Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Guðmundur Andri Thorsson hefur ort enn eitt tregaljóðið — sagnasveiginn Valeyrarvalsinn. Angurværðin sem við munum úr Segðu mömmu að mér líði vel (2008) og Náðarkrafti (2003) hefur jafnvel dýpkað.

Treginn býr bæði í stílnum, söguefninu og örlögum sögupersónanna. Ljúfsár tilfinning sem gælir við lesandann og seyðir inn í lognværa kyrrð er umlykur bókina út í gegn. Hún er líka full af tónlist, söng heimafólksins, tónlistinni í lífi þess, tónlistinni í orðunum — ýmist ljúfri eða hrjúfri.

Þegar stuttri rammasögu sleppir er Valeyrarvalsinn synkrónísk saga með nokkrum endurlitum. Sagan gerist í einu nú-i í nú-inu. Innri tími sögunnar er þessi stutta stund sem það tekur Kötu kórstjóra að hjóla að heiman niður í félagsheimili þar sem tónleikar eru í uppsiglingu. Leið hennar liggur um sögur allra hinna. Ytri tíminn er síðdegið á Jónsmessunni í fyrra eða hitteðfyrra. Hér er Hrunið staðreynd þótt Valeyrarvalsinn sé ekki Hrun-bók. Endurlitin gefa nú-inu dýpt og merkingu.

Valeyrarvalsinn segir frá nánum samvistum fólks og góðu lífi. Stöðugt drífur fleiri að garði Fríðu og Andrésar í Brimnesi, fíflavínið glóir og nægir handa öllum. Á Valeyri ríkir líka sár einsemd og hún býr yfir mörgum blæbrigðum. „Lífið er fyrir utan“ hjá Jósu í bankanum: „Henni finnst stundum eins og hún heyri í því þegar það líður hjá. Það kemur eitthvert hljóð, einhver súgur sem naumast heyrist og þá veit hún að þetta er lífið að fara hjá.“  — „Hér kvaddi lífið sér dyra og nú er það farið“, orti annað skáld. Einsemdin hefur önnur blæbrigði hjá Svenna verkstjóra í frystihúsinu. Hann þjáist enn vegna misnotkunarinnar sem alþingismaðurinn beitti hann sumarið sem hann var 11 ára. Háskalegust er einsemd sr. Sæmundar „Búft“. Einhvers staðar í rófinu milli samsemdar og einsemdar lifir svo og hrærist loftbólu- og Hrun-fólkið, Jói í Valeyrarvinnslunni og Óli Glans sem setti bankann á hausinn og konur þeirra. Samsemdin og einsemdin haldast svo í hendur hjá tónskáldunum sem fundu „staðinn sem ekki er til — staðinn þar sem tíminn er ekki til“ og leyndist á Amtmannsstígnum í R 101.

Við kynnumst Valeyri á sólbjörtu síðdegi. Þar virðist allt slétt og fellt þegar norsku katalóghúsin spegla sig í sléttum sjávarfleti. Eftir því sem sögunni vindur fram opnast þó óhugnanlegar gáttir. Mannrán og mansal í Austur–Evrópu fléttast inn í söguna. Heima í prestsetrinu gengur Sæmundur trekk í trekk „á Látrabjargi lífs síns til að horfa ofan í hyldýpið“. Þegar hann hefur öll tromp á hendi áttar hann sig á „að hans bíða ómældar þrautir hvernig sem fer. Löng leið um grýttan veg“. En hvert? Burt úr fíkninni? Hann er andstæða sr. Katrínar í Náðarkrafti. Hún myndar samhljóm í umhverfi sínu. Sæmundur rýfur hann. Ásta, vinkona Fríðu, skynjar gáttir fortíðar og ógæfu ljúkast upp um nótt í Brimnesi. Lalla lunda opnast líka viðsjárverðar víddir er hann bókstaflega ráfar inn í Alsheimer-heiminn. Í bókarlok reikar svikið skáld í fótspor engils út í þoku sem grúfir yfir Vífilstöðum um daga hins Hvíta dauða.  Vonleysi, þunglyndi, alkahólismi, fíkn og dauði er hvergi langt undan. Undir fögru yfirborði Valeyrar og sagnasveigs Guðmundar Andra um hana býr mikil ógn.

Ljúfsár sagan víbrar líka af spennu. Af hverju eru augu Kalla brostin? Mun hann stíga út úr kórnum, hefja upp raustina og syngja Nótt eftir Árna Thorsteinsson? Af hvergu frýs Óli Glans í miðri sögu? Hvers vegna horfist sr. Sæmundur í augu við sannleikann? Verða einhverjir tónleikar eða rofnar allur samhljómur á Valeyri þetta síðdegi? Er heimsendir í nánd? Er Valeyri staður skapaður af Guði — Locus iste, a Deo factus est — eða er hún þvert á móti gleymd af Guði?

Valeyrarvalsinn er eins og „askja“ Pandóru. Litirnir dökkna eftir því sem innar dregur. Þokunni fylgir kaldur súgur.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *