Bók Sifjar Ríkharðsdóttur gefin út erlendis

Nýlega kom út bókin „Medieval Translations and Cultural Discourse: The Movement of Texts in England, France and Scandinavia“  eftir Sif Ríkharðsdóttur, sérfræðing við Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands.  Bókin var gefin út í Bretlandi og Bandaríkjunum í janúar á vegum forlagsins Boydell & Brewer. Umfjöllunarefni bókarinnar er meðal annars íslensk bókmenntahefð á fjórtándu öld, enskar og norrænar þýðingar á frönskum hetjuljóðum, ljóðsögum og riddarasögum, og menningartengsl milli Íslands, Noregs og Bretlands á síðmiðöldum.

Á miðöldum bárust textar ritaðir á frönsku – til að mynda hetjuljóð, riddarasögur, verk Chrétien de Troyes og Marie de France – viðs vegar um Norðvestur-Evrópu.  Þessi útbreiðsla franskrar riddarahefðar ber vitni um stórtæka menningarlega yfirfærslu sem hafði áhrif á bókmenntahefðir og hugmyndafræði víðs vegar um Evrópu. Í þýðingaferlinu var þessum textum oft umbylt til að endurspegla hugmyndafræði eða hefðir þess menningarheims sem tók við þeim.

Í bókinni „Medieval Translations and Cultural Discourse“ er því haldið fram að líta megi á slíkar þýðingar sem átakasvæði menningarstrauma eða sem vettvang slíkra menningarmarka og að þær geti því veitt okkur einstaka innsýn í mótun og þróun menningarlegrar sjálfsmyndar og hlutverk móðurtungunnar í því ferli.  Með rannsóknum á þýðingaferli og þeim menningarfræðilegu, pólitísku og jafnvel kynjafræðilegu ástæðum sem liggja að baki innflutningi og endursköpun texta á þjóðtungum má greina ákveðin mynstur í þeim flókna vef sem einkennir menningarleg samskipti og ágreining.  Slík nálgun beinir athyglinni að krosstengslum mála- og menningarsvæða Evrópu á miðöldum og afhjúpar þau djúpstæðu menningarlegu átök og umbreytingar sem felast í bókmenntasköpun jafnt nú sem áður.

Um bókina á heimasíðu forlagsins Boydell & Brewer.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *