Olíuvinnsla, kellingar og olíuvinnsla

Um höfundinn

Magnús Örn Sigurðsson

Magnús Örn Sigurðsson er með MA-próf í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands.

Orð eru lævís enda sköpun mannsins, lævísasta dýrs veraldar. Einn spekingurinn gekk meira að segja svo langt að segja að tungumálið væri lygi. Það hljómar vissulega skringilega því almennur skilningur á lygi er sá að það sé ósönn yrðing sem framkölluð er með tungumálinu. En eins og með margar flottar setningar þá tekur það stundum tíma að átta sig á snilldinni á bakvið þær. Punkturinn var nefnilega sá að vegna þess að ekkert okkar skilur orð á nákvæmlega sama máta er skilningur eins manns á orðum annars ekki algjör, heldur ófullkominn, öðruvísi og þar með miklu frekar lygi heldur en sannleikur.

Nýlega fluttu fjölmiðlar fregnir af því að áttatíu prósent Íslendinga væru fylgjandi olíuvinnslu. Nú skil ég illa hvernig svona stór hluti landsmanna segist vera fylgjandi olíuvinnslu. Ég held að það sé vegna þess að í raun og veru eru þessi áttatíu prósent að ljúga að mér þegar þau segjast vera fylgjandi olíuvinnslu. Á sama hátt og ég er líklegast að ljúga að þeim þegar ég segist vera á móti olíuvinnslu.

Ég held að margir (eða u.þ.b. áttatíu prósent Íslendinga) tengi olíuvinnslu við orðið auðlind og orðið auðlind við auð og auð við peninga og peninga við bætt lífsgæði og þannig orðið olíuvinnsla við bætt lífsgæði. Svo að þegar þessi meirihluti þjóðarinnar segist vera fylgjandi olíuvinnslu er hann að segjast vera fylgjandi bættum lífsgæðum.

Ég tengi orðið olíuvinnsla hins vegar við olíubrennslu og olíubrennslu við losun koltvísýrings og losun koltvísýrings við hlýnun jarðar og hlýnun jarðar við uppskerubrest, hækkun sjávarborðs, súrnun sjávar, fárviðri, flóð, skógarelda, sjúkdóma, dýr í útrýmingarhættu og margt fleira neikvætt fyrir líf mannsins á jörðinni. Þannig að þegar ég heyri einhverja segja að þeir séu fylgjandi olíuvinnslu þá heyri ég þá vera fylgjandi lífsgæðaskerðingu. Hér hugsar e.t.v. einhver að annar hvor skilningurinn á orðinu olíuvinnsla sé réttur og hinn rangur en þetta er ekki svo einfalt. Eins og ég sagði: Orð eru lævís.

Hvernig skiljum við orð? Jú, við setjum þau iðulega í samhengi við önnur orð. Hér á undan sást hvernig við skiljum orð með því að tengja þau við svipuð orð, einhverskonar merkingarbærar hliðstæður eða afleiður af orðunum. Grunnskilningur okkar á orðum og hugmyndum er þó býsna háður andstæðum þeirra. Manninum er tamt að beita tvíhyggju á tilveru sína, sem er auðvitað einföldun á veruleikanum, en það læðist líka oft að manni sá grunur að við séum einfaldar vitsmunaverur. Orðið hatur væri ekki til án orðsins ást og skilningur okkar á orðinu karlmennska er grundvallaður á skilningi okkar á kvenleika. Þessi skynjun okkar á tilverunni afvegaleiðir okkur auðveldlega.

Samkvæmt þessu skilur maðurinn orðið olíuvinnsla, m.a. út frá andstæðu þess. Einfaldasta andstæða orðsins væri orðasambandið ekki olíuvinnsla, en hvað er það? Jú! – segja áttatíu prósent þjóðarinnar, ekki olíuvinnsla er Ísland í dag og Ísland í dag er kreppa og kreppa er leiðindi. Olíuvinnsla er hins vegar Noregur, engin kreppa, peningar og gleði!

Eins og ég nefndi áðan er erfitt að segja að fólk skilji orð á réttan eða rangan hátt. Tungumálið má skilgreina sem ósýnilegt samkomulag einstaklinga um merkingu orða og því er það oft svo að tvær fylkingar berjast um „rétta“ merkingu orðs. Mörg orð hafa vissulega formlega merkingu sem finna má í orðabók en það má segja að utan um hvert orð sé einnig ský af merkingu sem getur jafnvel afhjúpað þversagnakenndan skilning á orðinu. Orðið kelling þýðir formlega „gömul kona“ en hefur síðan einnig merkinguna „tilfinninganæmur karl“. Tungumálið mótast af tíðarandanum og orð geta glatað vissri merkingu og hlotið aðra. Rétt eins og í dag nota færri orðið kelling yfir mjúka karlmenn vegna þess að sá skilningur hefur færst í aukana að munurinn á konum og körlum sé mun minni en fyrri kynslóðir ætluðu.

Ég trúi því að tíminn muni leiða í ljós að það sé býsna óheppilegt að nota orðið olíuvinnsla sem merkingarbæra hliðstæðu orðanna peningur, gleði og aukin lífsgæði. Ég trúi því að eftir hundrað ár þyki sá maður ruglaður sem noti orðið í því samhengi. Rétt eins og í dag þætti það ekki fallegur skilningur á tungumálinu og mannlegri tilveru að kalla mig kellingu ef ég viðurkenndi að ég fengi stundum tár í augun þegar ég hugsa um loftslagsbreytingar og skeytingarleysi okkar gagnvart þeim.


Comments

One response to “Olíuvinnsla, kellingar og olíuvinnsla”

  1. Daníel Steingrímsson Avatar
    Daníel Steingrímsson

    Þetta líkar mér.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *