Ítalir eiga sér fjölbreytta og stórmerkilega kvikmyndasögu. Þeir hafa ekki síst markað sér sérstöðu með gerð úthugsaðra og vitsmunlegra kvikmynda um pólitík, þótt þessi hefð hafi gjarnan fallið í skuggann of módernísku meisturunum Federico Fellini og Michelangelo Antonioni og hinu víðfræga nýraunsæi Ítala (sem pólitíska hefðin á nú kannski rætur í og þá sérstaklega myndum Roberto Rossellini). Kvikmynd Daniele Vicari Diaz: Ekki þrífa blóðið er verðugur arftaki þeirrar yfirgripsmiklu og raunsæju stjórnmálagreiningar sem einkennir verk leikstjór a á borð við Gille Pontecorvo og Francesco Rosi, og manni verður einnig hugsað til nýlegrar kvikmyndar Paolo Sorrentino Il Divo, og í einstaka atriðum verður um svo óræða (og óhugnanlega) greiningu á kerfisbundnu ofbeldi að ræða að leita verður til Bernardo Bertolucci og Pier Paolo Pasolini til samanburðar.
Diaz segir frá því þegar lögreglan réðst á mótmælendur sem sett höfðu upp búðir í samnefndri skólabyggingu í tengslum við G8 ráðstefnuna í Genúa árið 2001. Fylgst er með fjölda ólíkra einstaklinga og hópa bæði á meðal mótmælenda og yfirvalda, og stundum er upptökum af raunverulegum atburðum skeytt við leikin atriði (og ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli). Vicari er hvorki að velta sér upp úr málstað mótmælenda né almennum sjónarmiðum yfirvalda. Fókusinn er fremur á stigskiptingu þessara hópa, hvernig þeir virka sem skipulögð kerfi, þótt þau séu auðvitað aldrei lögð að jöfnu. Úttektin á yfirvöldum er þeim mun áhrifameiri og Vicari fangar á áhrifaríkan máta leiðir valdsins allt frá jakkafataklæddum „herramönnum“ í bakherbergjum til lögreglumanna sem umbreytt hefur verið í heildstæða vígvél þar sem einstaklingsvitund þeirra hefur verið fórnað. Þetta er fangað á myndrænan máta t.a.m. þegar þeir eru kvikmyndaðir ofan frá í fullum herklæðum og liðast um myndflötinn sem ein ómanneskjuleg heild. Senurnar sem sýna mótmælendur við leik og störf eru ekki jafn sterkar, og jaðra á köflum við að vera klisjukenndar, en ég man þó ekki eftir verki sem reynir að gera innra starfi þeirra jafn góð skil—þá miklu vinnu og skipulagningu sem býr að baki alþjóðlegum mótmælum sem þessum. Ef marka má Diaz slá enn engir Ítölum við þegar kemur að gerð pólitískra kvikmynda.
Á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík hefur kastljósinu allajafna verið beint að ákveðinni kvikmyndaþjóð og í ár er það Þýskaland. Á dagskránni er m.a. að finna nýjustu mynd Christians Petzold Barbara en með hlutverk titilpersónunnar fer Nina Hoss, en þau hafa einmitt starfað saman að gerð fjölda kvikmynda, þ. á m. hinni mögnuðu Yellu (2007). Barbara er ekki pólitísk kvikmynd í sama skilningi og Diaz en hún tilheyrir þeim stóra hópi þýskra kvikmynda sem beint hafa sjónum að Austur-Þýskalandi undanfarið. Eftir að hafa sótt um fararleyfi frá Austur-Berlín er læknirinn Barbara send í refsiskyni til vinnu á lítið þorpssjúkrahús. Á meðan hún bíður færis að sleppa vestur á bóginn til unnusta síns tekur hún að tengjast lífinu í þorpinu tilfinningaböndum, bæði sjúklingum í vanda og kollega sem leikinn er af Ronald Zehrfeld. Petzold forðast í myndinna allar viðamiklar yfirlýsingar um lífið í Austur-Þýskalandi og einblínir þess í stað á persónu Barböru sem Hoss gerir einmitt svo góð skil. En þannig er líka brugðið upp áhugaverðri sýn á hið daglega líf í austurhlutanum þar sem tekst að kalla fram undarlega samblöndu af hversdagsleika og ofsóknum yfirvalda. Hér er það ekki ópersónulegt og ofbeldisfulla lögregluvaldið úr Diaz sem ræður ríkjum heldur aðrir þorpsbúar sem sjálfir verða að glíma við hverfula tilveruna.
Í vikunni settist ég niður með nemendum mínum úr námskeiði um heimskvikmyndir og við spjölluðum um hvað þeim hefði þótt markverðast á hátíðinni. Mörg verk voru þar tínd til, ekki síst heimildarmyndir, en bandaríska kvikmyndin Skepnur suðursins villta (Beasts of the Southern Wild) stal þó senunni. Virðist hún og hafa fallið landsmönnum vel í geð en færri komust að en vildu þegar ég í framhaldi fór að sjá myndina. Í Skepnunum segir frá Hushpuppy (Quvenzhané Wallis), sex ára gamalli stúlku sem býr með föður sínum Wink (Dwight Henry), í litlu bjúgvatnssamfélagi í Louisiana-fylki sem þau kalla baðkarið. Eftir mikinn fellibylsstorm verður lífsbaráttan enn harðari þegar margvísl öfl taka að sækja fram gegn þeim fámenna hópi sem kosið hefur að halda tryggð við baðkarið. Afdrif þessa litla samfélags eru sett í samhengi við hnattræna hlýnun því eins og hinn skynsama Hushpuppy bendir á eru örlög einstaklingsins og heildarinnar bundin órofa böndum. Það er þó allt annað en auðvelt að henda reiður á atburðum myndarinnar því þar blandast saman raunsæi og ævintýrablær með mögnuðum hætti—ég held að einn nemenda minna hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann lýsti myndinni sem töfraraunsæi. Og þótt Skepnur suðursins villta sé jafnvel enn fjær hefðbundinni pólitískri kvikmyndagerð en Barbara þá býr engu að síður í henni sterk pólitísk undiralda: Slæm umgengni við jarðkringluna er gagnrýnd, myndin er ákall um rétt fólks til að standa utan við forræði ríkisvaldsins, og snýr á hvolf gamalkunnuglegum staðalmyndum um suðrið bandaríska.
Því má segja að allar myndirnar þrjár búi yfir pólitískri sýn þótt með ólíkum hætti sé. Þær glíma við ólík samfélög, takast á við ólíkar spurningar og mótast af ólíkri fagurfræði. Þær eiga það þó sameiginlegt að áleitin samfélagssýn er sett fram á áhrifaríkan máta og bera myndirar þrjár hvað það varðar margbreytileika heimsbíósins gott vitni.
Björn Ægir Norðfjörð,
lektor í kvikmyndafræði
Leave a Reply