Þar sem sagan verður áþreifanleg

Um höfundinn
Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson er dósent í ritlist við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur umsjón með ritlistarnámi við skólann og er jafnframt rithöfundur og þýðandi. Sjá nánar

Kvöldið 12. ágúst 1961 leggst fólk til svefns í Berlín eins og venjulega. Það er friður í borginni, búið að lappa talsvert upp á hana eftir hinar ægilegu loftárásir stríðsáranna. Sumir eru í heimsókn hjá ættingjum eða elskhugum í öðrum borgarhluta og ugga ekki að sér. Þegar líður á nóttina taka starfsmenn lestarstöðva eftir því að S-brautirnar eru hættar að ganga á sumum leiðum. Svo verður fólk vart við miklar gaddavírsgirðingar og múrveggi þvert í gegnum borgina, þar var víst hálf milljón manna að verki, og að morgni 13. ágúst vakna Berlínarbúar í tvískiptri borg. Mörgum fjölskyldum var sundrað þessa örlagaríku nótt og 60 þúsund manns, sem sóttu vinnu vestur yfir, voru í einni svipan orðnir atvinnulausir. Ef Vestur-Þjóðverja dvaldist í Austur-Berlín þessa nótt var hann þar með orðinn íbúi Austur-Berlínar. Þegar frá leið var fólki leyft að fara yfir til Austur-Berlínar í gegnum nokkrar landamærastöðvar, t.d. hina frægu Checkpoint Charlie, en máttu einungis vera daginn. Og heimsóknir voru einungis leyfðar frá vestri til austurs. Margir reyndu að flýja innilokunina austanmegin og sumir voru skotnir við það en austur-þýsk yfirvöld brugðust við þessum flóttatilraunum með því að hækka múrinn og búa til svokallað dauðabelti innan við hann.

Múrinn stóð í 28 ár og er svo samofinn vitund manns um Berlín, og svo sterkt tákn um gerræðislega stjórnvaldsaðgerð, að ferðalangurinn í manni vildi eiginlega að meira af honum stæði enn. Þeir fáu bútar sem enn má sjá eru þó afar áhrifarík minnismerki um félagslegt og stjórnmálalegt öngstræti Þýska alþýðulýðveldisins, sem var reyndar lítið lýðveldi. Einn af lengstu köflunum hefur verið friðaður og gengur nú undir nafninu East Side Gallery. Á þennan kafla höfðu listamenn málað eftirminnilegar myndir. Ein sú áhrifaríkasta sýnir Brésnef og Honecker kyssast á munninn. Sums staðar í borginni, eins og á Potsdamer Platz, hefur verið mörkuð lína í gangstéttina til að sýna hvar múrinn stóð. Línan er áleitinn minnisvarði líka.

Við hittum þýska konu á miðjum aldri sem sagðist sumpart sakna múrsins. Meðan hann stóð hefði ríkt mikil samstaða í Vestur-Berlín, það að vera eyja í miðju Austur-Þýskalandi hefði þjappað íbúunum saman svo sterk samkennd myndaðist. Hún hafi t.d. átt vini í Austur-Berlín sem hún heimsótti reglulega en hætti að heyra frá eftir fall múrsins. Þeir hurfu úr lífi hennar án þess að hún vissi af hverju. Ég býst við að önnur viðfangsefni hafi þá tekið við, fólk hafi þurft að læra á frelsið og búa til nýja gagnvegi, já og finna sér ný störf í mörgum tilfellum því austurþýsk fyrirtæki voru ekki samkeppnishæf.

Saga múrsins er átakanleg en þó ekkert á við það sem gekk á þegar Hitler var á dögum. Berlín var höfuðborg hans þó að hann hafi e.t.v. ekki stigið fæti inn í þinghúsið, Reichstag, og sumir haldi því fram að hann hafi látið kveikja í því til að geta kennt kommúnistum um. Í kjölfarið tók hann sér a.m.k. einræðisvald og hófst handa við að ryðja úr vegi þeim sem honum gast ekki að. Þá daga sem ég dvaldi í Berlín spurði ég mig hvernig í ósköpunum ein helsta menningarþjóð heimsins gat kosið þetta óbermi yfir sig og látið hann komast upp með allan þennan dómadags ósóma. Í hvert skipti sem sjálfskipaður laganna vörður tók að leggja mér lífsreglurnar í borginni, og það gerðist nokkrum sinnum í þriggja vikna dvöl, spurði ég mig hvort þar lægi hluti af ástæðunni fyrir því að þessi merka þjóð afvegaleiddist svo hrapallega; ást þeirra á valdboði. Þegar einhver var almennilegur við mig, og það gerðist líka þó nokkrum sinnum, spurði ég mig stundum hvort viðkomandi ætti ömmu sem var nauðgað af Sovétmönnum eða afa sem tók þátt í að útrýma gyðingum, fyrirskipaði jafnvel brottflutning tuttugu þúsund barna úr gettói í Póllandi eins og sagt er frá í bókinni Öreigarnir í Łódź.

Minnismerki í Berlín um fallna gyðinga.

Í Berlín störfuðu ruddarnir sem sendu út ordrur um að drepa, drepa, drepa. Við sáum byggingu sem sumir þeirra störfuðu í og fannst anda köldu frá henni. Í byrgi ofan í jörðinni varði Hitler sínum síðustu dögum og þar stytti hann sér að lokum aldur. Nú er búið að steypa yfir byrgið, það stendur í forgarði fjölbýlishúss og einungis skilti til marks um hvar foringinn hafðist við í mestu örvilnuninni á síðustu dögum Þriðja ríkisins. Ekki það að til standi að gleyma, öðru nær, lögð er sérstök áhersla á að gleyma ekki þeim óhæfuverkum sem geðsjúklingurinn Hitler leiddi þjóð sína út í. Við eina brautarstöðina, ekki langt frá einni fínustu verslunarmiðstöð borgarinnar, sá ég t.d. skilti þar sem fólk var hvatt til þess að gleyma ekki fanga- og útrýmingarbúðum nasista og þær helstu síðan taldar upp: Auswitz, Buchenwald, Lublin, Treblinka o.s.frv., listinn er ótrúlega langur; allt út af því að Hitler líkaði ekki uppruni fólksins. Málið er ennþá svo viðkvæmt, þjóðarsálin svo löskuð, að Þjóðverjar hafa varla leyfi til þess að halla á gyðinga eins og kom í ljós þegar Nóbelsskáld Þjóðverja, Günter Grass, birti ljóð þar sem hann gagnrýndi vígbúnað Ísraela og ógn þeirra við Íran.

Að stríðinu loknu varð Berlín fljótlega að táknmynd kalda stríðsins. Þegar seinni heimsstyrjöldin var gerð upp lenti borgin í þeirri sérstöku stöðu að vera inni í miðju Austur-Þýskalandi. Það sem meira var, fyrstu árin var henni stjórnað af fjórum þjóðum, Bandaríkjamönnum, Frökkum, Bretum og Sovétmönnum. Um tíma lokuðu Sovétmenn öllum samgönguleiðum á landi og vatni og reyndu að svelta vesturhlutann til uppgjafar. Það var þá sem komið var upp hinni frægu loftbrú til Berlínar þar sem flugvélar lentu á þriggja mínútna fresti með vistir þangað til Sovétmenn gáfust upp fyrir þrautseigju vesturveldanna og opnuðu samgönguleiðir á landi og vatni aftur. Allt þetta rennur í gegnum hugann þegar farið er um Berlín, jafnvel þótt frægir sögustaðir hafi fengið nýtt hlutverk. Þannig hefur Tempelhofflugvöllurinn, sem nasistar byggðu upphaflega og geymir eina stærstu byggingu heims, nú verið aflagður og breytt í útivistarsvæði. En flugbrautirnar eru ennþá á sínum stað og þar reyna Berlínarbúar samtímans að taka flugið inn í eðlilegra líf þótt klyfjaðir séu sögulegum hörmungum.

Deila

 

 

 

 

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *