Jón Karl Helgason fer með okkur í ferðalag í bókinni Mynd af Ragnari í Smára. Lesandi „slæst í för með forleggjaranum sem er á leið á Nóbelshátíð í Stokkhólmi í desembermánuði árið 1955“, eins og segir á bókarkápu. Frásögnin hnitast um þrjá daga í aðdraganda þess að aðalhöfundur Ragnars tekur við Nóbelsverðlaununum. Stórviðburðir eru einmitt kjörnir til þess að sýna innsta eðli fólks.
Bókin hefst á mynd og svokölluðum „Forleik“, sem er í rauninni endir bókarinnar. Eins og upplýst er í myndaskrá aftast var myndin tekin laugardaginn 10. desember 1955, daginn sem Halldór Laxness tók á móti Nóbelsverðlaununum, í miðdegisverðarboði sem Ragnar í Smára stóð fyrir á Grand Hotel í Stokkhólmi, og um það fjallar kaflinn. Á myndinni er Ragnar umkringdur máttarstólpum íslenskrar bókmenningar, þeim Jóni Helgasyni, Sigurði Nordal og sjálfum Halldóri Laxness. Þarna eru líka tveir sænskir gestir sem hafa haft sitt að segja um að Laxness hreppti verðlaunin, þeir B.F . Jansson og Peter Hallberg. „Þetta er söguleg stund, afrakstur þrotlausrar baráttu sem Ragnar hóf afskipti af fyrir bráðum tuttugu árum,“ (s. 9–10) segir sögumaður síðan og það eru í raun þessi tuttugu ár sem eru undir í bókinni þó að hún gerist á þremur dögum.
„Fólkið á ljósmyndinni hefur þrætt ólíkar leiðir til hádegisverðarins á Grand,“ segir sögumaður í upphafi næsta kafla, spólar þrjá daga til baka og lýsir flugferð Ragnars miðvikudeginum áður. Hann situr við hliðina á nemanda í arkitektúr og segir skyndilega við hann: „Í gamla daga, meðan við vorum fátækir og urðum enn að keppa við erlend flugfélög, fékk maður heitan mat, koníak og hvers konar kræsingar um borð í íslensku flugvélunum“ (13). Þegar flett er upp í heimildaskrá bókarinnar kemur í ljós að þetta tilsvar er fengið úr bréfi Ragnars til Sigríðar Helgadóttur í desember sama ár. Ekki kemur fram hvort hann hafi beinlínis sagt þetta við nemandann eða hvort hann hafi bara sagt þetta við Sigríði og Jón Karl gert úr því samtal við annan mann. Fljótlega spinnast svo samræður um byggingarlist við sessunautinn en skoðanir sem Ragnar viðrar þar eru sóttar í handrit að fyrirlestri um fegrun Reykjavíkur, ódagsett. Þegar flugvélin lendir loks í Kaupmannahöfn er sagt frá því innan gæsalappa, en allt efni sem sótt er í heimildir er haft innan gæsalappa í bókinni, að Ragnar hafi verið feginn að „fá að standa öruggum fótum á jörðinni“ (15). Þetta er úr bréfi sem Ragnar skrifaði börnum sínum ellefu árum seinna.
Þarna er aðferð bókarinnar komin. Höfundur notar þá daga sem ferðin á Nóbelshátíðina tekur sem ramma utan um frásögnina en fer svo með lesandann í alls kyns endurlit. Áður en yfir lýkur hefur tekist að spanna það helsta úr starfsævi Ragnars og persónurnar við miðdegisverðarborðið eru helstu persónur bókarinnar.
Jóns Karl klippir semsé saman heimildir. Hann flytur ekki einungis tilsvör í nýtt samhengi heldur skáldar hann líka senur utan um þau, m.a. til þess að gefa tilfinningu fyrir persónunni. Nefna má tvær senur sem bera vott um frásagnarhæfileika Jóns Karls. Annars vegar atriði þar sem Ragnar er látinn ýta bifreið á götu í Stokkhólmi. Skammt frá hótelinu verður hann var við teppu, „ungur maður með hatt situr í kyrrstæðum Ford Zodia á annarri akreininni og gerir árangurslausar tilraunir til að ræsa vélina“ (205). Fyrr en varir er Ragnar farinn að ýta bílnum, en þar sem maðurinn við stýrið minnir hann á Davíð Stefánsson fleygar Jón Karl frásögnina með kafla um samskipti þeirra. Í lok kaflans heldur útgefandinn svo áfram að ýta bílnum. Ekkert í þessari lýsingu á hjálpsemi Ragnars, sem kemur einnig fram í samskiptum hans við listamenn, er innan gæsalappa og því má gera ráð fyrir að kaflinn sé skáldaður. Atvikið verður samt lýsandi fyrir Ragnar og þar með liður í persónusköpun.
Í öðrum vel heppnuðum kafla lætur Jón Karl söguhetju sína tala við spegil. Ragnar er nýkominn úr baði, skefur skeggrótina og íhugar ástríður lífsins: „Ég get ekki hugsað mér neitt fyrirlitlegra en að langa ekki til að halda framhjá manninum sínum eða konunni, þess konar nægjusemi og skortur á forvitni, er ekki heilbrigð,“ segir hann við manninn á glerinu (125). Þessi ummæli eru tekin úr bréfi til Ólafar Nordal, konu Sigurðar Nordal. Kaflanum lýkur síðan á tilvitnun í bréf til Bjargar Ellingsen, eiginkonu hans, þar sem hann segir henni að hann sé „eins og skafinn tinkoppur í framan, hárið nýþvegið og úfið, og tindrandi lífsgleði í augum og fasi. Ég er viss um að þú vildir eiga mig núna“ (126), er hann látinn segja. Umrætt bréf hefur trúlega verið ritað þegar þau Björg voru að draga sig saman 19 árum áður. Svo virðist sem senan fyrir framan spegilinn hafi verið skálduð utan um þessa tilvitnun. Eins og til að staðfesta þessi orð er Ragnar síðan látinn verða fyrir kynhrifum af starfsstúlku á hótelinu.
Jón Karl stundar það ennfremur nokkuð að breyta bréfum í samtöl. Hann lætur þá persónur bókarinnar segja eitthvað sem upphaflega var sagt í bréfi. Ýmist skáldar hann þá spurningar inn í samtölin til að gera þau eðlilegri eða klippir saman kafla úr bréfum og leggur í munn tilheyrandi persónum. Með þessu móti lifnar efnið við og verður miklu lesvænna þótt það beri þess stundum merki að vera sótt í ritaða heimild. Auðvitað vekur aðferðin ýmsar spurningar. Ein sú áleitnasta er sú hvort persónurnar hefðu nokkurn tíma sagt það sem þær skrifuðu eða hvort þær hefðu sagt það í sambærilegu samhengi. Nefna má eftirfarandi umsögn um Ragnar sem dæmi, lagða í munn Sigurði Nordal: „Það er sárgrætilegt, eins og Ragnar er í rauninni góður maður og vill vel, hvaða endemis lausung er í honum í aðra röndina“ (126). Þetta segir Sigurður Nordal í bréfi til Jóhannesar Nordal árið 1954 en er í bókinni látinn segja þetta við Ólöfu konu sína ári síðar og í sama bréfi segist hann hafa sagt þetta allt við Ragnar einhvern tíma í bræði sinni. Þarna nýtir Jón Karl tækifærið til þess að sýna mennsku Ragnars.
Jón Karl nýtir sér aðferðir listrænnar skáldleysu (e. creative non-fiction) sem gengur einmitt út á að nýta sér hinar háþróuðu aðferðir skáldskaparins til að koma sannsögulegu efni á framfæri. Spurningar um sannleikann vakna óhjákvæmilega í þessu samhengi; er klippimynd af þessu tagi sönn eða er um fölsun að ræða þótt byggt sé að mestu á heimildum? Í vissum skilningi er myndin fölsuð en þó má líka spyrja hvort hún sé í einhverjum skilningi sannari en mynd sem dregin væri upp með aðferðum sagnfræðinnar. Því þótt finna megi annmarka á aðferð Jóns Karls stekkur Ragnar í Smára ljóslifandi í fangið á manni. Skáldsagan, með því leyfi sem hún hefur, kemst oft nær sannleikanum en óskálduð frásögn þar sem ritskoðun sjálfs og samfélags vofir yfir. Sumir mundu jafnvel segja að skáldsagan sé besta leiðin til þess að miðla sannleikanum óritskoðuðum.
Jón Karl tekur sér visst skáldaleyfi og býr til „ljúgverðugleika“, eins og Þórarinn Eldjárn kallaði það þegar persónusköpun og söguþráður eru nýtt til þess að láta sögulega skáldsögu ganga upp sem listaverk (Hvað er sagnfræði?, 10). Ég held að óhætt sé að skilgreina Mynd af Ragnari í Smára sem listaverk, enda leyfir Jón Karl lesandanum að gera upp við sig hvað sannast reynist. En þá verður lesandinn líka að gefa sig sögunni á vald frekar en sagnfræðinni.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
Leave a Reply