RIFF: Boyhood

[container] Hvar ætlarðu að búa? Hvað ætlarðu að gera? Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?

Sex ára strákur, Mason Evans yngri (Ellar Coltrane), liggur í grasinu og horfir á himininn. Hann er að bíða eftir mömmu sinni Oliviu (Patriciu Arquette). Foreldrar hans eru skilin en mamman á kærasta sem hún er alltaf að rífast við. Þau hætta saman og Olivia flytur með Mason og Samönthu (Lorelei Linklater) systur hans í nýjan bæ svo mamman geti farið í skóla. Mason eldri (Ethan Hawke) verður helgarpabbi.

Í kvikmyndinni Boyhood eftir Richard Linklater er Mason og fjölskyldu fylgt eftir frá því að hann liggur á grasinu þar til hann byrjar í háskóla. Linklater hlýtur að eiga skilið að fá sérstök verðlaun fyrir þolinmæði, en hann byrjaði að taka upp myndina árið 2002 og hefur unnið í henni á hverju ári síðan. Sjaldan hafa kvikmyndapersónur verið eins tengdar leikurunum. Við sjáum þær eldast, fitna og grennast, fá nýjar hárgreiðslur, vini og maka. Engir titlar eru birtir til að segja áhorfendum hvar sagan gerist eða hvaða ár er, en tónlist og einstaka atburðir á borð við forsetakosningar staðsetja frásögnina í tíma.

Myndir Linklaters fjalla gjarnan um persónur sem eru uppteknar af tilvist sinni. Waking Life (2001) er skýrt dæmi um þetta. Þar ferðast aðalpersónan úr einum draumi í annan og reynir að melta kenningar sem aðrar persónur, meðal annarra þekktir bandarískir heimspekingar, hafa um lífið. Before Sunrise (1995), Before Sunset (2004) og Before Midnight (2013) eru fullar af vangaveltum um ástina, tímann og lífið og þar eldast persónur á sama hraða og leikararnir. Í Dazed and Confused (1993) eru sumar persónurnar of meðvitaðar um sjálfa sig til að geta notið þess kærulausa lífs sem menntaskólaárin bjóða upp á. Ein af þeim er efnilegur íþróttamaður í baráttu gegn skólayfirvöldum sem vilja stjórna því hvernig nemendurnir haga sér. Þar birtist eitt af meginstefum Linklaters.

Alveg frá upphafi ferils síns með Slacker (1991) hefur hann fjallað um baráttu fólks við umhverfi sitt. Tilvistarspekúlantarnir í myndum hans eru einmitt oft slæpingjar. Það dynja á þeim spurningar frá fullorðnu, ábyrgu fólki: Hvað ætlarðu að vinna við? Hvað ætlarðu að læra? Hvað ætlarðu að verða? Persónurnar eru ekki alltaf með svör tiltæk. Þær vita ekki endilega hvað þær vilja gera. Þær vita bara að heimurinn er flóknari en hann lítur út fyrir að vera. Þær sjá líka að þeir sem kunna á kerfið eru ekki sönnun þess að kerfið virki. Mason yngri segir á einum stað að þrátt fyrir allar tilraunir mömmu hans til að skapa stöðugleika og finna hamingjuna viti hún alveg jafn lítið og hann. Ein af þeim persónum Boyhood sem tilheyra kerfi hvað mest er drykkfelldur fyrrverandi hermaður. Honum finnst óþolandi að ungir menn eins og Mason taki ekki ábyrgð á lífi sínu. Þess ber að geta að orðið slacker var upphaflega notað um þá sem komu sér undan herskyldu.

Þrátt fyrir langt framleiðsluferli Boyhood er gott samræmi í myndinni. Myndatakan er hófstillt allan tímann, stíllinn breytist ekki þó að leikararnir geri það. Tökuvélin sýnir uppgötvanir Masons í gegnum sjónarhornsskot. Fyrsta skotið af Mason þar sem hann liggur hugsi í grasinu er ekki svo frábrugðið síðasta myndskeiðinu. Það er bjart úti. Hann er að hvíla sig og virða fyrir sér náttúruna. Tökuvélin snýst við og horfir á Mason.

Richard Linklater sannaði með School of Rock (2003) að hann getur unnið innan Hollywood-framleiðslukerfisins og gert góða mynd. En þegar hann vinnur utan þess að mynd eins og Boyhood, án þess að fá borgað í tólf ár, getur hann gert meistaraverk. Eins og í Before-seríunni var handritið skrifað í samráði við leikarana og, líkt og þar, skilar það sér í frábærri leiktúlkun. Eðlileg samtöl og látlaus kvikmyndagerð koma til skila raunveruleikaáhrifum sem eru ekki síðri en í heimildarmynd. Þegar mynd fær að malla í tólf ár leysist eitthvað einstakt úr læðingi. Ferill Linklater og nýjasta mynd hans sýna að ferðalag okkar í lífinu ratar ekki endilega eftir fyrirfram ákveðnum leiðum. Kerfið er ekki fyrir alla. Sérstaklega ekki slæpingjana. En hver er þá niðurstaða spekúlantsins sem liggur í grasinu í upphafi myndarinnar?

Lífið snýst ekki eingöngu um stóru tímamótin: að byrja í skóla, að útskrifast, að flytja, að eignast börn, að giftast, að skilja. Lífið er öll augnablikin inn á milli: að slást við stóru systur, að tjalda með pabba, að fara í keilu, að skoða nærfataauglýsingar með vini sínum. Það á ekki endilega að grípa augnablikið, það er augnablikið sem grípur okkur, eins og ung kona segir við Mason.

Þetta er auðvitað klisja. Okkur er alltaf sagt að lifa í núinu. Þessi speki finnst í óteljandi nýaldar-sjálfshjálparbókum og í samtölum milli grasreykingarmanna. Mistrúverðugt fólk hamrar á þessu eins og þetta sé lykillinn að allri lífshamingju. Þetta er svo margtuggið ofan í mann að maður lifir frá degi til dags án þess nokkurn tímann að taka þessa hugsun alvarlega. Ónæmi hefur myndast. Það er ekki fyrr en maður lítur tólf ár aftur í tímann að maður áttar sig á hvað þetta er satt.

 

Jónas Reynir Gunnarsson,
meistaranemi í ritlist

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *