Mánudaginn 17. október flutti Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði fyrirlestur á Jafnréttisdögum sem hún nefndi „Feðraveldið sem hrundi… og hitt sem kom í staðinn.“ Í fyrirlestrinum velti Þorgerður m.a. upp spurningunni um það hvort feðraveldið væri að sækja í sig veðrið eða hefði ekki hopað þrátt fyrir háværar yfirlýsingar fjölmiðla um annað. Ákveðinn hluti umfjöllunar hennar vakti áhuga minn og er kveikjan að þessum pistli.
Þorgerður fjallaði um kenningar um það að margar tegundir af karlmennskuímyndum séu ávallt til staðar í samfélaginu og hvernig þær raðist upp í stigveldi. Þorgerður rakti hvernig sú sem var mest ráðandi fyrir hrun, ímynd útrásarvíkingsins, væri fallin og hefði misst áhrifamátt sinn að mestu og að því væri til staðar ákveðið tómarúm sem óvíst væri hvernig yrði fyllt. Hún varpaði fram orðunum Gnarr og Gillz sem dæmi um aðrar karlmennskuímyndir sem væru til staðar, en ræddi í raun aðeins um hvernig seinni möguleikinn hafi birst í samfélaginu eftir hrun. Hún útskýrði ekki hvers konar karlmennskuímynd hún telur Gnarr standa fyrir en ég ætla að taka mér það bessaleyfi að gera það út frá mínum bæjardyrum séð og lýsa því hvers vegna ég tel að hún sé ekki síður neikvæð fyrir jafnréttisbaráttu en sú sem Gillz stendur fyrir, algerlega burtséð frá þeim skoðunum sem Jón Gnarr sem einstaklingur hefur á jafnrétti.
Sú karlmennskuímynd sem Gnarr stendur fyrir er sniðugheitakarlmennska, karlmennska þar sem það að snúa útúr orðum annarra, kveða þá í kútinn með orðheppni og gera grín að fólki sem hefur aðrar skoðanir, og þar með lítillækka það, er talið til dyggða. Karlmennska þar sem þekking, reynsla og yfirvegun eru ekki dyggðir heldur lestir, þar sem menntun er kúgun og heftandi fyrir einstaklinga og í raun hindrun í vegi þeirra sem vilja ná árangri í lífinu. Þetta er karlmennsku hugmynd sem hefur verið ríkjandi í mörgum geirum þjóðfélagsins síðastliðna áratugi, kannski sérstaklega í fjölmiðlageiranum, en hefur þó ætíð staðið í skugganum af öðrum ráðandi karlmennskuímyndum í samfélaginu í heild.
Þetta getur verið mjög kvenfjandsamleg karlmennskuímynd af nokkrum ástæðum. Þegar húmor er notaður sem valdatæki eykst hættan á að það verði einkahúmor ákveðins hóps sem ræður ríkjum og þess háttar húmor er í eðli sínu útilokandi. Hann dregur skýr mörk milli þeirra sem “ná” brandaranum og geta leikið með og hinna sem gera það ekki, og auk þess sýnir reynslan að þess háttar klíkumyndun hyglir körlum frekar en konum.
Auk þess dregur and-menntahrokinn sem fylgir þessari karlmennskuímynd úr vægi milkilvægasta tækinu sem konur, og aðrir hópar sem hafa ekki verið í ráðandi stöðu í samfélaginu, hafa getað notfært sér til að draga úr ójöfnuði; þ.e.a.s. menntun. Þorgerður benti í fyrirlestri sínum á þá staðreynd að skýringin á því af hverju Ísland hefur þokast upp á við á hinum ýmsu alþjóðlegu listum um jafnréttismál á síðustu árum, sé að hlutur kvenna í heimi stjórnmála hefur aukist. Sama þróun hefur ekki átt sér stað í atvinnulífinu og á sviði efnahagsmála, þrátt fyrir trú almennings á að svo sé. Hún benti einnig á þá athyglisverðu staðreynd að fjölgun kvenna og aukin áhrif þeirra koma á sama tíma og virðing Alþingis, og stjórnmála almennt, er í lágmarki. Þetta minnir mann óhjákvæmilega á það hvernig fjölgun kvenna innan ákveðinna stétta, t.d. kennarastéttarinnar, hefur yfirleitt fylgt minni virðing innan samfélagsins og lægri laun. Ekki ætla ég að reyna að skera úr um það hvað sé orsökin og hvað afleiðingin en það er einstaklega varhugavert að nú, þegar konur eru í meirihluta á nær öllum stigum menntakerfisins, verði raddir and-menntunarinnar sífellt háværari. Ég er hrædd um að það væri mjög svo varhugavert fyrir áframhaldandi jafnréttisbaráttu ef þessi gerð karlmennskuímyndar myndi fylla upp í tómarúmið sem útrásar-karlmennskuímyndin skildi eftir sig á toppi karlmennskuímynda-valdapýramídans.
Leave a Reply