Viðtal við Dagnýju Kristjánsdóttur, prófessor í íslenskum bókmenntum

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum vinnur um þessar mundir að tveimur metnaðarfullum stórverkum. Annað þeirra tengist bókmenntum og læknisfræði þar sem gott samstarf við læknadeildina kemur við sögu sem og rannsóknir á spænsku veikinni og myndgerðar kvalir listakvenna. Í seinni hluta viðtalsins segir Dagný frá nýrri íslenskri barnabókasögu sem hún vinnur að ásamt fleiri barnabókmenntafræðingum. Talið berst auk þess að varðveislu tungumálsins og mikilvægi íslenskra barna- og ungmennabóka fyrir framtíð íslenskunnar sem og varðveislu menningararfleiðarinnar í gegnum vögguvísur í tónuppeldi ungbarna.

Bók um bókmenntir og læknisfræði

Ég er með tvö verkefni í gangi, annars vegar um barnabækur og hins vegar er ég að skrifa bók um bókmenntir og læknisfræði. Við höfum verið í samstarfi við læknadeildina og höfum verið að kenna bókmenntir hjá þeim og vinna með læknastúdentum í því að vefa saman bókmenntir og læknisfræði, nota bókmenntirnar til þess að dýpka umræðuefni og fleira.

Ég hef skrifað tvær greinar, aðra um Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur þar sem ég skoða sálfræðilegt trauma og hvernig það sýnir sig í minnisleysi og tilfinningabælingu. Greinin birtist í Skírni. Svo hef ég skrifað aðra grein sem fjallaði um spænsku veikina og Mánastein (2013) eftir Sjón. Ég tengdi þetta við kenningar Antonin Artaud um leikhús grimmdarinnar því að listin getur brotið niður og rústað merkingunni í lífi okkar eins og sjúkdómurinn og dauðinn og kallað á sömu tilfinningar. Spænska veikin er alveg ofsalega merkilegt rannsóknarefni og ég er enn að vinna í henni. Við erum fleiri sem erum að rannsaka það, sem er vel því að þessi heimsfaraldur drap yfir fimmtíu milljónir manna í blálok seinni heimsstyrjaldarinnar en hefur legið í merkilegu þagnargildi. Kannski af því að menn spurðu hvað hefði endað seinni heimsstyrjöldina, stríðsreksturinn og hernaðurinn eða þessi skelfilegi vírus?

Bókmenntir og læknisfræði eru mjög spennandi svið sem Ásdís Egilsdóttir, miðaldafræðingur og Bryndís Benediktsdóttir, læknir áttu frumkvæðið að. Ég er búin að vera með þeim í um fimm ár og nú ætla ég að safna því sem ég hef verið að gera saman, bæði þessari sögulegu og bókmenntalegu nálgun sem ég hef haft og umræðu um þetta nýja samstarfsfag. Það hefur líka byggst upp samstarf kringum það hér í Íslensku- og menningardeild því að hugrænu fræðin eru mjög á svipuðum nótum og við með sína áherslu á líkamann. Ég mun tala á sársaukaráðstefnunni í haust sem Bergljót, kollegi minn og fleiri eru að skipuleggja, um sársauka, líkama og sálarlíf. Guðrún Steinþórsdóttir hefur verið að kenna með mér og okkur í læknisfræðinni með áherslu á samlíðan og fleira. Við höfum svo allar kennt saman MA-námskeið um bókmenntir og læknisfræði.

Það er búið að skrifa fyrstu MA-ritgerðina um þessi fræði en það var Þóra Ágústsdóttir sem skrifaði alveg gullgóða meistararitgerð sem heitir Góð tengsl hafa lækningamátt: Um bókmenntir og læknisfræði þar sem hún notar nálgun frásagnarlæknisfræðinnar (e. narrative medicine) og mannhyggjulæknisfræði (e. Medical humanities) til að beina kastljósinu að mikilvægi mannlega þáttarins í daglegu starfi lækna en frásögnin leikur þar aðalhlutverk. Þóra er með mjög áhugaverða siðferðilega umræðu í ritgerðinni um viðhorf læknavísindanna til dauða. Hún bendir á að myndhverfingar eins og að berjast við dauðann gefi í skyn að hann sé óvinurinn og hægt sé að sigra hann þó hann sé mættur á staðinn. Auðvitað er þetta eina viðhorfið sem hægt er að samþykkja sem læknir, gengur ekki Hippókratesareiðurinn út á það? En þetta getur líka þýtt að stundum er verið að halda lífi í fólki með nútímatækni og vísindum þó það sé deyjandi og hræðilega kvalið, því er ekki leyft að deyja með reisn. Þóra kemur með sláandi dæmi úr bókmenntunum sem sýna þetta. Læknanemarnir hafa líka tekið það aðeins fyrir í verkefnum sínum hvernig fjöldamenningin og sjónvarpsþættirnir búa til sápuóperur úr hlutum sem eru kannski alls ekki fyndnir eða rómantískir. Þeir hafa verið með mjög áhugaverða umræðu um svæfingar úr kvikmyndinni Awake (2007) sem er hreint ekki góð kvikmynd ef hún er skoðuð út frá faglegu sjónarhorni – en umræðurnar um hana voru gríðarlega áhugaverðar og yfirhöfuð voru þessi stóru samvinnuverkefni nemenda um læknislist og bókmenntir mjög gefandi. En nú er búið að taka þau út, því miður.

Fræðasviðið um bókmenntir og læknisfræði er orðið það stórt og marggreina að innan þess eru menn langt frá því að vera sammála. Menn takast á um fræðilegar áherslur og tilganginn með þessari samvinnu og hversu langt hún eigi að ganga og hve gagnkvæm hún eigi að vera. Þverfagleg samvinna felst jú í því að allir eiga að leggja fram það sem þeir kunna og gera best og leggja saman sérhæfingu sína til að lækka eða færa fagmúrana. Það er spennandi – en ekki auðvelt. Hugmyndir okkar um „heilbrigði“ vs. „sjúkleika“ eru alltaf að breytast og við þurfum að endurskilgreina allt með jöfnu millibili. Spyrja nýrra spurninga.

Bókmenntirnar koma mjög inn í samskiptafræðin en það er kannski spurning hvort að ekki eigi að taka þetta aðeins lengra og taka þetta inn í sjálfa hugsunina um heilbrigði og sjúkleika, hið mannlega og ekki mannlega, það hugræna og það líkamlega o.s.frv. Við þurfum að spyrja spurninga sem taka þetta inn í samþættinguna en ekki samvinnu. Þarna fossa fram mjög skemmtilegar stúdíur. Ein bók sem ég var að lesa núna í Edinborg, í rannsóknarleyfinu, er eftir fræðikonu sem heitir Stella Bolaki og heitir Illness as Many Narratives. Hún fjallar um alla vega listræna tjáningu á líkamlegu ástandi, ekki bara einhverjar ákveðnar tegundir af frásögnum eins og við erum vön heldur alls konar listræna tjáningu; leik með form og tákn eins og í myndlist, gjörningum og leiklist, öllu sem okkur dettur í hug að nota til að tjá sælu og sársauka. Dæmi um slíkan listamann er til dæmis hin fræga Frida Kahlo sem lýsir kvölum sínum sem voru oftast óbærilegar. Hún efnisgerir þær, þar sem hún liggur í rúminu og upp af henni stíga fyrirbæri sem að sýna upptök kvalanna og orsakir, líkamanum er nánast ranghverft.

Svo er önnur mynd eftir Fridu sem sýnir kvalirnar myndgerðar og hér höfum við innyfli, hráan líkamlegan veruleika, reittan fugl, dauðamynd og fisk sem sýnir kulda, slepju og allar þessar óskilgreinanlegu og óhugnanlegu tilfinningar sem einhvern veginn er ekki hægt að lýsa nema með orðunum „eins og” og breyta þar með í aðrar táknmyndir sem færir þær fjær því sem við vildum benda á. Frida sýnir hrylling þeirra myndrænt.

Orlan er annar listamaður sem hefur unnið með að breyta innrás í líkama sinn í gjörning. Hún lét kvikmynda lýtaaðgerðir og las upp texta á meðan verið var að fletta sundur andlitinu á henni. Þess má geta að þegar bíómyndin um Orlan var sýnd á ráðstefnu í Norræna húsinu þá steinleið yfir einn áhorfanda.

Ég vil endilega hafa sögulega nálgun í bókinni minni líka því það er ekki eins og við séum fyrsta kynslóðin í sögunni sem stríðir við sjúkdóma og segir sögur af þeim. Það skiptir til dæmis máli að rannsaka eldri hugmyndir um „heilbrigði“, til að sjá hvað við erum að erfa af gömlum hugmyndum án þess að vita hvaðan þær koma. Og það þarf ekki alltaf að vera vitnisburður fagurbókmenntanna því að fagtextar geta haft mikið bókmenntalegt gildi. Gömlu læknarnir sem skrifuðu um spænsku veikina skrifa svo dramatíska texta að það slagar næstum upp í Mánastein (2013) eftir Sjón! Margir af gömlu læknunum – og nýju raunar líka – kunna að sviðsetja frásögnina og byggja smáatriði inn í hana og eru bara verulega góðir í framsetningu. Við eigum líka góða skáldlækna sem hafa lýst sjúkrahúsunum innan frá.

Íslensk barnabókmenntasaga

Við, hópur af barnabókmenntafræðingum, erum að skrifa nýja íslenska barnabókasögu. Silja Aðalsteinsdóttur gaf út bókina Íslenskar barnabækur 1780-1979 árið 1981. Bók hennar er einsdæmi í heiminum held ég, hún náði yfir allar barnabækur sem skrifaðar höfðu verið á Íslandi frá 1780 fram til 1979 en frá útgáfu bókarinnar hafa komið út u.þ.b. fimm sinnum fleiri barnabækur. Við munum velja úr það sem fjallað er um en hafa þetta samt yfirlitsverk og uppflettiverk og matreiða síðan viðfangsefni út úr bókinni til að nota í kennslu og vinnu með börnum. Við útbúum þá rafrænt efni til notkunar fyrir skóla og börn. Það er svo mikilvægt að börnin fái bókmenntir, barnaljóð, læri textana, læri tónlistina vegna þess að tónlistarfræðingar segja að börnin fái fyrsta tónuppeldið sitt og tónheyrn í gegnum vísurnar og lögin sem rauluð eru fyrir þau. Þess vegna eru þessar gömlu barnavísur eins og Bíbí og blaka og Fljúga hvítu fiðrildin sem sungnar hafa verið fyrir börnin mikilvægur tónmenningararfur sem kemur til þeirra áður en þau fá tungumál. Eins er það með barnabækurnar að þær opna þeim heim tákna og tungumáls á þann hátt sem ekkert annað gerir. Að setja börn fyrir framan erlent sjónvarpsefni frá því að þau opna augun er hræðilega slæmt fyrir barnið. Þetta verður aldrei nógu oft brýnt fyrir fólki að það þarf að tala við börnin, lesa fyrir þau og kynna þeim heiminn og ekkert er betra til þess en að nota barnabækurnar. Ef orðaforði er ekki byggður upp og íslenskan blandast enskunni er svo hætt við því að börnin eignist ekki kjölfestu í neinu tungumáli, það verður til eitthvað pidgin tungumál sem hefur engan menningarlegan hljómgrunn, hvorki á Íslandi né í enskumælandi löndum. Ég nefni enskuna af því að hún sækir fastast á en þetta gildir líka um innflytjendabörn sem verða að fá kennslu í sínu móðurmáli. Barnabækur og gott barnaefni hefur aldrei verið mikilvægara!

Nýjasta bókin mín Bókabörn kom út fyrir jólin í fyrra og fjallar um upphaf íslenskra barnabóka og hvernig skilningur manna á því hvað „barn” og „bernska“ er hefur breyst mjög í gegnum tíðina. Það er hlutur sem menn ættu að hugsa verulega mikið og alvarlega um vegna þess að svo mikið af hugmyndum okkar eru komnar aftan úr rómantíkinni í upphafi 19. aldar. Þessu var þröngvað upp á börn sem nú eru orðin fullorðin eða gamalt fólk. Bernskan, barnamenning, barnabækur og ungmennabókmenntir eru afar heillandi fræðasvið – ekki minnst ungmennabókmenntirnar þar sem mörk barna og fullorðinna flæða saman og mjög margir fullorðnir lesa þær sér til gleði. Líka vegna þess að í þeim er oft svo flott umræða um mörkin milli hins mannlega og hins ómannlega, veruleikann og furðuna og um stríð og frið. Börn og stríð eru til dæmis til umræðu í nýjum bókum Hildar Knútsdóttur og Ragnhildar Hólmgeirsdóttur. Þetta eru svo klárar stelpur. Það má líka nefna Gunnar Theodór Eggertsson, Snæbjörn Brynjarsson og Kjartan Yngva Björnsson, metnaðarfulla höfunda sem fara hiklaust inn á fantasíusviðið, tilbúinn heim þar sem erfið mál eru til umræðu. Líka húmorískar bækur eins og hjá Kristínu Helgu, Gerði Kristnýju og Þórdísi Gísla. Arnar Már Arngrímsson er nýr á sviðinu en Gunnar Helgason hefur þegar sungið sig inn í hjörtu strákanna og það er afar vel þegið eins og PISA kannanirnar segja… Ekki orð um það meir. Þessir höfundar sem ég hef nefnt eru allt virtir höfundar og það er merki um breyttan hugsunarhátt. Stefán Jónsson, sá elskaði barnabókahöfundur, var spurður að því á eftirstríðsárunum af menningarvitunum hvenær hann ætlaði að fara að skrifa alvöru bókmenntir? Við erum komin langa leið frá þessu sem betur fer. Nú er bara sómi að því að skrifa ungmennabókmenntir og lesa þær, jafnt af fullorðnum og ungmennum. Það er líka rosalega mikill metnaður í myndskreytingum á barnabókum sem er afar mikilvægur hluti af barnabókmenntunum því þær leggja eins barnagælurnar, afar mikilvægan grunn að myndskilningi og myndskynjun barnanna og opnar þeim hlið inn í samspil texta og myndar. Það hafa komið fram alveg stórkostlegar fallegar myndabækur fyrir börn. Ég er bara svo bjartsýn að ég er alveg að springa af gleði yfir þessu hæfa barna- og ungmennabókarliði. Það þarf bara að búa betur að framleiðslu og dreifingu barnabóka – það gera öll siðmenntuð samfélög.

Ég þakka Dagnýju kærlega fyrir að veita mér viðtal. Það var einstaklega áhugavert að fara með henni í margslungið ferðalag hugmynda og fræða. Einnig var ánægjulegt að heyra um hið góða samstarf sem á sér stað milli íslenskudeildarinnar og læknadeildarinnar sem og þá miklu grósku sem á sér stað í barna- og ungmennabókum, bæði í útgáfu skáldverka sem og fræðirita.

Um höfundinn

Eyrún Lóa Eiríksdóttir

Meistaranemi í almennri bókmenntafræði og hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[fblike]

Deila