Birtingarmynd Óseyrar í einræðum sögumannsins er í megindráttum hinn ömurlegi, tilgangslausi staður. Hins vegar ef staðurinn er settur í samhengi íbúa þorpsins kemur fram önnur mynd. Það mætti segja að sögumaðurinn dragi upp mynd yfirborðsins en tilveran undir yfirborðinu endurspeglist í íbúum þorpsins og jafnvel stundum í orðum sögumannsins sem þó hefur verið hvað duglegastur í neikvæðni. Þessi tvíbenta afstaða sögumanns og hin tvöfalda birtingarmynd kemur meðal annars fram í einni af mörgum veðurfarslýsingum þar sem sögumaður segir: „Og himinninn var framvegis kakkþykkur einsog ketilbotn, því þetta var svo þýðingarlítill kaupstaður að guði þótti víst ekki taka því að draga frá sólinni fyrir þá á daginn eða fægja fyrir þá stjörnurnar á nóttinni.“ Þessi mynd breytist um leið og sögumaður heldur áfram því þá segir hann: „En hver ábyrgist að það sé betra í öðrum kaupstöðum? … Mönnum hættir til að leita lángt yfir skamt. Kanski er veruleikinn á Óseyri við Axlarfjörð, þegar öllu er á botninn hvolft“ (leturbreyting mín). Hinn þýðingarlausi kaupstaður er hugsanlega veruleikinn. Er þá veruleikinn þýðingarlaus eða kaupstaðurinn þýðingarmikill? Þessi mótsagnarkenndu orð sögumanns beina sjónum að hinu mannlega. Hvernig getur það hugsast að veruleikinn finnist á stað sem yfirleitt lítur út fyrir að vera tilgangssnauðasti staður í heimi? Jú, getur ekki verið að tilgangurinn sé jafnmikill eða jafnlítill alls staðar? Á Óseyri við Axlarfjörð býr fólk sem er jafnmikið fólk og annars staðar í heiminum. Örlög þess og hversdagslegt líf hefur þrátt fyrir allt þýðingu. Þýðingu fyrir þorpið í heild en einnig fyrir hvern og einn því maðurinn í eðli sínu er ekki tilgangslaus. Markmið einstaklingsins geta verið misháleit en þegar upp er staðið lítur engin persóna verksins á sig sem tilgangslausa veru.
Leave a Reply