„Það vantar aðeins fé til að launa æðri tónlist“

Með nótur í farteskinu eftir austurríska-íslenska sagnfræðinginn Óðin Melsted er góð og tímabær samantekt á störfum erlendra tónlistarmanna og þýðingu þeirra fyrir tónlistarlíf á Íslandi á árunum 1930-1960.
Óðinn Melsted
Með nótur í farteskinu
Sögufélag, 2016
Í upphafi tímabilsins var fátt um fína drætti í tónlistarlífi hér á landi og til að háleitar hugsjónir mennta- og ráðamanna á alþingishátíðarárinu um eflingu og uppbyggingu tónlistar yrðu að veruleika þurfti að leita hjálpar út fyrir landsteinana. Stofnun Tónlistarskóla Reykjavíkur og Ríkisútvarpsins sama ár mörkuðu tímamót í þessari viðleitni. Þremur áratugum síðar er staðan önnur og íslenskt tónlistarlíf orðið líkara því sem tíðkaðist í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Bók Óðins sýnir glöggt að það hefði ekki orðið að veruleika án óeigingjarns og ötuls starfs hinna fjölmörgu erlendu tónlistarmanna sem hingað lögðu leið sína.

Til að háleitar hugsjónir mennta- og ráðamanna á alþingishátíðarárinu um eflingu og uppbyggingu tónlistar yrðu að veruleika þurfti að leita hjálpar út fyrir landsteinana.
Tilgangur rannsóknar Óðins er tvíþættur: „Annars vegar að skýra af hvaða eða hverra völdum erlendu tónlistarmennirnir komu til Íslands. Hins vegar að varpa ljósi á líf þessara tónlistarmanna og hvernig það hafi verið að halda norður á bóginn.“ (bls. 3) Í fyrri hluta verksins gerir höfundur grein fyrir tónlistarsögulegum aðdraganda tímabilsins, skýrir komu tónlistarmannanna til landsins og rekur síðan sögu þeirra og áhrif á uppbyggingu tónlistarlífs frá íslenskum sjónarhóli. Í þeim síðari er sjónum beint að ólíkum bakgrunni þeirra er hingað héldu, lífi þeirra í landinu og samskiptum við Íslendinga og sagan fremur skoðuð með auga gestsins. Ætlunarverk sitt leysir höfundur vel. Rannsóknin byggir meðal annars á prentuðum sem óprentuðum frumheimildum, viðtölum höfundar við fólk sem tengist tímabilinu og á greinum og auglýsingum úr blöðum og tímaritum þessa tíma. Í verkinu eru einnig æviágrip hundrað og tveggja erlendra tónlistarmanna, fjöldi áhugaverðra ljósmynda, nafnaskrá og samantekt á þýsku sem er ekki að ófyrirsynju vegna þeirra djúpu spora sem austurrískir og þýskir tónlistarmenn mörkuðu í þróun íslensks tónlistarlífs.

synfoniuhljomsveit_islands650px
Sinfóníuhljómsveit Íslands var formlega stofnuð árið 1950. Mynd fengin að láni af vef RÚV.

Viðtökurnar sem tónlistarmennirnir fengu voru yfirleitt góðar. Reynt var að greiða götu þeirra eftir megni, hvort sem var af hinu opinbera eða einkaaðilum, enda um mikilvægt verkefni að ræða. Íslendingar lögðu sig fram við að fá hæfa tónlistarkennara og án þeirrar viðleitni hefði uppbyggingarstarfið ekki geta átt sér stað. Aðstæður til þess voru þó ekki góðar. Skortur var á hljóðfærum, nótum og tilheyrandi húsnæði og opinberir styrkir til tónlistarskólastarfs og tónleikahalds voru af skornum skammti. Með formlegri stofnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1950 og lagasetningu um tryggðan rekstur tónlistarskóla árið 1963 er fyrst bætt úr þessum fjárskorti af hinu opinbera. Að á Íslandi yxi og dafnaði klassískt tónlistarlíf að evrópskri fyrirmynd var vissulega pólitískt verkefni eins og ráðningar tónlistarkennaranna bera með sér. Höfundur kemst þó að þeirri niðurstöðu að drifkrafts þeirra breytinga sem hér urðu sé mun fremur að leita í „framtakssemi tónlistarmanna og tónlistarunnenda“ en í orðræðu og verkum mennta- og ráðamanna. Því beri frekar að líta á þær hugmyndir að flytja inn tónlistarþekkingu og færni sem listrænt verkefni heldur en pólitískt (bls. 112).

Höfundur kemst þó að þeirri niðurstöðu að drifkrafts þeirra breytinga sem hér urðu sé mun fremur að leita í „framtakssemi tónlistarmanna og tónlistarunnenda“ en í orðræðu og verkum mennta- og ráðamanna.
Óðinn skiptir tónlistarmönnunum sem hingað komu í áhugafólk, gesti, atvinnufólk og kennara og kemst að þeirri niðurstöðu að þeir kennarar sem lengi störfuðu á landinu hafi haft mestu áhrifin á uppbyggingu tónlistarlífsins. Má þá nefna Franz Mixa, Victor Urbancic, Róbert Abraham, Heinz Edelstein, Hans Stepanek, Wilhelm Lanzky-Otto, Ruth Hermanns og Vincenzo Demetz. Íslenskir nemendur þessara kennara áttu heldur betur eftir að gera vart við sig í tónlistarlífinu – hvort sem er á sviði klassískrar eða dægurtónlistar – og greiða braut þeirra er fylgdu á eftir. En þessi árangur var ekki sjálfgefinn. Vinnuálag og nemendafjöldi kennara var mikill og laun oft ekki eftir því, líkt og dæmi Mixa, Urbancic og Lanzky-Otto sýna, en sá síðastnefndi yfirgaf landið vegna þessa. Auk þess tóku kennarar oft að sér aukastörf eins og einkakennslu og tónlistarleik. Eljusemi sumra þeirra var því mikil og vinnudagar langir og strangir og í raun ótrúlegt hve mikla atorku þeir sýndu þrátt fyrir bágar aðstæður.

Átta myndir settar saman.
Efri röð frá vinstri: Franz Mixa, Victor Urbancic, Róbert Abraham og Heinz Edelstein. Neðri röð frá vinstri: Hans Stepanek, Wilhelm Lanzky-Otto, Ruth Hermanns og Vincenzo Demetz. Myndir fengnar að láni af vef Ísmús.

Líku var raunar farið um þá erlendu tónlistarmenn er hér störfuðu áður en Sinfóníuhljómsveit Íslands tók til starfa. Undir stjórn Victors Urbancic voru mikilvæg verk tónlistarsögunnar frumflutt á Íslandi. Þrátt fyrir góðar viðtökur var fundið að því að Hljómsveit Reykjavíkur skorti æfingu og svaraði Urbancic gagnrýninni á þessa leið: „Það vantar ekki krafta til að geta staðið erlendum hljómsveitum á sporði, nei, kraftarnir eru fyrir hendi, en þeim er ekki beitt. Það vantar aðeins fé til að launa æðri tónlist.“ (bls. 54-55) Helmingur sveitarinnar voru áhugamenn sem sinntu annarri vinnu og hinn helmingurinn atvinnumenn sem léku á  skemmtistöðum á kvöldin til að komast af. Lítill tími var fyrir æfingar sem auk þess var ekki greitt fyrir. Mikilvægt var því að koma á laggirnar sinfóníuhljómsveit eins og raunin varð.

tónleika auglýsingar. Sú efri birtist í Þjóðviljanum 9. sept. 1954 sjá hér og á bls. 101 í bókinni og sú neðri í Morgunblaðinu 11. nóv. 1934 - sjá hérog á bls. 44 í bókinni.
Tónleikaauglýsingar. Sú efri birtist í Þjóðviljanum 9. sept. 1954 sjá hér og á bls. 101 í bókinni og sú neðri í Morgunblaðinu 11. nóv. 1934 – sjá hér og á bls. 44 í bókinni.

Með nótur í farteskinu gerir ágæta grein fyrir þróun tímabilsins. Vel er farið í saumana á tónlistarlífinu í Reykjavík, sem er eftirtektarvert. Með erlendu tónlistarmönnunum jókst flutningur dægurtónlistar til mikilla muna og staðir eins og Hótel Borg og Hótel Ísland héldu úti metnaðarfullu og öflugu tónleikahaldi sem setti mikinn svip á bæjarbraginn. Forvitnilegt er einnig að líta á fjölda þeirra heimsfrægu listamanna sem hingað komu sem gestir og hafa án efa haft sín áhrif. Má í því sambandi nefna Ignaz Friedman, Jussi Björling, Dietrich Fischer-Dieskau ásamt Gerald Moore, Mstislav Rostropovitsj, Adolf Busch ásamt Rudolf Serkin og Friedrich Gulda sem lék píanóverk eftir Beethoven og tróð auk þess upp í Jazzklúbbi Reykjavíkur.

Stríðsárin báru svo nýja strauma til landsins og á eftirstríðsárunum fóru Íslendingar ekki varhluta af samkeppni stórveldanna er keppst var við að flytja hingað heimsþekkta listamenn frá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum til tónleikahalds. Þeir kaflar verksins sem um þetta fjalla eru fróðlegir og ef lesið er á milli línanna og ímyndunaraflinu gefinn laus taumurinn er hægt að lifa sig á skemmtilegan hátt inn í tímabilið. Undirrituðum var hugsað til þess tíma er allt lék í lyndi milli Matthíasar Johannessen og Sigurðar A. Magnússonar og þeir fóru oft að skemmta sér á veitingastaðnum Naustinu á árunum í kringum 1960, til dæmis er félagarnir héldu upp á útgáfu fyrstu ljóðabókar Matthíasar, Borgin hló, ásamt útgefandanum Ragnari í Smára. En á þeim tíma lék þar Vínarbandið – hljómsveit Naustsins sem þeir Carl Billich, Jósef Felzmann, Jan Morávek og Pétur Urbancic skipuðu, en allir fæddust þeir í Vínarborg. Töldu margir að með tímanum hafi hljómsveitin orðið hluti af innréttingu staðarins (bls. 185).

 http://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=1016
Hér má sjá mynd af Vínarbandinu – hljómsveit Naustsins sem þeir Carl Billich, Jósef Felzmann, Jan Morávek og Pétur Urbancic skipuðu. Myndin birtist í Heimilispóstinum 2:1 (1961) bls 13, sjá timarit.is og á bls. 185 í bókinni.

Tónlistarmenn áttu nokkuð auðvelt með að komast hingað sem flóttamenn og voru auk þess ráðnir hingað beint, en nokkur andstaða var gegn flóttamönnum sem hingað leituðu vegna ofsókna Hitlers
Áhugavert er að líta á bakgrunn tónlistarmannanna. Langflestir komu frá Þýskalandi og Austurríki, þar sem margar af háborgum æðri tónlistar var að finna. Það var því ekki tilviljun að Íslendingar leituðu þangað til að finna fólk. Einnig kom hingað fjöldi frá Danmörku, Englandi og Ungverjalandi. Önnur ástæða fyrir því að þýskumælandi fólk kom hingað var sú að „djúp efnahagskreppa og pólitískar sviptingar“ (bls. 123) hrjáðu mannlífið. Ævintýramennska átti einnig hlut í því að tónlistarfólk kom til landsins, en flest þess voru karlmenn á aldrinum 20-25 ára. Aðeins lítill hluti hélt hingað sem flóttamenn beinlínis vegna kerfisbundinna ofsókna nasista, en það voru þó þeir sem hvað mestan svip áttu eftir að setja á tónlistarlífið eins og Róbert Abraham, Heinz Edelstein og Victor Urbancic – Ísland var þó ekki landið sem hugur þeirra stóð hæst til. Tónlistarmenn áttu nokkuð auðvelt með að komast hingað sem flóttamenn og voru auk þess ráðnir hingað beint, en nokkur andstaða var gegn flóttamönnum sem hingað leituðu vegna ofsókna Hitlers (bls. 140). Má hér minna á þá sorglegu staðreynd að móður Melittu Grünbaum Urbancic,[i] eiginkonu Victors, var hafnað um landvistarleyfi, en hún lést síðar í fangabúðum nasista í Theresienstadt.

Með nótur í farteskinu er á köflum skemmtilegt og spennandi aflestrar og fyrir leik- og áhugamann er hér um vandað, fræðandi og áhugavert rit að ræða.
Hér hefur aðeins verið tæpt á nokkru af því sem bókin hefur upp á að bjóða. Ekki hefur verið minnst á þá kafla sem fjalla um hagsmunaárekstra íslenskra og erlendra tónlistarmanna, ágreining Victors Urbancic og Ragnars í Smára eftir að Olav Kielland var ráðinn fyrsti aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands – hvað Kielland varðar má velta því fyrir sér hvers vegna Óðinn telur hann ekki til þeirra erlendu tónlistarmanna er hér störfuðu, ekki ólíkt Franz Mixa, sem var fenginn til eins árs til að starfa með Hljómsveit Reykjavíkur fyrir alþingishátíðina, var hann ráðinn til að sinna mikilvægu verkefni hér á landi og stjórnaði sinfóníunni í þrjú ár –, nafnabreytingar sem tónlistarmenn þurftu að ganga í gegnum og almennt líf þeirra á Íslandi svo fátt eitt sé nefnt. Við lestur verksins varð mér hugsað til Þýska landnámsins eftir Pétur Eiríksson sem kom út í sömu ritröð árið 2008 og fjallar um komu landbúnaðarverkamanna frá Þýskalandi til Íslands árið 1949. Með nótur í farteskinu er á köflum skemmtilegt og spennandi aflestrar og fyrir leik- og áhugamann er hér um vandað, fræðandi og áhugavert rit að ræða. Það höfðar ekki aðeins til tónlistaráhugafólks heldur einnig þeirra sem hafa áhuga á sögu erlends fólks á Íslandi og mannlífi í Reykjavík á árum áður.

[line]

[i] Rangt er farið með fæðingarár Melittu í verkinu, hún fæddist árið 1902 en ekki 1920 (bls. 229).

Um höfundinn
Jón Bjarni Atlason

Jón Bjarni Atlason

Jón Bjarni Atlason er magister í þýskum og norrænum bókmenntum og starfar sem leiðsögumaður, þýðandi og kennari.

[fblike]

Deila