Á fimmtudagskvöld lá leiðin í Tjarnarbíó þar sem Lab Loki sýndi nýjasta verk sitt undir þessum titli. Það er Rúnar Guðbrandsson og Árni Pétur Guðjónsson sem eru uppistaðan í þessum frumlega leikhópi sem er einstakur í sinni röð. Ég hef verið aðdáandi þeirra allt frá því ég sá Sýninguna Stóru börnin fyrir tíu árum síðan og þar var Stefán Hallur Stefánsson líka með í för. Sú sýning var ógleymanleg, morðfyndin og súrrealistísk en efnið verulega myrkt. Rithöfundurinn Lilja Sigurðardóttir skrifaði handritið sem var bæði meinlegt og margrætt.
Í sýningunni í gær var allt öðruvísi, leikarar voru tveir, Árni Pétur og Sigurður Edgar Andersson. Sá fyrri er aðdáendum Lab Loka að góðu kunnur, dásamlegur leikari, það vissi ég áður en ekki að hann væri jafn fjölhæfur dansari og hann sýndi sig í að vera. Þar hefur hann fengið engan smávegis mótleikara í Sigurði Edgar Andersson sem er mjög glæsilegur ungur dansari. Þeir tveir báru uppi sýninguna frá fyrsta (ástar) fundi á götu í myrkrinu yfir í prúðbúinn, virðulegan vínarvals. Meirihluti sýningarinnar voru dansatriði þar sem Árni Pétur var ansi góður og Sigurður Edgar fór á kostum.
Sigurð Edgar hef ég aldrei séð áður á sviði en las einhvers staðar að hann býr í Svíþjóð, starfar sem dansari og hefur sérhæft sig í danslist sem kölluð er „boylesque“ (búrleskir karldansarar). Dansinn var sem sagt ráðandi í sýningunni, hressilega erótískur, fyndinn og búrleskur. Texti var í lágmarki í þessu verki og opnaði nokkrar brotakenndar og sársaukafullar minningar þeirra af gömlum karli, hræfugli sem sveimaði í kringum barnaskólann og veiddi litla drengi.
Annars tengjast þeir tveir á flóknum „haltu mér slepptu mér“ forsendum – samband þeirra er merkt af aldursmun, ólíkum forsendum og viðkvæmni. Það var ekki kafað djúpt í þetta enda texti ekki í forgrunni heldur stuðið og dansinn, sýningin er flæði sem hefði þolað meira form og bakgrunn en hún var mögnuð og áhorfendur gríðarlega hamingjusamir.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.