Vá í víðáttum sólkerfisins

Júlía Helgadóttir fór í Laugarásbíó að sjá Alien: Covenant og gaf henni engar stjörnur.

Allt frá því að fyrsta Alien myndin kom út árið 1979, undir leikstjórn af Ridley Scott, hefur röð þessi um geimvarga og feiga geimfara lyft áhorfendum í hæstu hæðir sem og dýpstu dali – líkt og langt hjónaband. Alien: Covenant (2017) er sjötta myndin í röðinni og stendur fyllilega undir kröfunum sem Alien–aðdáendur gera orðið til hennar. Nýjasta viðbótin er beint framhald af Promotheus frá árinu 2012, en hún var sú fimmta í þessum sagnasveig, og reyndist fréttnæm fyrir tvennar sakir. Annars vegar boðaði Prometheus endurkomu leikstjóra fyrstu myndarinnar, áðurnefnds Scott, í söguheiminn og hins vegar söðlaði frásögn myndarinnar um og sagði forsögu fyrstu myndarinnar. Flokkast hún því sem svokölluð „formynd“ eða „prequel“ á ensku. Nýju myndinni er sömuleiðis leikstýrt af Scott og hún brúar bilið frá Prometheus yfir í Alien.Tónlistin er samin af Jed Kurzel og byggir hann þar á hinu upprunalega Alien stefi Jerry Goldsmith, en „leikur“ þessi með hljóðheim (e. soundscape) myndarinnar gerir það að verkum að hún kallast skemmtilega á við og rímar við upprunalega verkið.

Skipta má Alien: Covenant í forleik og þrjá hluta líkt og góðri (geim)óperu sæmir. Myndin er forvitnileg strax frá upphafi og ýmislegt má raunar lesa úr byrjunaratriði myndarinnar sem stekkur aftur fyrir Prometheus í tíma. Áhorfendur fá þar að fylgjast með eins konar „fæðingu“ og fyrstu stundum Davids (Micheal Fassbender), vélverunnar (e. cyborg) úr myndinni á undan. Bjart, skínandi og hvítt umhverfið í atriðinu kallast vísvitandi á við hvíta „húsnæðið“ í lok 2001: A Space Odyssey (1968, Stanley Kubrick), og tengir sig þannig við vísindaskáldskaparmyndahefðina. Er þar um að ræða heimili Peter Weyland (Guy Pearce), auðmannsins hvurs aðgerðir knúa frásögnina áfram, og undirliggjandi er þema sem unnið var með í Prometheus, þráin eftir eilífu lífi. (Viðfangsefnið verður að teljast nokkuð sígilt þar sem það má rekja frá upphafi ritaðra bókmennta í Gilgameskviðu allt til hugleiðinga í samtímanum um samruna mannlegar vitundar og gervigreindar sem kenndar eru við „upphefðina“ eða „the singularity“ á ensku. Kaldhæðnin er vitanlega sú að hvergi er eilíft líf lengra undan seilingar en í Alien-myndunum, þar sem allar sögupersónur eru jafnan stráfelldar – að Ripley stundum en ekki ávallt undanskilinni).

Í fyrsta atriðinu sést David sitjandi í stól ítalska hönnuðarinns Carlo Bugatti er ber nafnið „The Throne Chair“ – en notkun þessi á leikmyndinni skírskotar til endaloka myndarinnar. Peter kallar David son sinn og segist vera skapari hans. Bætast þar með skírskotanir í Frankenstein, skáldsögu Mary Shelley frá 1818, við merkingarkerfi myndarinnar. Frásögnin lætur ekki staðar numið þar. Menningarfjársjóðirnir sem umkringja Peter í rýminu vísa til fæðingar Jesú og bætir hljóðfæraleikur sonarins, Davids, þar jafnframt við skírskotunum til enn eldri og „heiðnari“ trúarbragða en það er Das Rheingold eftir Wagner sem er spilað. Í kjölfarið ávarpar David skapara sinn og spyr: „Ef þú skapaðir mig, hver skapaði þá þig?“ Peter reynist ófær um að svara, einhverra hluta vegna. Í staðinn skipar hann David að færa sér te sem bersýnilega er táknræn athöfn. David er auðmjúkur þjónn Peters líkt og japönsk geisha er færir kúnna sínum te, eða þegn er þjónar guði sínum.

Í fyrri hluta myndarinnar er áherslan lögð á áhöfn Covenant, en svo nefnist geimskipið er færir persónurnar í átt til stjarnanna Áhorfendur fylgjast með áhöfninni vakna af djúpsvefni rúmum sjö árum á undan áætlun vegna óvæntrar bilunar í geimskipinu. Covenant er nýlenduskip sem ætlað er að ferðast til hinnar byggilegu plánetu Oregea-6 með mörg þúsund landnema. Þegar bilunin hefur verið yfirstigin fara menn að athuga hvaðan óljóst merki frá að því er virðist mennskri veru kemur og niðurstaðan er að þau séu stödd í návígi við óþekkta plánetu er virðist líkjast jörðinni hvað vistkerfi og lofthjúp varðar. Skipstjóri skipsins, Oram (Billy Crudup), ákveður að athuga hvort hægt sé að setjast þarna að og stytta leið sína um rúm sjö ár.

Oram er trúaður maður og hafa örlög hans og gjörðir túlkunarlegt gildi fyrir myndina. Hann lætur í ljós áhyggjur sínar um að áhöfnin treysti ekki ákvörðunum hans, að hann sé ekki talinn nógu rökfastur vegna trúar sinnar en Daniels (Katherine Waterston) sannfærir hann um að áhyggjur hans eru ekki á rökum reistar. Því miður hefur Daniels rangt fyrir sér. Oram kýs hinn breiða beina veg – frekar en hinn þyrnum stráða – og leiðir hann auðvitað beint til heljar. Hann leggur í rannsóknarferð niður á yfirborð hinnar óþekktu plánetu í slagtogi með sjö af tíu eftirlifandi áhafnarmeðlimum, auk Walters (Michael Fassbender) sem er nýrri útgáfa af David. Þegar á þessa óþekktu plánetu er komið eru fyrstu viðbrögð teymisins þau að fagna gæfu sinni því um náttúruparadís virðist vera að ræða. Fljótlega veikjast hins vegar tveir skipverjar og deyja, og annað par fylgir þeim eftir skömmu síðar eftir að hafa látið í lægra haldi fyrir því ægilega skrímsli er brýst út úr þeim sýktu. Eftirlifandi skipsverjum er bjargað af David sem birtist íklæddur kufli, líkt og munkur. Hann leiðir eftirlifandi áhöfn í skjól en á leiðinni birtist þeim óhugnarleg sjón þúsundra steini runna líkamsleifa.

Annar hluti myndarinnar fer mikið til í þekkingarfræðilega leit. Hvaða harmleikur átti sér stað á þessari plánetu? Nú er runnið upp fyrir eftirlifendum að í stað þess að vera staddir í náttúruparadís eru þeir fastir í stærsta kirkjugarði sólkerfisins; allt líf virðist hafa verið þurrkað út af plánetunni. David svarar áðurnefndri spurningu í kjölfar þess að enn einn áhafnarmeðlimurinn er drepinn, en geimvargurinn sem þar er á ferðinni hefur stækkað töluvert síðan áhorfendur börðu skrímslið fyrst augum. Óþarfi er að fara frekar í sögufléttuna; nægir hér að segja að hvörf og afhjúpun eiga sér stað og endalokin (og þriðji hluti myndarinnar) vinna ennfrekar úr þeim trúarlegu táknmyndum og merkingarvirkni sem upphafsatriðið kynnir til sögunnar. Lokahluti myndarinnar er ennfremur mjög í anda Gamla Testamenntsins; blóðugur og nær alveg laus við farsæl endalok fyrir aðalleikendur; syndugum sem réttlátum er fargað miskunnarlaust. Líkt og góðri Alien-mynd sæmir er jafnframt boðið upp á framhaldsmynd undir lokin. Aðdáendur geta því varpað öndinni léttar. Ekkert gefur til kynna að myndaröðin hafi runnið sitt skeið á enda.

Vefsvæði Engra stjarna er á heimasíðu kvikmyndafræði Háskóla Íslands.

Um höfundinn
Júlía Helgadóttir

Júlía Helgadóttir

Júlía Helgadóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila