Jólasýning Borgarleikhússins að þessu sinni var leikritið Mýs og menn eftir Nóbelsverðlaunahafann John Steinbeck (1902-1968). Verkið er byggt á samnefndri skáldsögu sem kom út árið 1937 og segir frá farandverkamönnunum Lennie og George. Steinbeck skrifaði sjálfur handrit að leikriti eftir sögunni og var það frumsýnt á Broadway sama ár. Nokkrar kvikmyndir hafa einnig verið gerðar eftir þessari vinsælu sögu.
Kreppan mikla hefur sett sinn svip á samfélagið og fátækt blasir hvarvetna við. Þeir félagar George og Lennie ferðast saman í leit að vinnu eftir að hafa flúið frá síðasta vinnustað vegna þess að Lennie áreitti konu nokkra án þess að átta sig á að slíkt er ekki leyfilegt en Lennie er ekki eins og fólk er flest. Hann er einfeldningur, en er jafnframt nautsterkur og hefur þá áráttu að finnast ægilega gott að strjúka einhverju mjúku. En hann gerir sér ekki grein fyrir styrk sínum og krafti. Það er því ljóst að Georg er sá sem er sá skynsami af þeim tveimur, hann hugsar og talar fyrir hönd tvíeykisins. Georg efnir því loforð sem hann gaf gamalli konu um að gæta Lennies.
Þeir félagar hafa ráðið sig til vinnu á bæ í Kaliforníu í þeirri von að geta nurlað saman einhverjum aurum enda eiga þeir þann draum heitastan að eignast eigin jörð þar sem þeir geta ráðið sér sjálfir. En þegar þeir koma á staðinn er andrúmsloftið rafmagnað meðal annars vegna eina kvenmannsins á staðnum sem þvælist þarna um fyrir vinnumönnunum í óþökk eiginmannsins, hrottans Curlie. George hefur áður lagt Lennie lífsreglurnar og sagt honum að ef eitthvað kemur fyrir eigi hann að hitta hann á fyrirfram ákveðnum stað. Og auðvitað gerist hið óumflýjanlega, Lennie lendir í klandri, George þarf að taka málin í sínar hendur og draumurinn er á enda.
Mörg þemu eru í verkinu en sterkast er draumurinn um betra líf eða vonina.
Leikstjóri sýningar Borgarleikhússins er Jón Páll Eyjólfsson. Jón Páll hefur valið nokkuð hefðbundna leið með verkið sem tekst prýðilega. Hann hefur feikilega góðan hóp með sér, leikara og listræna aðstandendur. Í leikskrá er tekið fram að Jón Atli Jónasson hafi verið leikstjóra til aðstoðar með að endurbæta útgáfuna en hún felst aðallega í breyttu orðalagi á sumum stöðum til þess að færa verkið nær áhorfendum í dag. Þeir félagar notast við þýðingu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar að mestu leyti en þó eru sum atriði þýdd upp á nýtt. Einnig er verkið stytt lítillega. Þessar breytingar eru sýningunni mjög til bóta, textinn verður áheyrilegur og flæði sýningarinnar gott.
Með hlutverk George fer Hilmar Guðjónsson en Ólafur Darri Ólafsson leikur Lennie. Þeir Hilmar og Ólafur Darri voru sem sniðnir í hlutverkin og var samleikur þeirra hreinasta afbragð. Með önnur hlutverk fóru Theodór Júlíusson (Candy), Valur Freyr Einarsson (Slim), Álfrún Örnólfsdóttir (kona Curlies) og Þórir Sæmundsson (Curlie). Í hlutverkum vinnumanna voru Kjartan Guðjónsson, Halldór Gylfason, Sigurður Þór Óskarsson og Þröstur Leó Gunnarsson. Öll mótuðu þau hlutverk sitt af kostgæfni. Theodór var brjóstumkennannlegur sem gamli Candy sem þurfti að aflífa hundinn sinn vegna aldurs og örkumls. Í bók Steinbecks er sá kafli mikilvægur í ljósi þess hvert sagan leiðir lesandann. Valur sýndi festu í hlutverki sínu sem Slim og Þórir Sæmundsson var fyrirtaks hrotti í hlutverki Curlies. Álfrún Örnólfsdóttir var ágæt sem hin óhamingjusama en villta og tryllta kona Curlies og þeir Kjartan, Halldór og Sigurður sýndu skemmtilega persónusköpun í sínum hlutverkum. Þröstur Leó hefur væntanlega ekki verið í jafn litlu hlutverki í langa tíð en lék það vel.
Vert er að minnast leikmyndarinnar. Yfirþyrmandi stórir kassar á sviðinu (stakkar) sem búið er að stafla upp. Sviðsmyndin undirstrikar rækilega það eymdarlíf sem einkenndi farandverkamenn í Bandaríkjum þessa tíma. Kössunum var haganlega komið fyrir og myndaði leikmyndin ýmist herbergi eða skála eða landslag eftir því hvernig sviðið snerist og var þannig hin ákjósanlegasta fyrir sýninguna. Ilmur Stefánsdóttir er hugvitssöm að finna frumlegar leiðir þrátt fyrir hefðbundna umgjörð.
Þessi uppsetning Borgarleikhússins á leikritinu Mýs og menn er í alla staði með ágætum. Þó er eitt atriði sem ekki gekk upp að mati undirritaðrar og það er lokaatriði verksins. Lokakafli sögunnar kallast á við kaflann um aflífunina á hundi Candys. Þetta samspil gerir söguna mjög eftirminnilega. Þetta er því viðkvæmt atriði en ferst fyrir í þessari uppsetningu sem er miður.
Ég segi um verkið eins og Mary Poppins sagði um sjálfa sig: „practically perfect in any way“.°
Leave a Reply