#276: Háskólakálfur Tímans um Háskóla Íslands

Um höfundinn
Eiríkur Smári Sigurðarson

Eiríkur Smári Sigurðarson

Eiríkur Smári Sigurðarson er rannsóknarstjóri á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Hann kennir forngrísku og heimspeki við Háskóla Íslands og Menntaskólann í Reykjavík. Sjá nánar

Þegar afmælishátíð Háskóla Íslands náði hámarki fékk skólinn þær gleðifréttir að vera kominn á blað með bestu háskólum í heimi. Háskólakálfur Tímans í Bretlandi (Times Higher Education Supplement, hér eftir THE) hefur komist að þeirri niðurstöðu að skólinn sé í hópi 300 bestu háskóla  heims og þar sem þeir eru um 17.000 þá þýðir þetta að hann er í hópi 2% bestu skólanna. Ísland virðist auk þess vera eina smáríkið með háskóla á þessum lista.

Það hefur verið yfirlýst stefna skólans undanfarin ár að komast á lista yfir 100 bestu háskóla heims. Mörgum hefur þótt þessi stefna fráleit og hafa rektor og aðrir verið gagnrýndir, bæði opinberlega og í daglegu tali, fyrir þessa áherslu. Sumum þykir markmiðið fullkomlega óraunhæft og mörgum stefnan þar að auki skaðleg þar sem sóknin eftir að komast á lista kalli á breytingar sem eru ekki að öllu leyti góðar. Um það má deila en hitt er staðreynd: Skólinn er nú kominn á lista. Hann komst ekki í topp hundrað í þessari atrennu heldur í topp þrjú hundruð. Það er mjög stórt skref og eflaust mun háskólinn keppast við að komast ofar á næstu árum. En til að komast ofar þarf að uppfylla enn betur þær kröfur sem eru gerðar til öndvegisháskóla, samkvæmt þeim sem mæla og raða á listann. Háskólinn þarf að gera þetta í samkeppni við stóran hluta annarra háskóla í heiminum, sem allir keppast við að komast ofarlega á lista. Það er því ekki úr vegi að skoða á hvaða forsendum skólarnir eru metnir. Þetta er þó hægara sagt en gert og þó heimasíða THE veiti ákveðnar upplýsingar um hvernig matið fer fram þá eru þær ekki ítarlegar. Það sem kemur hér á eftir er byggt á heimasíðunni og nýlegri skýrslu frá Háskólasamtökum Evrópu (EUA) um háskólalista.

Listinn sem THE tekur saman er einn af mörgum sem eru gefnir út reglulega.[1] Ásamt Shanghælistanum, sem kom fyrst út árið 2003, er hann sá sem fær mesta athygli ár hvert. Matið byggir á eftirfarandi fimm þáttum:

  • Kennsla (30%).
  • Rannsóknir (30%).
  • Áhrif rannsókna (30%).
  • Alþjóðavídd (7,5%).
  • Tekjur frá fyrirtækjum (2,5%).

Margir listar hafa verið gagnrýndir fyrir að leggja of mikla og einhliða áherslu á rannsóknir og rannsóknavirkni við mat á stofnunum. Þetta má með sanni segja um Shanghælistann og marga aðra en fyrir lista THE er gerð tilraun til að ná utan um fleiri þætti. Listinn sem er gefinn út í ár er um margt frábrugðinn listanum frá 2010 og sá listi var gerólíkur listum  sem THE gaf út árin á undan (það er því erfitt að bera saman niðurstöðurnar 2009, 2010 og 2011). Þeir listar voru að mestu byggðir á skoðanakönnunum meðal háskólafólks víða um heim og þóttu of huglægir. THE tók því upp fjölbreyttari aðferðafræði með blöndu af skoðanakönnunum og tölfræðigreiningu í samstarfi við Thomson Reuters (sem á ISI-gagnabanka tímarita). Þar sem tölulegar upplýsingar eru notaðar þá er tekið tillit til stærðar skóla þannig að smærri skólar standa ekki verr að vígi en stórir (Californian Institute of Technology, sem er í fyrsta sæti, er miklu minni háskóli en Harvard, sem er í öðru sæti). Háskólarnir veita sjálfir tölfræðiupplýsingarnar sem matið byggist á og það getur í sumum tilfellum verið erfitt að meta áreiðanleika þeirra. Til dæmis getur verið furðuerfitt að telja akademíska starfsmenn háskóla.

Kennsla:

Hér er reynt að leggja mat á námsumhverfið. Háskóli Íslands fær mjög fá stig í þessum lið, eða 10,7, og er það lægsta einkunn fyrir kennslu af öllum háskólunum 400 sem komast á lista. Mat á gæðum kennslu er erfitt og þetta er sennilega veikasti hlekkurinn í matinu. Matið byggist á fimm breytum. Í fyrsta lagi er skoðanakönnun („reputational survey“ er það kallað) meðal háskólafólks og svöruðu rúmlega 17.500 könnuninni. Það væri langt seilst að kalla þetta jafningjamat, enda er það ekki gert á heimasíðu THE, þar sem þeir sem svara eru ekki beðnir um að kynna sér málin neitt sérstaklega. Á heimasíðunni eru litlar upplýsingar um hvernig könnunin var gerð, hvernig spurningin var orðuð, hvaða valmöguleikar voru til að svara o.s.frv. og því erfitt að meta gæði hennar. Það virðist hins vegar vera svo að háskólarnir sem raða sér í efstu sætin fái svo til öll atkvæðin í þessari könnun. Könnunin hefur helmingsvægi fyrir kennslumatið, eða 15% af heildarmati. Næststærsti liðurinn í kennslumatinu, með 6% vægi, er hlutfall útskrifaðra PhD nema og akademískra starfsmanna. Næst kemur fjöldi nemenda á kennara, mælt sem hlutfallslegur fjöldi nemenda í grunnnámi og akademískra starfsmanna. Vægi þessa er 4,5%. Hlutfall fjölda nemenda sem útskrifast úr grunnnámi og nemenda sem útskrifast úr PhD námi hefur vægið 2,25% og síðasti liðurinn er tekjur á hvern akademískan starsmann (reiknaðar með tilliti til kaupmáttar í hverju landi  – „purchase power parity“). Af þessu er ljóst að fyrir utan skoðanakönnunina, sem háskólar neðarlega á listanum koma almennt illa út úr, skiptir fjöldi doktorsnema mjög miklu fyrir útkomuna úr þessum lið.

Rannsóknir:

Við mat á rannsóknum er reynt að meta umfang, tekjur og orðspor hverrar stofnunar. Háskólinn fær 17,3 stig hér, sem er ekkert mjög lágt í samanburði við aðra skóla á svipuðum slóðum í töflunni.  Skoðanakönnun, sem fleiri en 17.000 svöruðu, hefur rúmlega helmingsvægi í þessum lið, eða 18% af heildinni (skoðanakannanirnar tvær hafa því 33% vægi). Tekjur til rannsókna hafa 6% vægi. Tekjurnar eru metnar í hlutfalli við fjölda akademískra starfsmanna og tekið er tillit  til kaupmáttar í hverju landi. Frá síðustu könnun hefur sú breyting verið gerð að vega rannsóknatekjur eftir fagsviðum. Þar sem t.d. rannsóknastyrkir til hugvísinda eru almennt talsvert lægri en rannsóknastyrkir til heilbrigðisvísinda, þá fá rannsóknastyrkir til hugvísinda meira vægi en rannsóknastyrkir til heilbrigðisvísinda. Þessari aðferðafræði er beitt á fleiri stöðum í matinu, t.d. á birtingar, tilvísanir og fjölda doktorsnema, og skýra af hverju sumir skólar hoppa talsvert hátt upp listann frá því í fyrra (THE nefnir London School of Economics sem dæmi en það má velta fyrir sér hvort þetta hafi haft áhrif á stöðu Háskóla Íslands). Þetta er mikilvægasta breytingin á könnununum milli ára. Síðasti mælikvarðinn á rannsóknir er fjöldi birtinga á hvern akademískan starfsmann. Hann hefur 6% vægi. Þegar birtingar eru metnar, og tilvísanir í birtingar, er einungis miðað við ISI-gagnabanka Thomson Reuters. Það er vel þekkt að hann á ekki jafn vel við um öll svið. Hann er slæmur mælikvarði á rannsóknavirkni í hugvísindum og félagsvísindum en líka í ýmsum greinum verkfræði. Fyrir listir er hann algerlega vonlaus. Þó að mörg af helstu tímaritum hug- og félagsvísinda séu í ISI-gagnagrunninum þá nær hann ekki yfir bókaútgáfur og ritgerðasöfn, sem eru mikilvægasti vettvangur fyrir birtingar á rannsóknaniðurstöðum á þessum sviðum. Hann nær heldur ekki yfir birtingar í ráðstefnuritum, sem er einn helsti vettvangur á sumum sviðum verkfræði. THE gerir tilraun til að koma til móts við þetta misvægi með því að gefa birtingum mismikið vægi eftir fögum. Þegar einungis er miðað við ISI-birtingar þá birta vísindamenn í heilbrigðisvísindum að meðaltali 2-3 greinar á ári en í hugvísindum er meðaltalið undir hálfri grein á ári. Við mat á rannsóknaafköstum háskóla er tekið tillit til þessa.

Áhrif rannsókna:

Þegar áhrif rannsókna eru metin er einungis notaður einn kvarði, tilvísanir í greinar í ISI tímaritagrunninum. Vægi hans er 30% af heildinni. Miðað er við birtingar árin 2005 til 2009 og tilvísanir 2005 til 2010. Gripið er til ýmissa aðgerða til að draga úr hugsanlegum skekkjum í þessari greiningu (eins og t.d. þegar einstaka greinar með mjög mörgum tilvísunum koma frá litlum háskóla) og mat á tilvísunum tekur „fullt tillit“ til birtingahefða í mismunandi fögum. Þessi liður skiptir miklu máli fyrir Háskóla Íslands enda fær hann 62,4 stig hérna, sem er nokkuð hátt.

Alþjóðavídd:

Hér er reynt að meta hversu alþjóðlegur hver háskóli er út frá þremur viðmiðum, sem hvert um sig hefur 2,5% vægi. Í fyrsta lagi er miðað við hlutfall erlendra og innlendra nema á öllum námsstigum, í öðru lagi er miðað við hlutfall erlendra og innlendra akademískra starfsmanna og í þriðja lagi er miðað við hlutfall birtra greina með einum eða fleiri erlendum meðhöfundum (tekið er tillit til mismunandi fagsviða eins og í mælingu á tilvísunum). Þriðji hlutinn í þessum hluta hefur aldrei verið notaður áður. Háskóli Íslands kemur ágætlega út hérna, með 56,9 stig.

Tekjur frá fyrirtækjum:

Þessi mælikvarði hefur minnst vægi af öllum, eða 2,5%. Háskólarnir gefa sjálfir upp hvað þeir fá í tekjur frá fyrirtækjum (eða „atvinnulífinu“) en upplýsingarnar eru taldar frekar óáreiðanlegar. Hér skorar Háskólinn hæst, með 75,4 stig. Þessi liður skiptir hins vegar litlu máli fyrir heildina.

Heildarstig Háskóla Íslands eru ekki gefin upp, frekar en fyrir aðra háskóla fyrir neðan tvöhundruðasta sætið. Þau er hins vegar auðvelt að reikna út og fær Háskólinn 33,27 stig í heildina sem dugar til að setja hann í efsta sæti í þeim flokki sem hann er – þ.e. í sæti 276. Það verður ekki auðvelt að halda þessu sæti, hvað þá að komast hærra, en Háskólinn virðist þó hafa ágætis forsendur til að krækja í fleiri stig á nokkrum stöðum. Orðsporið sem mælist í skoðanakönnunum á heimsvísu breytist væntanlega hægt þó einstaka stóratburðir í fræðunum gætu hjálpað til. Ef áætlanir um fjölgun doktorsnema halda áfram að ganga eftir þá getur það breytt stöðu Háskólans – að því gefnu að doktorsnemum fjölgi hlutfallslega hraðar en nemum í grunnnámi. Það sem skiptir mestu máli fyrir þennan lista, eins og flesta aðra, eru rannsóknir. Ef allt er talið saman, hvort sem það er umfang, tekjur, birtingar (stundum með erlenda kollega sem meðhöfunda), tilvísanir, skoðanir annars háskólafólks, tekjur frá fyrirtækjum til rannsóknaverkefna og hugsanlega hlutfallslegur fjöldi doktorsnema, þá er vægi rannsókna um 70% af heildarmatinu. Til að halda stöðu sinni og hugsanlega komast lengra upp listann er nauðsynlegt fyrir Háskólann að leggja áfram áherslu á rannsóknir.

Hvaða máli skiptir þetta fyrir Háskóla Íslands? Á ráðstefnu um háskólamál sem var haldin í Reykjavík árið 2009 stjórnaði ég málstofu um alþjóðlega lista af þessu tæi. Allir þátttakendur voru sammála um að listarnir væru gallaðir en að þeir væru komnir til að vera. Þátttakendur voru líka sammála um að listarnir hefðu áhrif og að áhrif þeirra ættu eftir að aukast á næstu árum. Háskólar móta starfsemi sína að því að komast á þessa lista – rétt eins og Háskóli Íslands hefur gert – og stjórnvöld margra landa líta til þeirra fyrir stefnumótun á háskólastiginu. Í málstofunni var meðal annars fólk úr hugvísindadeild Árósarháskóla, en hann var nýlega kominn á lista yfir hundrað bestu háskóla heims. Það vakti athygli mína að hugvísindadeildin var líka á lista yfir hundrað bestu hugvísindadeildir í heimi. Ég spurði þau því hvað þau hefðu gert og hvort þetta skipti einhverju máli í raun. Þau höfðu breytt ýmsu til að komast á listann en það sem skipti mestu máli var að akademískir starfsmenn deildarinnar birtu meira í tímaritum en áður og þá helst í ISI-tímaritum. Þetta er afleiðing af því að birtingar í bókum skila sér treglega í mælingum á rannsóknum og undirstrikar þörfina á að finna leiðir til að koma þeim að. Þau sögðu líka að það hafi ýmislegt breyst við að háskólinn komst á blað. Hann fékk meiri athygli alþjóðlega sem sýndi sig í því að það komu fleiri og betri alþjóðlegar umsóknir um stöður og doktorsnám við skólann en áður. Það sem ég man þó best eftir úr samtalinu er að þau sögðust fyrst hafa farið að finna verulega fyrir þessum breytingum þegar skólinn komst á lista yfir hundrað bestu háskólana.

Heimildir:

Phil Baty: „Change for the Better“, Times Higher Education World University Rankings 2010-2011 (http://www.timeshighereducation.co.uk/world-university-rankings/): Sótt 7. október 2011.

A. Rauhvargers: „Global University Rankings and Their Impacts“, EUA, Brussel 2011 (http://www.eua.be/pubs/Global_University_Rankings_and_Their_Impact.pdf). Sótt 7. október 2011.

Leiðrétting 18.10.2011: Skor HÍ fyrir áhrif rannsókna var vitlaust skráð en er nú leiðrétt.


[1] Í „Global University Rankings and their Impacts“, A. Rauhvargers, EUA, Brussel 2011, er greining á 13 mismunandi listum.

Deila


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *