Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Þann 3. september s.l. var sýningin Uppnám frumsýnd í Þjóðleikhúskjallaranum. Uppnám samanstendur af tveimur sýningum, Homo Erectus – Pörupiltar standa upp! og Viggó og Víóletta – Sjálfshjálparsöngleikurinn.

Pörupiltar ríða á vaðið þessa kvöldstund og er sýning þeirra eins konar uppistand. Þrír piltar mæta á sviðið til að deila reynslu sinni af sjálfshjálparmeðferð sem þeir voru saman í. Umfjöllunarefnið er ást, umhyggja, æðruleysi en fyrst og fremst konur og samskipti við þær. Atriðið er bráðfyndið og  ögrar viðteknum hugmyndum um karlmenn og konur og kynhlutverk. Það eru konur sem bregða sér í gervi Pörupiltanna, sem sagt þetta er leikhópur sem er samansettur af leikkonum sem leika karlmenn og eru þeir að leika á sviði, svo mótsagnakennt sem það kann að hljóma. Hugmyndin kemur frá „drag-leik“ Subfrau-hópsins sem er hópur norrænna leikkvenna sem hafa tileinkað sér þessa leikhúsaðferð, en María Pálsdóttir er einn stofnanda hans. Hópurinn gerði rannsókn á kynhlutverkum leikara út frá ýmsum þáttum en helst út frá líkamstjáningu og rýmisnotkun. Til að útskýra þetta fyrirbæri betur er ekki úr vegi að vitna í viðtal við Maríu sem birtist í Morgunblaðinu 29. maí 2004 þar sem hún lýsir þessari leikaðferð:

„Það má segja að vinna okkar einkennist af því að rannsaka hvaða pláss konum leyfist að taka á sviðinu og skoða hver það er sem skilgreinir list leikkonunnar. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að leikhúsið er karlaheimur enda eru þeir í meirihluta leikskálda og leikstjóra auk þess sem flest bitastæðu hlutverkin eru ætluð körlum. Þetta er bara staðreynd og það þýðir ekkert að pirra sig á því. Hins vegar er skemmtilegt að leyfa sér að snúa upp á hlutina og skoða. Við höfum þannig mikið verið að spá í það hvaða myndir eru dregnar upp af konum á sviði, en þær eru að mörgu leyti afar íhaldssamar. Með sýningum okkar erum við að skapa okkar eigið rými í leikhúsinu og um leið að beina kastljósinu að kvenleika sem sjaldan eða aldrei sést á leiksviðinu.“

Pörupiltarnir eru þær Sólveig Guðmundsdóttir, Alexía Björg Jóhannesdóttir og María Pálsdóttir. Það er ljóst að þessar leikkonur hafa unnið rannsóknarvinnuna sína vel og voru þær oft svo trúverðugar í karlhlutverkum sínum að unun var á að horfa.

Seinni sýning kvöldsins er söngleikjaparið Viggó og Víóletta með svokallaðan sjálfshjálparsöngleik. Þarna eru á ferð þau Bjarni Snæbjörnsson og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir í hlutverkum Viggós og Víólettu. Söngleikurinn er í raun saga þeirra tveggja. Þau hittast vegna sameiginlegrar ástríður sinnar sína á söngleikjum og ganga saman í gegnum súrt og sætt. Þema Viggós og Víólettu er meðvirkni og með gleði að leiðarsljósi er gott að sópa vandamálum og viðkvæmum málefnum undir teppi, eins og fordóma hvers konar og meðvirkni.

Viggó og Víóletta eru nánast eins og Sylvía Nótt söngleikjanna. Þau eru paródía um kynþáttahatur, fordóma, sleggjudóma og svo mætti lengi telja. Mörgu snjöllu bregður fyrir og Bjarni og Sigríður Eyrún leika hlutverk sín á þann hátt að lítill vandi er að hlæja að þessari vitleysu sem fjallar þó undirniðri um grafalvarleg málefni.

Söngvarnir sem þau flytja eru úr hinum og þessum þekktum söngleikjum og ekki spillir fyrir að þau eru bæði afskaplega góðir söngvarar. Undirrituð býður spennt eftir að sjá þau á sviði í „alvöru“ söngleik.

Uppnámið í Þjóðleikhúskjallaranum er bráðskemmtileg sýning sem er vel þess virði að bregða sér á í skammdeginu.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *