Hvernig háskóli fagnaði 100 árum?
Hundrað ára afmælishátíð Háskólans á dögunum var flott, fjölbreytt og flæddi vel í hröðum og léttum takti. Það var ánægjulegt að sitja úti í sal og njóta þess sem fyrir augu og eyru bar. Dagskráin vakti ýmsar vangaveltur. Á leiðinni út velti ég fyrir mér spurningunni: Hvernig háskóli var það sem þarna fagnaði afmæli sínu?
Ungur og hefðalaus
Það fyrsta sem kom upp í hugann var að HÍ er ungur og hefðalaus háskóli. Hann býr ekki að neinni háskólamenningu eða táknum sem einkenna gamalgróna háskóla. Raunar gæti hvaða skóli sem er, jafnvel hvaða fyrirtæki sem er, haldið upp á 100 ára sögu sína með svipuðum hætti og gert var. Í gamalgrónum háskólum hefði brugðið fyrir kápum, rektorskeðjum og ýmsum öðrum táknum sem eiga rætur að rekja allt aftur til miðalda. Að þessu leyti var afmælishátíðin jafnvel með borgaralegra sniði en venjubundnar útskriftarathafnir.
Á þetta er ekki endilega bent í gagnrýnisskyni. Íslenskt samfélag er í mörgu tilliti ungt og hefðarlaust. Auðvitað er til fornfræg íslensk menning sem ekki skal vanmetin. Nú á dögum bendir samt margt til að okkur skorti ýmislegt sem einkennir menningarþjóðir, þar á meðal form og festu.
Í öllu falli kom Háskólinn fram á laugardaginn sem alþýðlegur þjóðskóli og það er ágætt.
Samfélagstengdur?
Í dagskránni á laugardaginn komu fram skýrar samfélagspólitískar vísanir. HÍ starfar í næsta nágrenni við Austurvöll, vettvang Búsáhaldabyltingarinnar, þar sem eldarnir brunnu, tunnur voru barðar og ráðherrum var vísað á dyr. En var Háskólinn þar einhvers staðar nærri? Tók hann þátt í atburðarásinni og hafði hann haldið uppi markvissri gagnrýni á veltiárunum fyrir Hrun?
Vissulega erum við mörg stolt af Gylfa þætti Magnússonar. Hann kom úr okkar röðum. En steig hann þrátt fyrir allt ekki út fyrir háskólasvæðið þegar hann gekk inn á vettvang þjóðmálanna? Hann axlaði fyrst og fremst persónulega ábyrð og stóð með henni. — En rís Háskólinn sem slíkur undir því að geta kallast félagspólitískt afl á byltingartímum? Tæpast.
Raungreinaskóli
Fyst og fremst var það þó raungreinaskóli sem fagnaði aldarafmæli sínu. Jú, fornleifafræði er greinilega stunduð við skólann en hún flokkast af sumum sem raunvísindi. Við skólann er greinilega líka fengist við handritafræði enda erfitt að sniðganga sagnaarfinn og handritin sjálf á varðveisluskrá UNESCO. Þá kom fram að lögð er stund á uppeldisfræði. Af dagskránni mátti loks ráða að lögfræði hefur verið kennd fyrr á tíð en ekki kom fram að svo sé enn í dag. Hugvísindi almennt og yfirleitt komu hins vegar lítið ef nokkuð við sögu.
Nú kann að vera að raunvísindi séu myndrænni en hugvísindi. Það er leiðigjarnt að horfa á fólk bogra yfir bókum. Hugmyndaríkur myndatökumaður hefði þó leyst þann vanda. Hér var fremur um ritstjórnarlapsus að ræða. Svo kann hefðarleysið sem drepið var á að framan auðvitað að valda því að hugvísindi hafi lent á blindum bletti. Þau eru vissulega um margt hefðbundnari en raunvísindin.
Nú skiptir í sjálfu sér litlu hvort komið sé inn á alla þætti háskólastarfsins eða ekki í stuttri og snarpri yfirferð á borð við þá sem farin var í Eldborg. Alltaf verður að velja og hafna og eitthvað fellur í skuggann. Það er hins vegar áleitin spurning hvort hátíðardagskráin endurspegli ekki hversdaginn í Háskólanum nú um stundir. Hafa raunvísindin ekki sett sinn staðlaða og staðlandi svip á allt starf Háskólans í seinni tíð? Hvert eru viðmiðanirnar t.d. sóttar í gæða- og hvatakerfunum? Í hvaða farveg hefur birtingum á sviði hugvísinda verið stýrt á undangengnum áratugum?
Nú ættum við hugvísindafólk að spyrja okkur hvort þær breytingar sem orðið hafa á birtingu rannsóknarniðurstaðna í hugvísindum á undanförnum áratugum hafi virkað hvetjandi eða letjandi þegar um raunveruleg gæði er að ræða?
Leave a Reply