Við sem leggjum stund á hugvísindi erum almennt ekki upptekin við að svara spurningunni um gagnsemi þeirra og virðumst oft í raun forðast hana. Hugvísindi, eða hluti þeirra (í mínu tilfelli heimspeki og fornfræði), voru okkar val og við höldum áfram að leggja stund á hugvísindi af áhuga – einfaldlega vegna þess að við brennum fyrir því sem við gerum og teljum væntanlega flest að það sé okkur sjálfum fyrir bestu.Spurningin um gagn hugvísinda snýr hins vegar ekki bara að því af hverju við hvert og eitt leggjum stund á hugvísindi heldur að því hvaða gagn hugvísindin gera fyrir samfélagið. Hugvísindi eru að mestu leyti fjármögnuð af skatttekjum og það er eðlilegt að spurt sé um gagnsemi þeirra. En spurningin er oft sett fram á einfeldningslegan hátt þar sem efnahagslegur ávinningur er í fyrirrúmi en það eru margar aðrar tegundir af gagnsemi sem eru jafnvel mikilvægari en hinn efnahagslegi.[1]
Hugvísindin þurfa að hafa svar við spurninginni um til hvers þau eru, um hvaða gagn þau gera, en til þess þarf að skilja betur og skilgreina hvers konar spurning þetta er.Hugvísindin þurfa að hafa svar við spurninginni um til hvers þau eru, um hvaða gagn þau gera, en til þess þarf að skilja betur og skilgreina hvers konar spurning þetta er. Okkur ber engin skylda til að gangast undir skilgreiningar annarra á gagnsemi.[2] Ég vel orðið „gagn“ sem almennt hugtak til að ramma umræðuna inn en það mætti eins spyrja um „gildi“ hugvísinda eða „árangur“ af því að stunda hugvísindi. Þegar upp er staðið snýst spurningin um réttlætingu. Stefan Collini, prófessor í hugmyndasögu og enskum bókmenntum við háskólann í Cambridge, helgar hugvísindum einn kafla í bók sinni What are Universities for?[3] Lokaorðin eru: „In trying to ‘justify’ the humanities, as in trying to live a life, what may turn out to matter most is holding one’s nerve.“ („Það sem gæti reynst best þegar við reynum að ‘réttlæta’ hugvísindin, eins og þegar við reynum að lifa lífinu, er að fara ekki á taugum.“; bls. 85) Besta aðferðin er að sýna hvað við gerum og segja: „Er þetta ekki flott?“ (bls. 84) Að mati Collinis eru hugvísindin að mörgu leyti sérstök. Niðurstöður hugvísinda eru t.d. almennt ekki eins skýrar og afgerandi og niðurstöður í öðrum greinum. Niðurstaða, hvort sem hún er birt í grein, bók eða á annan hátt, er sjaldan meira en framvinduskýrsla og höfundurinn er oft sjálfur fyrstur til að gagnrýna eigin niðurstöður og þoka umræðunni áfram (bls. 66). Platon, sem stofnaði Akademíuna – fyrstu „háskólastofnun“ vesturlanda -, er gott dæmi um þetta. Helsta framlag hans til sögu heimspekinnar er frummyndakenningin (sem hann leggur skýrast fram í Fædoni og Ríkinu) en hann var sjálfur fyrsti gagnrýnandi hennar (t.d. í Parmenídesi og Sófistanum).
Hugvísindi eru ekki þess eðlis að við komumst nokkurn tíma að endanlegri niðurstöðu um frummyndakenningu Platons eða um Njálu eða hvers eðlis réttlætið er, til að nefna dæmi af handahófi. Ástæðan er sú, að mati Collinis, að hugvísindin hafa ekki þekkingu sem markmið heldur skilningÞetta einkenni hugvísinda getur vafist fyrir fólki sem skilur ekki hvernig er hægt að rannsaka og skrifa endalaust um sömu fyrirbærin án þess að komast að niðurstöðu. Við komumst ekki einu sinni að niðurstöðu um aðferðir hvað þá annað. Klárast þetta aldrei? Svarið er einfaldlega „nei“. Hugvísindi eru ekki þess eðlis að við komumst nokkurn tíma að endanlegri niðurstöðu um frummyndakenningu Platons eða um Njálu eða hvers eðlis réttlætið er, til að nefna dæmi af handahófi. Ástæðan er sú, að mati Collinis, að hugvísindin hafa ekki þekkingu sem markmið heldur skilning (sjá t.d. bls. 77 þar sem hann leikur sér ábyrgðarlaust með jöfnur: hugvísindi eru ekki „hæfni + upplýsingar = þekking“ heldur „reynsla + íhugun = skilningur“). Skilningur er alltaf háður samhengi og samhengi okkar sem skiljum breytist stöðugt. Við getum ekki skilið Njálu í dag á sama hátt og fólk gerði um miðja 20. öld eða fyrr. Þess vegna er Njála alltaf ný. Það sem við lærum í hugvísindum er að nota reynslu okkar og þroska hana. Við lærum að velta fyrir okkur, íhuga (með alls kyns kenningar, tæki og tól okkur til aðstoðar), það sem hugur okkar beinist að. Með þessu móti öðlumst við skilning. Þessi skilningur er oft á viðfangsefnum sem eru í eðli sínu mjög flókin. Það er erfitt að afmarka þau og skilgreina, það liggur ekki fyrir hvaða aðferðir duga best til að vinna með þau. Þess vegna er þjálfun í hugvísindum svo mikils virði. Við lærum að takast á við óreiðuna sem mætir okkur í heiminum, í lífinu. Þess vegna er tilraun til að réttlæta hugvísindi (sem heita á flestum öðrum tungumálum „mannvísindi“) sambærileg við að réttlæta lífið sjálft. Við gerum það með því að sýna hvað við getum.
Margar aðrar tilraunir hafa verið gerðar til að greina gagn og gildi hugvísinda á undanförnum árum og á Hugvísindasviði Háskóla Íslands höfum við nú ákveðið að taka fyrirbærið gagn til umræðu og skoða hversu gagnleg íslensk hugvísindi eru. Umræðan verður sem mest opin og á þessum síðum munum við næstu vikur og mánuði birta pistla sem fjalla um eðli og gagn hugvísinda.[line][1] Belfiore, Eleonora. (2015). ‘Impact’, ‘value’ and ‘bad economics’: Making sense of the problem of value in the arts and humanities. Arts & Humanities in Higher Education, 14(1), 95-110.
[2] Small, Helen. (2013). The Value of the Humanities. Oxford: Oxford University Press: 21-22.
[3] Collini, Stefan. (2012). What Are Universities For? London: Penguin Books.
[fblike]
Deila