Hver kannast við skáldsögurnar La Spirale eftir Gustave Flaubert, Pilgrim on the Hill eftir Philip K. Dick og Sanditon eftir Jane Austen? Eða er einhver sem hefur séð uppfærslu á leikritunum Penelópa eftir Æskílos, Kókalos eftir Aristófanes og Love‘s Labour‘s Won eftir Shakespeare? Bók glötuðu bókanna. Ófullkomin saga allra snilldarverkanna sem þú munt aldrei lesa (The Book of Lost Books. An incomplete history of all the great books you‘ll never read) er titillinn á riti sem skoski ritstjórinn og bókmenntagagnrýnandinn Stuart Kelly sendi frá sér árið 2005 en kom út í endurskoðaðri útgáfu á liðnu ári. Um er að ræða einskonar uppflettirit þar sem hver kafli er helgaður einum höfundi og höfuðáhersla lögð á þau rit viðkomandi sem eru ófullgerð eða týnd og tröllum gefin. Höfundum er nokkur veginn raðað í tímaröð. Fyrsti almenni kafli bókarinnar fjallar um Hómer (sem var kannski aldrei til) og gamankviðu hans Margítes en yngsti höfundurinn sem kemst á blað er franska ólíkindatólið Georges Perec.
Ástæður þess að ótal „snilldarverk“ hafa horfið af yfirborði jarðar í tímans rás eru af mörgum toga. Í sumum tilvikum hafa rithöfundar ákveðið að farga svo að segja fullkláruðum verkum, í öðrum tilvikum hafa þeir dáið frá hálfköruðum handritum og svo eru fjölmörg dæmi um að verk hafi týnst, brunnið eða hreinlega gufað upp fyrir gráglettni örlaganna. Svo virðist sem Kelly hafi fengið verulegan áhuga á þessu efni þegar hann lagði stund á forn-grískar bókmenntir og komst að því að varðveitt leikrit þekktra leikskálda eins og Sófóklesar og Æskílosar eru aðeins lítið brot af því sem þeir sömdu í lifanda lífi. Sá síðarnefndi er til dæmis talinn hafa sett saman eitthvað í kringum áttatíu leikrit (+ eða – tíu) en aðeins sjö þeirra eru enn aðgengileg okkur nútímafólki.
Nýleg umfjöllun um ófullgert handrit sænska rithöfundarins Stiegs Larsson að fjórðu bókinni í svokölluðum Millenium-þríleik minnir okkur á að það er stöðugt verið að skapa snilldarverk sem við fáum líklega aldrei tækifæri til að lesa. En bók Kellys vekur mann jafnframt til umhugsunar um það hvernig bókmenntasagan liti út ef viss varðveitt verk hefðu glatast og önnur glötuð hefðu varðveist. Í niðurlagi umfjöllunar sinnar um Margítes veltir Kelly því til dæmis fyrir sér hvort við megum þakka fyrir að þessi kviða standi ekki við hliðina á Illíonskviðu og Ódysseifskviðu í bókaskápnum okkar. „Það er nauðsynlegt að enduruppgötva það sem fer forgörðum,‟ segir Kelly og gefur því undir fótinn að gamansamur skáldskapur síðari tíma hafi orðið hálfu fjölbreyttari en hann hefði orðið ef áhrifavaldur á borð við Hómer hefði slegið þar tóninn í upphafi.
Að sjálfsögðu fá skrif Kellys mann líka til að velta fyrir sér hvaða höfundar og verk geti raðað í Bók glataðra íslenskra bóka. Væntanlega er hér af nógu að taka, ekki síst ef hugað er að miðaldabókmenntum okkar. Skjöldunga saga, sem er aðeins varðveitt í endursögn Arngríms lærða, er afar þekkt dæmi sem Bjarni Guðnason skrifaði heila fræðibók um. Einnig má nefna hér Huldar sögu, sem Úlfar Bragason hefur nýlega fjallað um í tímaritsgrein. Af yngri bókmenntum má nefna fyrsta stórvirki Halldórs Laxness, skáldsöguna Aftureldingu, sem bæði Helga Kress og Hermann Stefánsson hafa greint með forvitnilegum hætti. Gaman væri ef lesendur þessa pistils gætu bent á fleiri íslensk rit sem ættu heima á þessum lista. Það er aldrei að vita nema hér sé á ferðinni efniviður í svo sem eina „glataða“ lokaritgerð.
Deildu
Leave a Reply