Eldfjall á erindi við okkur

„Eldfjall er raunsæ kvikmynd, borin uppi af sterkri sögu, góðum leik og styrkri leikstjórn.

Eldfjall er kvikmynd um ástina í sinni fjölbreyttustu og stundum óvæntustu mynd. Hún sýnir innilega ást og unað elskenda. Hún sýnir ábyrgðarfulla og fórnandi ást. Magnaðar nærmyndir mýkja hrjúfan mann og tengja áhorfanda við aðalpersónu.

Eldfjall er kvikmynd um fjölskylduna, um brotin og heil samskipti. Hún sýnir vonleysi og miðlar von. Hún miðlar nánd og pirringi, hlýju og kulda, gleði og sársauka.

Eldfjall er kvikmynd um ellina sem minnir á þörfina fyrir umhyggju og nærveru.

Eldfjall er kvikmynd sem skilur eftir spurningar og hvetur til samtals um mikilvæg efni.“

Svona er rökstuðningur dómnefndarinnar sem veitti Eldfjalli kvikmyndaverðlaun kirkjunnar í ár. Þjóðkirkjan hefur veitt verðlaun á RIFF í sex ár. Verðlaunamyndirnar koma frá ýmsum löndum og fjalla um ólík efni: endurhæfingu morðingja, fjölskyldu í heljargreipum kynferðisofbeldis, uppbyggingu eftir þjóðarmorð, úrvinnslu sorgar, kynþáttafordóma og vináttu, ástina og ellina og umhyggjuna. Allt eru þetta myndir sem fjalla um brýnar tilvistarspurningar, miðla von og eru innlegg í samtal um lífið og trúna og samfélagið.

Eldfjall er fyrsta mynd leikstjórans Rúnars Rúnarssonar í fullri lengd. Hann er okkur að góðu kunnur fyrir stuttmyndirnar Smáfugla, Önnu og Síðasta bæinn. Þær hafa vakið athygli um allan heim. Rúnar er þroskaður leikstjóri og magnaður sögumaður. Áhorfandinn finnur sig í öruggum höndum á Eldfjalli.

Eldfjall fjallar um mikilvægar spurningar um lífið og tilveruna, hún leiðir okkur inn í heim elli og uppgjörs. Hún spyr áhorfandann knýjandi spurninga. Eldfjall á erindi við allar kynslóðir og ég vona að sem flestir fái tækifæri til að sjá hana. Ég vona líka að okkur takist að eiga um hana gott samtal, í bíóhúsunum og í kirkjunum um allt land.

Árni Svanur Daníelsson,
formaður dómnefndar kirkjunnar og meðlimur í rannsóknarhópnum Deus ex cinema


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *