Sveinn Skorri Höskuldsson

Snorrastofa og Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands stóð fyrir dagskrá til minningar um prófessor Svein Skorra Höskuldsson síðastliðinn laugardag, 1. október. Við birtum í tilefni þess minningarorð eftir Matthías Viðar Sæmundsson um Svein Skorra sem birtust í Ritinu 3/2002.

Daginn sem Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor var jarðaður, 23. september, var mér gengið í átt að miðbæ Edinborgar sem orkaði líkt og fyrr á öll skilningarvit, með litum sínum, hljóðum og lyktum. Allt var með venjulegum brag, í vestri Kastalinn og Sæti Arthúrs austan megin, en niðri í görðum Meadows sleikti fólk haustsólskinið. Snögglega hófust einkennilega þýðir hljómar út úr borgargnýnum, veikir í fyrstu en mögnuðust eftir því sem lengra dró inn í garðinn og allt í einu gekk ég fram á sitjandi mann við gangstíginn; með hárflóka niður herðar, grásprengdan, fúlskeggjaður og í svörtum lörfum. Maður þessi hefur ábyggilega verið á sjötugsaldri, rokkari úr öðrum tíma, en lék furðufimlega á fagurskreytta hörpu þótt gróffingraður væri. Ertu frá himnum? spurði kona á leið fram hjá. Nei, en ég er að reyna afla farareyris þangað, var svarið. Í húfu við hlið hans lágu nokkrir aurar.

Ekki er ástæða til að líkja Sveini Skorra við aldurhniginn rokkara í Edinborg, þótt gaman hefði hann af slíkum leik, en andstæður mannlífsins eru hinar sömu hvert sem litið er; kannski aldrei meiri en þegar við stöldrum við og íhugum endalok, því þótt okkur sé gjarnt að lýsa andláti sem fullkomnun, árangursríkum endi, þá er svo sjaldnast. Sveinn Skorri átti í fórum sínum gnótt efnis sem beið úrvinnslu þegar hann lét af kennslustörfum; ævistarfinu var langt í frá lokið og starfsfjörið meira ef nokkuð var; framundan fræðirit og bækur persónulegs eðlis.

Sveinn Skorri var raunhyggjumaður með ástríðufullan áhuga á rómantískri ljóðlist. Þar byrjaði þetta allt, hélt hann fram, við dræmar undirtektir mínar, þar gerðist allt og hvað skyldi nútíminn vera annað en veikt bergmál þrátt fyrir hroka sinn og nýjungagirni? Sjálfur velti hann andstæðum bókmenntasögunnar fyrir sér árum saman, var manna fróðastur um fagurbókmenntir og jós af örlæti af fróðleik sínum, alltaf reiðubúinn að hlúa að frumlegum hugmyndum, þótt hann vissi að engin hugsun er ný undir sólinni, eða heldur, að allt er í senn nýtt og gamalt eftir sjónarhorni hverju sinni.

Sveinn Skorri í fangi móður sinnar, Sólveigar Bjarnadóttur, ásamt foreldrum Sólveigar, Sigríði Jónsdóttur og Bjarna Bjarnasyni.

Sveinn Skorri Höskuldsson fæddist á Sigríðarstöðum í Hálsahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu 19. apríl árið 1930, en fluttist á fjórða ári að Vatnshorni í Skorradal og ólst þar upp til fermingaraldurs. Löngu seinna ritaði hann einkennilega magnaða bók um æskuár sín og uppvöxt í Skorradal, sagði frá ættmennum og atburðum í ósplundruðum heimi; bókin hét Svipþing (1998) og ber glöggt vitni um skáldagáfu og ritleikni Sveins. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1950 og MA-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1958. Sveinn stundaði auk þess nám í dönskum bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla árið 1958-1959, í enskum bókmenntum við Manitobaháskóla í Winnipeg árið 1960-1961 og almennri bókmenntasögu og poetik við Háskólann í Uppsölum árin 1964-1967. Þá lagði hann stund á rannsóknir við helstu háskóla Danmerkur, Kanada og Þýskalands um árabil. Sveinn kvæntist eftirlifandi konu sinni, Vigdísi Þormóðsdóttur, árið 1953 og eignuðust þau fjögur börn.

Sveinn Skorri var lektor í íslensku máli og bókmenntum við Uppsalaháskóla um sex ára skeið, 1962-1968, en árið 1968 tók hann við stöðu lektors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Tveimur árum síðar, 1970, var hann skipaður prófessor við sama skóla og gegndi því starfi um þrjá áratugi. Hann var forseti heimspekideildar á árunum 1971-1973 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa í þágu fræðigreinar sinnar. Hann var jafnframt virtur og afkastamikill fræðimaður, var ritstjóri Studia Islandica um langt skeið og birti mikinn  fjölda greina og ritgerða í innlendum og erlendum tímaritum. Árið 1965 sendi hann frá sér stórvirkið Gestur Pálsson. Ævi og verk í tveimur bindum, undirstöðuverk um íslenska raunsæisstefnu. Þetta rit er byggt á traustum grunni umfangsmikilla rannsókna, aðferð fræðilegs pósitívisma höfð að leiðarljósi, vísindaleg nákvæmni og hlutlæg sundurliðun staðreynda. Hið sama má segja um ævisögu Benedikts frá Auðnum, 1993, en hún er í ákveðnum skilningi eðlilegt framhald af verkinu um Gest, enda bilaði áhugi Sveins á raunsæisstefnu nítjándu aldar aldrei. Bæði þessi rit munu þegar frá líður teljast með merkustu ritum um íslenska menningarsögu.

Sveinn Skorri Höskuldsson

Ekki er ofmælt að með Sveini Skorra hafi nútíminn haldið innreið sína í bókmenntakennslu og bókmenntarannsóknir við Háskóla Íslands. Hann var bæði giftudrjúgur og áhrifamikill kennari, fræddi nemendur sína um flugastraum nýrra aðferða og hugmynda, þótt sjálfur notaði hann bíógrafíska eða ævisögulega aðferð í sínum helstu skrifum. Þessi ,,aðferðafræði“ féll úr tísku meðal háskólamanna á áttunda áratugnum, svo vera má að Sveinn hafi fundið til einangrunar um skeið, en víst er að bíógrafían hefur rétt hlut sinn á síðustu árum, samofin nýsögu (new-historicism), einsögu (micro-history) og fleiri hugmyndastraumum sem sýna að fátt er nýtt undir sólinni. Svo virðist sem margir hafi hálfgleymt því um tíma að bókmenntasaga án undirstöðu í hlutstæðri rannsókn hins smáa og hversdagslega er aldrei meira en hálfsögð rolla, að sagnfræði og bókmenntakönnun heyra saman eins og eyra og höfuð.

Sveinn Skorri átti mikið verkefni óuninð þegar hann féll frá; ævisögu Gunnars Gunnarssonar sem einnig glímdi við andstæður í leit að niðurstöðu sem ef til vill er hvergi að finna. Mér finnst það við hæfi: að deyja frá óloknu verki, í spurn en ekki upphrópun, enda var lífsskoðun Sveins Skorra þess eðlis eftir á að hyggja. Í ritum hans um eðli og einkenni ljóðlistar, Að yrkja á atómöld (1970) og Ljóðarabb (1989), má þannig greina ljóðræna fegurðarhyggju, þrá til rómantíkur, þrátt fyrir hugmyndaflug skynsemistrúar og existensíalisma. ,,Að skynja sjálfan sig skyndilega yfir litlu kvæði sem heilan og ósundraðan í heilum og óskiptum heimi“, skrifaði hann, ,,er hamingja sem lestur góðs ljóðs getur veitt.“ Hamingjukennd Sveins kann að hafa verið tengd ósplundraðri heimsmynd, sem lýst er í æskuminningum hans, Svipþingum, en sú kennd tengdist reynslu fullorðins manns af afstæðri og tvístraðri veröld. Öðrum þræði vísindaleg staðfesta, en á hinn bóginn rómantísk, næstum trúarleg auðmýkt gagnvart hinu ljóðræna, sem aftur blandaðist kaldhæðinni vissu um fánýti mannlegra skrifa. Sveinn Skorri var um allt þetta dæmigerður 20. aldar maður.

Matthías Viðar Sæmundsson
birtist í Ritinu 3/2002, bls. 9-11.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *