Ímyndaðir kettlingar fást gefins


Ég sver það. Ég ætlaði að skrifa um söngvakeppnina. En kötturinn át sjónvarpið og ég endaði kvöldið á myndbandarápi um öngstræti Youtube. Sú myndbandasíða er þeim eiginleika gædd að stinga sífellt upp á nýju myndefni. Einhverju sem reiknilíkani síðunnar finnst líklegt að maður nenni að horfa á. Oftast nær hefur það rangt fyrir sér. En þó kemur fyrir að hval reki á fjöru, svona inn á milli allra kattamyndbandanna.

En í stað þess að horfa upp á enn einn krúttlegan kettling leika listir sínar var ég send út í geim, alla leið til Mars með óvæntasta myndbandi sem rekið hefur á mínar fjörur í langan tíma. Myndin hefst á því að kynna sjálfa sig til sögunnar. Loksins sé komið í leitirnar myndskeið sem sanni það sem fasistar hafi alltaf haldið fram: Að svart sé betra en rautt. Þannig upphefst mikið ferðalag sem er dagsett árið 1939, nánar tiltekið 10. maí.

Geimskip bíður brottfarar. Leiðangursmenn eru ítalskir fasistar. Og einungis það allra nauðsynlegasta er tekið með; tjald, grammófónn, brjóstmynd af hertoganum og bogahestur. Tilgangur leiðangursins er að sjálfsögðu að skipta um lit á rauða hnettinum. Sökum litarins hljóta marsbúar að vera kommúnistar og aumingja plánetan því í höndum vinstrisinnaðra geimvera. Það er því á ábyrgð fasista að frelsa þessa ólánsömu reikistjörnu og mála hana svarta. Aðeins allra vöskustu menn fá að fara með í leiðangurinn, ímynd hins hrausta Ítala. Öllu er þessu lýst í áróðursfréttamyndastíl síðari heimsstyrjaldarinnar, líkt og um spennandi íþróttakeppni sé að ræða.

Engin hetjudáð fer framhjá þulnum. Hver sandaldan á fætur annarri er sigruð í leitinni að óvininum. Þeir hlusta á jarðneska tónlist og fella tár af söknuði til móður sinnar á jörðu niðri. Þetta eru góðir drengir. En enginn finnst óvinurinn og án hans er tilvist fasistanna á Mars í uppnámi. En með viljann að vopni er allt hægt. Líka að sanna tilvist kommúnískra marsbúa.

Þessi furðulega mynd er um tíu ára gömul og heitir Fascisti su Marte. Mig grunar að flestir ítölskumælandi þekki stykkið. Gamanleikararnir í hlutverkum leiðangursmanna gera óspart grín að söguskoðun fasista og þótt ótrúlegt megi virðast þá er þetta með því fyndnara sem ég hef séð lengi. Það er bara eitthvað stórkostlegt við að fylgjast með síheilsandi fasista byggja nákvæmar eftirmyndir af rómverskum minnismerkjum úr sandi milli þess sem hann og félagar hans stökkva yfir bogahestinn af miklum móði. Ef til vill er full mikill aulahúmor á köflum (best fannst mér að fylgjast með þeim verða sjóveikir í geimfarinu á leiðinni til Mars). En þegar viðfangsefnið er eitthvað jafn stórbrotið og fasistar og Mars þá gerir smá aulahúmor  lítið til. Eiginlega ekki neitt.

Fyrir okkur, sem misstum af kalda stríðinu, er öll orðræða fasismans verulega hjákátleg út af fyrir sig. Þegar sú hugmyndafræði er síðan send út í geim með öllum sínum þversögnum verður til eitthvað töfrandi og skemmtilegt. Allt þar til undir lokin þegar bæði léttklæddar og ljóshærðar mállausar kvenkyns geimverur mæta til sögu. Þá fer brandarinn að minna óþægilega mikið á sjónvarpsstöðvar Silvios nokkurs. Húmorinn útvatnast þannig að lokum í eyðimerkurlandslagi Mars. En þrátt fyrir að myndin, líkt og fasisminn, séu börn síns tíma þá skemmir hlýi rauðguli liturinn á „filmunni“ alls ekki fyrir og ég er ekki frá því að svartasta skammdegið sé örlítið rauðara fyrir vikið.

Takk myndbandareiknilíkan. Takk fyrir að minna mig á kosningarnar framundan og að ef allt fer á versta veg, getum við í það minnsta hlegið eftir sjötíu ár. Takk ímyndaði köttur. Takk fyrir að forða mér frá því að slökkva á heilanum yfir söngvakeppninni. Takk fyrir að minna mig á hættulega hluti á borð við fasisma og söguskoðun. Megi afkvæmi þín éta yfir sig af sjónvarpstækjum landsmanna.

Helga Ágústsdóttir,
meistaranemi í ritlist.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *