Ekkert mótaði lífið í hinum iðnvædda heimi (og raunar víðar) á síðari hluta tuttugustu aldar á djúpstæðari hátt en kalda stríðið, sá stáltaflsskollaleikur heimsveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, sem markaðist landfræðilega af járntjaldinu svokallaða milli austurs og vesturs og fól í sér vígbúnaðarkapphlaup, óbeinan stríðsrekstur (e. war by proxy), alsherjarhugmyndafræðistríð og fádæma afskipti veldanna tveggja að þjóðmálum um víða veröld, svo fátt eitt sé nefnt. Í ljósi kjarnavopna var teflt um framtíð mannkyns sjálfs, ekki aðeins staðbundin og tímabundin völd, og þótt fræðimenn túlki markmið og framkvæmd kalda stríðsins með ólíkum hætti þarf engar efasemdir að hafa um það hversu hætt veröldinni var stefnt á álagstímum. Aldrei þessu vant gegndi Ísland mikilvægu hlutverki í heimspólitíkinni, og mikilvægið endurspeglast í veru erlends herliðs hér á landi nær látlaust frá seinna stríði fram á fyrsta áratug nýs árþúsunds. Það er vera herliðsins á friðartímum sem er viðfangsefni nýrrar heimildarmyndar, „Varnarliðið“. Kaldastríðsútvörður, saga Bandaríkjahers á Íslandi 1951 til 2006, í leikstjórn Guðbergs Davíðssonar og Konráðs Gylfasonar, sem nú er í sýningum í Bíó Paradís.
Umbrotstímar
Á árunum 1948 til 1951 gerði íslenska ríkið samning við bandaríska herinn um flugvallaraðgengi og síðan um herstöð og 1949 samþykkti Ísland inngöngu í NATÓ. Miklar deilur höfðu verið um öll þessi mál en sumum þótti hausinn bitinn af skömminni með NATÓ–samningnum. Við fréttirnar af samningnum brutust út ein stærstu mótmæli Íslandssögunnar, allt logaði og skalf, og það er um það bil þarna sem heimildarmynd þeirra Guðbergs og Konráðs hefur sögu sína. Því hefur verið haldið fram að sjálft hernámið og eftirköst þess í seinna stríði, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg, myndi raunverulegt upphaf nútímavæðingar og borgarvæðingar á Íslandi, frekar en vélvæðing skipaflotans uppúr aldamótunum 1900. Rök má færa fyrir því en það er í öllu falli deginum ljósara að umbrot skuku samfélagið á þessum árum og koma þúsunda hermanna snarbreytti áferð þjóðfélagsins. Þótt fjöldi erlendra hermanna hafi held ég aldrei komist aftur nálægt þeirri tölu sem var í stríðinu hafði vera bandaríska hersins á eftirstríðsárunum í hið minnsta tvíþætt áhrif. Annars vegar er það pólitíska sviðið, hvort Ísland ætti að vera herlaust land, og svo hins vegar beinskeyttu og áþreifanlegu áhrifin sem fólust í flóknum samskiptum milli íslenskra þegna og erlendra hermanna.
Þekktasta birtingarmynd hins síðara er „ástandið“ en fyrra spursmálið klauf þjóðina hugmyndafræðilega og pólitískt í hálfa öld. Auðvitað er samt ekki hægt að aðskilja áhrifin í raun með þessum hætti, líkt og „Varnarliðið“ gefur skýrt til kynna. Bandaríski herinn var svo gríðarleg efnahagsleg stærð í þjóðlífinu, og umhverfis veru hans var svo mikinn auð að hafa, að spilling og ýmis konar pólitískir flokkadrættir höfðu með beinum hætti mikil fjárhagsleg áhrif, bæði á einstaklinga og byggðarfélög.
Tæknilegur nútími
Kenna má eins og áður segir að einhverju leyti innreið nútímans og tæknivæðingar við komu fyrst breska og svo bandaríska hersins hingað til lands á stríðstímum. Það er áhugavert í þessu samhengi að í „Varnarliðinu“ er skemmtileg áhersla lögð á kortlagningu tæknibreytinga í tímans rás. Má þar kannski segja að hlutur síendurbættra flugvéla og orrustuþota vegi þyngst, þótt í raun sé um mjög vítt svið tækni og vélvirkni að ræða.
Viðvera herflugvéla var áþreifanleg og sýnileg leið til að vitna um að varnir landsins væru teknar alvarlega af hálfu Bandaríkjanna. Svo var þó kannski ekki mjög í fyrstu – spilaði Kóreustríðið reyndar inn í málið, Bandaríkin voru upptekin í öðrum heimshluta – og flugvélarnar sem hingað voru sendar í upphafi voru hálfgerð skrapatól, eftirlegukindur úr seinna stríði sem gert var við og lagt á Reykjavikurflugvelli og stundum flogið, hvort tveggja aðallega til borgarar gætu barið þær augum. Þetta breytist þó og þegar komið er fram á níunda áratuginn er mikilvægi Íslands í hernaðarstarfi Bandaríkjanna og NATO orðið slíkt að allra nýjustu tæki og flugvélar eru sendar hingað, á helstu útvarðarstöð mögulegrar þriðju heimsstyrjaldar. Heimildarmyndin dregur skýrt fram í hverju mikilvægi Íslands lá á þessum tíma (var það einkum í tengslum við langdræg flugskeyti og kafbátahernað). Það er jafnframt um þessar mundir sem vinsælasti stríðsspennusagnahöfundur liðinna áratuga, Tom Clancy, sendi frá sér þykkan doðrant um þriðju heimstyrjöldina og þátt Íslands í henni, Rauður stormur (Red Storm Rising, 1986). Skáldsögu Clancys var hrósað á sínum tíma fyrir raunsæi en eftir á að hyggja er forvitnilegt að í sögunni er þriðja heimsstyrjöldin háð með „hefðbundnum“ vopnum, þ.e. kjarnorkuvopnum er ekki beitt. Verður það að teljast ólíklegt, hefði stríð brotist út með beinum hætti milli heimsveldanna, og „Varnarliðið“ fjallar á forvitnilegan hátt um þetta tímabil á Ísland, kjarnorkuóttan sem endurspeglaðist m.a. í því að í símaskrám tímans eru leiðbeiningar frá Almannavörnum um hvernig eigi að bregðast við í tilviki kjarnorkuátaka, sem og spurninguna um það hvort kjarnavopn hafi verið geymd á Keflavíkurflugvelli.
Klassískt form og alþekkjandi ávarp
Mynd þeirra Guðbergs og Konráðs er afar vel úr garði gerð. Um er að ræða hefðbundna heimildarmynd, eða heimildarmynd í „klassísku“ formi, í þeim skilningi að skýrandi söguþulur er gegnumgangandi á hljóðrásinni, og leitast hann við að skapa sér yfirbragð hlutleysis og alþekkingar. Tekst það prýðisvel, hugmyndafræðilegar áherslur myndarinnar eru hvergi uppáþrengjandi og samtímaviðtölum er hnýtt saman við myndefni úr arkífum á afar skýrandi og lýsandi hátt. Gæsalappirnar í titlinum, „Varnarliðið“, dregur snyrtilega fram þau andstæðu sjónarhorn sem tókust á á Íslandi áratugum saman, og raddir beggja fylkinga fá að hljóma án þess að málflutningur þeirra sé gengisfelldur eða rýrður með brögðum. Rétt er að nefna að arkífuvinna aðstandenda myndarinnar er framúrskarandi, mikið hefur tekist að finna af ljómandi forvitnlegu og skemmtilegu myndefni frá áratugunum sem myndin skoðar. Hljóðvinna í samtímaviðtölunum er ekki alltaf eins og best væri á kosið en það er svosem ekki stórt atriði. Þetta er fróðleg, skemmtileg og afar vel unnin mynd sem skipar sér með fullum rétti við hlið annarra framúrskarandi heimildarmynda sem gerðar hafa verið um söguleg efni á umliðnum árum.
[fblike]
Deila