Hlaðvarp Engra stjarna #14 – Ruslbíóið er ljóðlist kvikmyndanna

„Sanna kvikmyndaáhugamenn þekkirðu alltaf“, skrifaði bandaríski kvikmyndagagnrýnandninn Pauline Kael eitt sinn, „á því að þeir tala minna um góðar myndir en það sem þeir elska við vondar myndir“. Við könnumst við hugtakið, „svo vont að það er gott“ og það er einmitt á hönd vondleikans sem Hlaðvarp Engra stjarna heldur að þessu sinni. Vondmyndin, splatterpönkið, mondómyndin, sverð og sandala epíkin ítalska, Elvis-myndir, aldargamlar kynfræðslumyndir hins opinbera, japanskar skrímslamyndir, strandarpartímyndirnar mannfræðilegu, gulfurðan eða giallo-bizzarre, miðnæturmyndir, erótíska alþýðumyndin, braskmyndir og kynlífsbrask, kynþokkafullar vampírur, það sem er sjokkerandi, yfirgengilegt, öfgafullt, hneykslanlegt og hispurslaust, það sem er kamp og kits, allt þetta liggur undir í þættinum, myndir sem gerðar eru af engiltærri einlægni, hugdirfsku ljónsins og yfirmáta fjölbreytilegu hæfileikaleysi. Gestir þáttarins eru braskbarónarnir Hrafn Helgi Helgason og Ragnheiður Davíðsdóttir. Þáttastjórn er í höndum Björns Þórs Vilhjálmssonar.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila