Hugvísindamars

Taktfastur Hugvísindamars framundan

[container] Á afmælisári Háskóla Íslands er mars tileinkaður hugvísindum en þann mánuð verður afar fjölbreytt dagskrá sem ætti að höfða til sem flestra. Nemendur hefja leikinn á veitingastaðnum Faktorý þann 2. mars með skemmti- og fræðsludagskrá en alla miðvikudaga í mars verður dagskrá í umsjón nemenda í öllum deildum sviðsins. Næst í röðinni eru örnámskeið ætluð almenningi laugardaginn 5. mars en þá er hægt að sækja þriggja klukkustunda námskeið um efni eins og gagnrýna hugsun, Hallgerði langbrók, spænska menningu, japanska skrautskrift, fátækt á Íslandi, ástarsögur og handritalestur. Námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu.

Hið árlega Hugvísindaþing hefur til langs tíma verið hápunktur ársins í huga margra hugvísindamanna. Í tilefni af aldarafmæli Háskólans verða haldin tvö þing. Annars vegar hefðbundið málstofuþing haldið dagana 25. og 26. mars en þetta árið er enn eitt metárið hvað fjölda fyrirlesara og málstofa varðar. Hins vegar verður boðið upp á svokallað fyrirlestrahlaðborð undir merkjum Hugvísindaþings 11. og 12. mars. Þá geta gestir litið við á einum fyrirlestri og flakkað á milli í stað þess að sitja heilar málstofur. Yfirlit um dagskrá fyrra þingsins er að finna á vef Hugvísindastofnunar.

Laugardaginn 19. mars verður stefnumót við almenning um borg og bý. Í verslunarmiðstöðinni Kringlunni verða veitt verðlaun í textasamkeppni sem sviðið efndi nýlega til en sýning á 25 textum sem komust í úrslit ætti ekki að fara fram hjá gestum Kringlunnar í rúma viku á undan verðlaunaafhendingunni. Þennan dag verður ennfremur boðið upp á leiðsögn sérfræðinga á Þjóðminjasafni, Listasafni Íslands og Minjasafni Reykjavíkur. Auk þess er opið hús í Þjóðskjalasafni, argentískar kvikmyndir verða sýndar í Bíó Paradís, efnt verður til Lorca-ljóðadags, skipulögð gönguferð í Árbæjarhverfi undir leiðsögn sagnfræðings og táknmálstónleikagjörningur í Þjóðminjasafninu og þá er ekki allt talið.

Til viðbótar við alla þessa viðburði þá verða birtir veffyrirlestrar í flutningi kennara á sviðinu föstudaginn 25. mars í Hugrás, vefriti sviðsins . Fyrirlestrarnir verða um 30 mínútur að lengd og fjalla um mjög fjölbreytt efni, eins og Jesú- og maddonnumyndir í íslenskri nútímamyndlist, ljóð og landslag, máltöku og móðurmál, stytturnar í Reykjavík og Jón Sigurðsson.

Heildardagskrána má finna á afmælisvef HÍ og dagskrárbæklingi (pdf).

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *