.

Ráðstefnan er skipulögð af Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Norræna húsið, Háskólann í Manitoba, Reykjavík bókmenntaborg, Hugvísindastofnun HÍ, Þýðingasetur HÍ og Listahátíð í Reykjavík.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um ráðstefnuna á heimasíðu hennar.

Netverk bókverka (24. maí til 17. júní 2012 í Norræna húsinu)

Fyrir um fimmtíu árum varð til hreyfing myndlistamanna sem unnu verk sín í bókarformi, sendu bækurnar sín á milli og komu sér þannig upp samstarfsneti sem fóstraði nýja og róttæka sýn á myndlist, samfélag og menningu. Á Íslandi voru listamenn sem snemma tileinkuðu sér þetta nýja tjáningarform – einkum þeir Dieter Roth og Magnús Pálsson – og lögðu grunninn að sterkri bókverkahefð sem síðari kynslóðir listamanna hafa nýtt sér til að koma hugmyndum sínum á framfæri og rækta tengsl við aðra framsækna listamenn um allan heim. Sýningin kannar þennan sterka þráð í íslenskri samtímalist og varpar ljósi á það hvaða hlutverki bókverkin gegndu í að rjúfa einangrun íslenskra framúrstefnulistamanna og gera þá að virkum þátttakendum í nýlistinni á alþjóðavettvangi.

Sýning á völdum verkum listamannsins Calum Colvin (24. maí – 28. maí, 2012 í Norræna húsinu)

Calum Colvin teflir saman málaralist, höggmyndalist og skerpu myndavélarinnar í sínum „tilbúnu ljósmyndum“. Hann safnar saman munum sem eru síðan málaðir og ljósmyndaðir. Með þessum tilbúnu sviðsetningum verða til margbrotnar frásagnir, ríkar af skírskotunum og rúmfræðilegri margræðni. Verkin er sýnd sem stórar ljósmyndir.

Colvin býr í Edinborg. Verk eftir hann eru í eigu margra virtra safna, þ.á m. Metropolitan Museum of Modern Art í New York, The Museum of Fine Art í Houston, The Victoria and Albert Museum í Lundúnum, sem og skosku safnanna The Scottish National Portrait Gallery í Edinborg og The Tate Gallery.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *