Um stöðuleysi listfræðinnar I

Málverk eftir Jón Hallgrímsson frá árinu 1766. Myndin er fengin af heimasíðu Þjóðminjasafnsins.

Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um nýútkomna Íslenska listasögu, en þó hef ég engan séð bregðast við athugasemd  Unnars Arnar Jónssonar myndlistarmanns í Víðsjá um að ritið vekti spurningar um stöðu listfræðirannsókna á Íslandi. Jón Viðar Jónsson hélt því reyndar fram í DV að grunnrannsóknir á „íslenskri sjónlistasögu“ væru takmarkaðar á meðan ritstjórinn Ólafur Kvaran hefur látið sér nægja að segja að ritið sé ætlað almenningi. Höfundar listasögunnar hafa vissulega mismikla reynslu af rannsóknum, en flestir þeirra hafa skrifað um íslenska myndlist í mörg ár og því má gera ráð fyrir að ritið endurspegli á sannverðugan hátt þá þekkingu sem er til staðar á fræðasviðinu. Jón Viðar gerir hins vegar athugasemdir við aðferðafræði verksins út frá akademísku sjónarhorni, en á móti má spyrja hvort hægt sé að gera þá kröfu að verkið standist ströngustu akademísku kröfur þar sem fæstir höfundanna hafa haft tækifæri til að stunda fræðistörf innan akademíunnar? Sú staðreynd vekur síðan upp spurningar um stöðu listfræða í íslensku samfélagi og innan akademíunnar.

Hvar er handverkið?

En fyrst er ekki úr vegi að upplýsa forvitna um ástæður þess að ekki er fjallað um gamalt handverk í Íslensku listasögunni. Það var á sínum tíma ákvörðun menntamálaráðuneytisins að styrkja Listasafn Íslands sérstaklega til standa að útgáfunni, en frumkvæðið átti þáverandi safnstjóri Ólafur Kvaran. Safnið var lengi vel eina stofnunin í íslensku samfélagi sem bar lögum samkvæmt skylda til að stunda rannsóknir á íslenskri myndlist, en sú skylda nær ekki yfir annað tímabil en safneign þess eða frá lokum 19. aldar til okkar daga. Það er því rökrétt að listasaga sem er skrifuð á vegum Listasafns Íslands nái yfir sama tímabil.

Ef ætlunin hefði verið að að  skrifa sögu lista á Íslandi frá upphafi byggðar hefði átt að veita styrkinn sameiginlega til Listasafns Íslands og Þjóðminjasafnsins sem varðveitir myndverk frá landnámi til upphafs19. aldar. Ef taka hefði átt fyrir lýsingar í handritum hefði einnig þurft að koma til samvinna við Stofnun Árna Magnússonar. Ekkert af þessu var gert, kannski vegna þess að fæstir starfandi listfræðingar hafa sérhæft sig í listasögu fyrri alda. Þó má benda á að árið 2005 gaf Þjóðminjasafn Íslands út Mynd á þili eftir Þóru Kristjánsdóttur, þar sem fjallað er um útskurð, altaristöflur og portrettmálverk frá 16., 17. og 18. öld. Viðfangsefni Íslenskrar listasögu er með öðrum orðum saga nútíma- og samtímalista og því hefði ritið átt að heita Íslensk nútímalisaga.

Skipting tímabilsins á sér ýmsar skýringar, en áhugaleysi íslenskra listfræðinga á fortíðinni vekur upp ýmsar spurningar sem og sú árátta þeirra að vera sífellt að leita að hinu „séríslenska“ í myndlistinni.  Ég tel að hér sé á ferðinni arfleifð frá Sigurði Nordal sem gerði á sínum tíma greinarmun á „íslenskri menningu“ og „menningu Íslendinga“. Íslensk myndlist frá því fyrir 1860 tilheyrir einokunartímanum og hefur þótt of „dönsk“ til að vera íslensk. Hér er án efa að finna skýringuna á því hve þrautseigir íslenskir listfræðingar hafa verið í tilraunum sínum til að skilgreina hvar megi finna sameiginleg einkenni í verkum íslenskra listamanna.[i] En með slíkri nálgun er ýtt undir þá hugmynd að brýnasta verkefni listfræðinnar sé að skilgreina hið „þjóðlega“.

(Síðari hluti greinarinnar verður birtur á Hugrás á morgun).

                                                                                                                                                            Margrét Elísabet Ólafsdóttir,
sjálfstætt starfandi fræðimaður og stundakennari við HÍ


[i] Það má benda á ýmis skrif Auðar Ólafsdóttur, t.d. „La quête d’une identité insulaire“, Art nordique no 5, 2001-2002, „Frá fjalli til hugmyndar. Þróun íslenska landslagsmálverksins“, í ritsj. Turid Sigurðardóttir, Magnús Snædal, Frændafundir 2, Thorshavn, Foroya Fróðskaparfélagið, bls. 102-113, „Hið upphafna norður“, Lesbók Morgunblaðsins, 13. október 2001, (stytt útgáfa af grein sem birtist í sýningarskránni Confronting Nature í ritj. Ólafs Kvaran, Listasafn Íslands, 2001); Æsa Sigurjónsdóttir, „Björk í mynd“, Skírnir, vor 2011, bls. 215-229.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *