Leikarar Listaverksins. Myndin er fengin af heimasíðu Þjóðleikhússins.

Umfjöllun um leikritið Listaverkið eftir Yasminu Reza

Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Höfundur: Yasmina Reza, þýðing: Pétur Gunnarsson
Leikstjórn: Guðjón Pedersen
Leikarar: Baltasar Kormákur, Ingvar E. Sigurðsson og Hilmir Snær Guðnason
Leikmynd: Guðjón Ketilsson
Búningar: Guðjón Ketilsson og Leila Arge
Frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 29. september 2011.

Fyrir stuttu frumsýndi Þjóðleikhúsið leikritið Listaverkið eftir skáldkonuna Yasminu Reza. Yasmina er mjög þekkt í heimalandi sínu Frakklandi fyrir leikrit, skáldsögur og nóvellur. Verk hennar eru fremur pólitísk, í víðum skilningi, og djúphugsuð og eiga það sameiginlegt að vera fremur aðgengileg (einnig fyrir áhorfendur aðra en Frakka). Í verkum sínum kallar hún eftir siðferðilegum svörum við áleitum spurningum og leyfir persónum sínum að efast um hefðbundin gildi almennings.

Þjóðleikhúsið hefur áður sett á svið leikrit eftir  Yasminu Reza, Vígaguðinn (2008) í leikstjórn Melkorku Teklu Ólafsdóttur og Lífið þrisvar sinnum (2002) í leikstjórn Viðars Eggertssonar. Listaverkið er eitt víðkunnasta verk höfundar. Það var frumsýnt í París árið 1995 og naut strax gífurlegra vinsælda. Höfundur hlaut Molière-verðlaunin fyrir besta leikritið í Frakklandi það ár og hefur Listaverkið í kjölfarið verið þýtt á yfir þrjátíu tungumál.

Listaverkið var fyrst frumsýnt hér á landi árið 1997 í leikstjórn Guðjóns Pedersen. Verkið fjallar um þrjá vini, Serge, Mark og Ivan. Þrátt fyrir margra ára vináttu eru þeir nokkuð ólíkir og hafa ólíkar lífsskoðanir. Þessi munur á félögunum kemur svo berlega í ljós þegar Serge kaupir sér rándýrt listaverk sem er hvítt málverk á hvítum striga og sitt sýnist hverjum. Að sumu leyti snýst ágreiningurinn um fagurfræði og um spurninguna eilífu hvað sé list og hvað ekki. Verkið er bráðfyndið og er djúp ádeila á nútímasamfélagið og listheiminn.

En verkið fjallar kannski fyrst og fremst um vináttu. Rof virðist myndast í langa vináttu Serge og Marks þegar þá greinir á um kaup á málverkinu hvíta. Það er líkt og Mark taki listaverkakaupin sem persónulega árás. Ívan er hins vegar eins konar sáttasemjari, sem gengur reyndar misvel að miðla málum enda á hann í stöðugum vandræðum sjálfur með sitt eigið líf. Úr verður bráðfyndin flækja.

Sú ákvörðun Þjóðleikhússins að velja þetta verk aftur til sýningar er skiljanleg ef litið er á vinsældir sýningarinnar fyrir 14 árum. En að öðru leyti er þessi ákvörðun sérkennileg. Það kann að orka tvímælis þegar fengnir eru nánast nákvæmlega sömu listrænu aðstandendur og árið 1997.

Baltasar Kormákur, Ingvar E. Sigurðsson og Hilmir Snær Guðnason fara með hlutverk félaganna þriggja. Þessi piltar voru stjörnur á uppleið fyrir 14 árum og hefur frægðarsól þeirra skinið nánast óslitið síðan þá. Í viðtali við Melkorku Teklu Ólafdóttur í leikskrá segjast þeir félagar hafa reynt að nálgast verkið eins og þeir kæmu að því í fyrsta skipti, með opnum huga og forðast að horfa á gamlar upptökur af sýningunni ’97. Þrátt fyrir það virðist sem þeir hafi dottið í mjög svipaða persónusköpun nema að í þetta sinn er hún ekki eins ýkt. Þeir nýta sér aldur sinn og reynslu til að hleypa lífi í persónurnar. Þetta tekst ágætlega og sannast hér enn og aftur að þeir þremenningar eru snjallir leikarar.

Leikmyndin var sú sama og síðast, pappakassar í hrauk á sviðinu með litlu herbergi þar á bak við. Leikmyndin var ekki vel heppnuð á sínum tíma og ekki hefur hún batnað með aldrinum. Leikritið gerist að mestu heima hjá Serge og brýtur leikmyndin í bága við persónu hans sem er upptekin af því að fylgja tískustraumum listaspíranna. Leikbúningar eru einhæfir og má segja gamaldags þrátt fyrir að reynt sé að setja verkið í tímalausan búning.

Guðjón Pedersen leikstjóri hefur í gegnum tíðina farið ótroðnar slóðir við uppsetningu verka og kemur því á óvart að þessi sýning sé færð upp á þennan hátt.

En þrátt fyrir nokkra annmarka er sýningin bráðskemmtileg, vel leikin og handritið er frábært.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *