Framtíð tónlistarnáms á Íslandi

[container]Margir virðast telja að tónlist sé áhugamál sem ungt fólk geti sinnt með alvöru námi (lesist bóknámi) þar til það fer út á vinnumarkaðinn. Þetta er úreltur hugsunarháttur, því rannsóknir hafa sýnt að skapandi greinar skipta raunverulegu máli fyrir þjóðfélagið og skila arði inn í þjóðarbúið. Mikilvægt er að tónlist verði skipaður sami sess og öðrum starfsgreinum. Til þess að svo geti orðið verður að endurskipuleggja tónlistarkennslu í landinu með það að leiðarljósi að tengja hana inn í hið almenna skólakerfi án þess að glata þeirri sérhæfingu sem býr í tónlistarskólunum.

Nemendur þurfa að geta færst frá einu námsstigi til annars og hafa sömu tækifæri til tónlistarmenntunar og annarrar menntunar. Finna þarf leiðir til þess að gera tónlistarnám hluta af almennu námi án þess að færa það inn í hið almenna skólakerfi, því þá færi áttatíu ára reynsla í súginn. Til þess að svo geti orðið verða allir tónlistarskólar landsins að fara eftir aðalnámskrá tónlistarskóla. Núna starfa mjög margir tónlistarskólar í landinu og á höfuðborgarsvæðinu einu eru þeir rúmlega fjörutíu. Margir þeirra eru hins vegar svo litlir að þeir ná ekki að bjóða upp á þá fjölbreyttu kennslu sem aðalnámskrá krefst.

Á höfuðborgarsvæðinu dugir að reka einn tónlistarskóla sem sinnir bæði grunn- og framhaldsstigi. Leggja má til að sami háttur verði hafður á úti í dreifbýliskjörnum og myndað verði samstarfsnet tónlistarskóla um landið. Með þessu móti má spara í rekstri og bjóða upp á fjölbreyttara nám. Auk þess verður auðveldara að hafa eftirlit með náminu og tryggja gæði þess. Í öllum helstu úthverfum þarf að reka útibú, gjarnan í nánum tengslum við grunnskóla, þar sem yngstu nemendurnir stunda nám sitt. Á framhaldsstigi er mikilvægt fyrir nemendur að taka þátt í fjölbreyttu samspili. Stór skóli hefur afl til þess að skipuleggja slíkt, allt frá spunahópum og hefðbundinni kammertónlist yfir í strengja-, blásara- og sinfóníuhljómsveit. Skólinn þarf að starfa í nánum tengslum við Listaháskóla Íslands. Þar með væri komið skýrt aðfararnám að háskóla. Slíkt samstarf auðgar nemendur á báðum skólastigum, því hollt er að hafa fyrirmynd og vera fyrirmynd. Fagvitund nemenda styrkist og tónlist verður sýnilegri sem raunverulegur valkostur fyrir framtíðarstarf.

Fáeinir framhaldsskólar bjóða nú upp á listnámsbraut þar sem nemendur geta fengið ákveðinn fjölda eininga metinn úr tónlistarskóla. Þessir skólar, þó fáir séu, hafa sýnt bæði metnað og framsýni með því að viðurkenna tónlistarnám sem hluta af hinu hefðbundna námi. Þeir hafa stigið skref í rétta átt. Með virku samstarfsneti tónlistarskóla á framhaldsstigi er hins vegar leikur einn að meta tónlistarmenntun inn í alla framhaldsskóla landsins. Með því móti öðlast tónlistarmenntun þann sess sem henni ber.

Sameining tónlistarskóla leiðir til hagræðingar, eykur fagmennsku og gefur færi á fjölbreyttu tónlistarnámi. En þetta er ekki síst leið til að gera tónlistarmenntun að hluta af hinu hefðbundna námi barna og ungs fólks. Í þessum pistli hefur einungis verið rætt um tónlistarmenntun en að sjálfsögðu gildir slíkt hið sama um aðrar skapandi greinar. Hinar ólíku listgreinar á ekki sjálfkrafa að flokka sem áhugamál. Því þarf að taka af skarið og endurskoða afstöðu til þessa málaflokks í skólakerfinu og samfélaginu öllu.

Þorbjörg Daphne Hall,
meistaranemi í menningarfræði

 [/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *