Sparkað í áhorfendur: Af ofbeldi í tíma og rúmi

Um höfundinn
Gunnar Tómas Kristófersson

Gunnar Tómas Kristófersson

Gunnar Tómas Kristófersson er doktorsnemi og stundakennari í kvikmyndafræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

,,Myndin Kick-Ass er gerð eftir myndasögu sem byggir á æði grófum ofbeldisatriðum þar sem megnið af blóðbaðinu er fyrir tilstuðlan 11 ára stúlku. Gagnrýnendur kepptust bæði við að fordæma ofbeldi myndarinnar sem nýja lágkúru að hætti Hollywood og lofa það sem ferska tegund töffaraskapar."
,,Myndin Kick-Ass er gerð eftir myndasögu sem byggir á æði grófum ofbeldisatriðum þar sem megnið af blóðbaðinu er fyrir tilstuðlan 11 ára stúlku. Gagnrýnendur kepptust bæði við að fordæma ofbeldi myndarinnar sem nýja lágkúru að hætti Hollywood og lofa það sem ferska tegund töffaraskapar.”

Nýverið hafa „þyngri“ gerðir teiknimyndasagna – svokallaðar grafískar skáldsögur – vakið athygli framleiðenda Hollywood. Margar þessara sagna fjalla um mannlegt eðli og ofbeldi í sinni myrkustu mynd og reyna að gagnrýna það með myndrænum stílbrögðum og vægðarlausri nálgun í frásögn. Í Hollywood-aðlögunum þessara sagna vill þetta ítrekað gleymast þar sem sýndarvirkið, hraðar klippingar og breyttar áherslur í frásögninni flytja áhersluna frá gagnrýni yfir á staðlað hasarmyndaform. Þar er boðskapurinn það sem gerist á milli æsilegra og umfram allt tölvugerðra atriða, og virðist oftar en ekki endurunninn upp úr útjaskaðri staðlabók hasarmyndanna.

Boðskapur um ruddalegt ofbeldi kemst vel til skila á blaðsíðum myndasagna, þar sem leggja má áherslu á grótesk smáatriði þegar kjammi er kýldur í mola. Í kvikmynd eftir sömu bók er það sjónrænt gleðjandi að sjá hraðann og styrkinn í nýju uppáhaldspersónunni þar sem hún kemur réttlætinu á framfæri. Hreyfingin kemur í veg fyrir augnablik hryllingsins og áhorfendur horfa hugfangnir á sjónarspilið sem tengist kvikmyndum allt aftur til þess þegar menn hófu að ræna lestir fyrir framan myndavélarnar. Augnablik hrottalegs ofbeldis sem fanga má í einum ramma myndasögunnar verður spennandi hluti sjónarspils sem vísar í ríka hefð Hollywood-ofbeldis. Það er samt vitanlega nógu frábrugðið til að vera markaðsvænt. Það er miður að ofbeldi þýðist jafnilla á milli miðla og raun ber vitni, þó að líklegt megi teljast að ásetningur framleiðenda að lappa upp á myndmálið til að gera það meira aðlaðandi, í von um breiðari áhorfendahóp, ráði þar för.

Rassaspörk með merkingu

Myndin Kick-Ass er gerð eftir myndasögu sem byggir á æði grófum ofbeldisatriðum þar sem megnið af blóðbaðinu er fyrir tilstuðlan 11 ára stúlku. Gagnrýnendur kepptust bæði við að fordæma ofbeldi myndarinnar sem nýja lágkúru að hætti Hollywood og lofa það sem ferska tegund töffaraskapar og lýstu oftar en ekki hrifningu sinni yfir með vísun í titil myndarinnar.

Það er víst að ofbeldi myndarinnar gengur ansi langt og má rita margar fræðigreinar um aðalgerandann út frá hinum ýmsu sjónarhólum, en það sem vekur athygli mína er hvernig myndin setur ofbeldið upp. Hér er ekki um venjubundna stígandi hasaratriða að ræða heldur byrjar myndin á atriði með ungum manni, Dave, sem verður fyrir mjög raunverulegu ofbeldi af hendi tveggja bílaþjófa. Þegar hann hittir hina 11 ára Hit-Girl í fyrsta skipti drepur hún fjölda manna með köldu blóði og í gegnum augu áhorfenda og aðalhetjunnar, Dave, er það ekkert annað en hrottaleg morð.

Heimurinn sem myndin gerist í fram að því er ekki heimur venjulegra ofurhetja í teiknimyndum, þar er blóð blóð og dauði dauði. Það kemur því flatt upp á áhorfendur hversu glaðlega hin unga Mindy tekur menn af lífi í Kick-Ass. Samanburðurinn á þeim heimi þar sem ofurhetjur hafast við og hinum venjulega er grimmari en áhorfendur eiga að venjast. Uppfrá þessu atriði tekur heimur myndarinnar stakkaskiptum og ofbeldið verður allsráðandi. Þetta nær hámarki í lokaatriðinu þar sem Mindy fer inn gang þéttsetinn glæpamönnum í átt að illmenninu og afhöfðar þá hvern á fætur öðrum. Þetta er ekki aðeins sterk vísun í atriði úr öðrum myndum (sér í lagi Oldboy), heldur setur það myndina algjörlega í samhengi við aðrar stílfærðar útgáfur af Hollywood-ofbeldi sem ýmsar aðrar kvikmyndaðar teiknimyndasögur bjóða upp á. Tengingin við raunsæið í upphafi er að lokum fullkomlega rofin þegar Dave svífur um á þotuhreyfli og mundar handhelda fallbyssu til að granda illmenninu.

Kick-Ass setur ofbeldi fram í mismunandi myndum og skapar merkingu með muninum þar á milli. Hryllingurinn við ,,venjulegt” hasarmyndaofbeldi þegar Mindy mætir á svæðið sem Hit-Girl er aðeins sláandi vegna þess að fram að því var ofbeldi hættulegt og sársaukafullt. Ef ekki væri fyrir þennan mun hefði ofbeldið verið lítið annað en hefðbundin skemmtun.

Kick-Ass er teiknimyndasöguaðlögun þar sem augnablik hryllingsins hverfur með kvikmyndamiðlinum. En með því að setja ofbeldið fyrst upp á raunsæislegan hátt og færa það síðar í stílinn með hasarmyndahefðum kemur hryllingurinn, og síðar öfgarnar, í ljós. Ef ekki væri fyrir þennan mun hefði ofbeldið ekki verið annað en hefðbundin skemmtun.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *