Höfundur verksins er Marie Jones, írskt leikskáld sem getið hefur sér gott orð sem leikhúsmanneskja en hún er einna þekktust fyrir leikritið sem hér um ræðir. Verkið er skrifað fyrir tvo leikara en þeir fara með öll hlutverk sýningarinnar eða fimmtán talsins. Þótt sagan sé kannski sorgleg í aðra röndina þá er þarna á ferð ótrúlega fyndinn farsi, ekki síst vegna þessara fjölmörgu persóna og skondinnar atburðarásar. Leikrit sem þetta er varla á færi nema afburðaleikara.
Með hlutverkin fara sem fyrr, Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson.
Í hröðum skiptingum á milli persóna verður gríðarleg spenna og mikill húmor. Það er aldrei dauður punktur í sýningunni. Stefán Karl er frábær í hlutverki skriftunnar Audrey en nær ekki síður dýpt í hlutverki sínu sem Jake. Hilmir Snær nær mjög góðum tökum á persónum sínum en einna eftirminnilegastur er hann sem Charlie og gamli presturinn. Þeir félagar Hilmir og Stefán eru auðvitað með þessi hlutverk alveg á hreinu og þaulreyndir leikarar en það er samt alltaf jafn ótrúlegt hversu vel þeir ná tökum á fagi sínu. Ein stórkostlegasta sena sýningarinnar er dansatriði sem erfitt er að lýsa í orðum. Sjón er sögu ríkari.
Leikmynd og búningar eru eftir erlendri fyrirmynd og henta verkinu vel. Þýðing Guðna Kolbeinssonar er þjál og hefur elst vel og leikstjóri sýningarinnar Ian McElhinney hefur enn sem fyrr náð að virkja eldmóð og kraft leikaranna.
Með fulla vasa af grjóti er skemmtileg sýning í alla staði.
Leave a Reply