Þegar fjallið ruddist fram

Íslendingar þekkja vel að búa við stöðuga vá náttúruhamfara. Hin þögla mikilfenglega náttúra, sem svo margir sækja innblástur til, getur á augabragði valdið flótta heilu byggðarlaganna. Snjóflóð, eldgos, jarðskjálftar. Á augabragði getur allt breyst.

hugras_bolgen3
Dæmi um fellingar í bergi, myndin er af Mount Kidd í kanadísku Klettafjöllunum.

hugras_bolgen2
Annað dæmi um fellingar í bergi, er myndin af felldu setbergi frá norðurhluta Noregs.

Kvikmyndin Flóðbylgjan, sem er í sýningu í Háskólabíói, fjallar um þá hættu sem margir Norðmenn lifa í návígi við. Hættan er sú að jarðlögin í fjöllunum skríði fram í sjóinn og myndi flóðbylgju sem gengur á land við byggð. Kvikmyndin beinir sjónum að Åknes fjalli við Tafjord. Þar stendur meðal annars bærinn Geiranger, sem er í mikilli hættu þegar fjallið að lokum skríður fram. Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær.

Hættan er til komin vegna þess að Åknes samanstendur af svokölluðu myndbreyttu graníti, eða gneissi, sem lagðist í fellingar þegar fellingarfjöll mynduðust á þessu svæði fyrir nokkur hundruð milljónum ára. Efstu lögin eru mjög brotin og liggja ofan á hallandi berglagi, í átt að sjónum, sem virkar þá eins og rennibraut fyrir þessi efstu lög. Þegar skriðan verður, gerist það snögglega og fá íbúarnir mjög stuttan tíma til að koma sér í öruggt skjól, sem er þá í raun að komast nógu ofarlega í fjallið svo flóðbylgjan skelli ekki á þeim. Árið 1934 varð stór skriða í Tafjord sem varð 40 manns að bana þegar rúmlega 60 metra flóðbylgja fór af stað í kjölfar skriðunnar. Í dag er vel fylgst með fjallinu, enda óttast menn svipaðar hamfarir í náinni framtíð.

hugras_bolgen1
Skýringarmynd af Åknesskriðunni, sem sýnir hvernig nokkurra tuga metra þykkur óstöðugur bergmassi skriðunnar liggur ofan á hallandi berggrunninum.

Aðalpersóna myndarinnar er jarðfræðingurinn Kristian sem er hluti af fimm manna teymi sem vaktar fjallið, frá bænum Geiranger. Hann er að undirbúa flutning til Stavanger, þar sem ný vinna bíður hans og nýtt líf fjölskyldunnar. Eiginkona hans er hin úrræðagóða Idun og eiga þau tvö börn, unglinginn Sondre og telpuna Lisu.

hugras_bolgen6

En á síðasta vinnudegi sínum fer að bera á undarlegum mælingum og Kristian óttast hið versta. Hann reynir að sannfæra vinnufélaga sína um að kanna málið frekar en þeir telja að um einfalda mælabilun sé að ræða. Kristian hunsar innsæi sitt eftir fremsta megni en síðan fer allt á versta veg. Skriðan fellur, flóðbylgjan fer af stað. Íbúarnir hafa ekki nema tíu mínútur til að koma sér í skjól.

Þessi norska stórslysamynd reiðir sig á einfalda sögu til að halda áhorfandanum í greipum sínum. Áherslan er ávallt á Kristian og fjölskyldu hans og kynnir einungis lítillega það fólk sem stendur þeim næst. En samheldnin í samfélaginu er augljós og hamfarirnar snerta því hjartastrengi áhorfandans auðveldlega.

Myndin byggir á dramatískri íroníu, því áhorfandinn veit að flóðbylgjan mun skella á og stendur því ávallt með Kristian og kenningum hans um yfirvofandi hættu.
Flóðbylgjan sjálf skellur ekki á fyrr en um miðbik myndarinnar en fram að því kynnumst við fjölskyldunni og spennan magnast eftir því sem Kristian verður örvæntingarfyllri. Myndin byggir á dramatískri íroníu, því áhorfandinn veit að flóðbylgjan mun skella á og stendur því ávallt með Kristian og kenningum hans um yfirvofandi hættu.

Líkt og fyrr sagði er sagan í sjálfu sér einföld og áhersla lögð á mannlega þáttinn, svo áhorfandinn tengist fjölskyldunni tilfinningaböndum. Frumleikinn er í sjálfu sér heldur ekki mikill. Yfirmaður Kristians neitar til dæmis að boða neyðarástand þegar Kristian fær sínar fyrstu grunsemdir, með þeim rökum að þau viti ekki nóg og hann vilji ekki flæma ferðamennina burt úr bænum. Þessi rök eru allt að því klisjukennd en ein frægasta kvikmyndin til að notast við þau er hákarlamyndin Jaws. Þar neitar bæjarstjórinn að trúa fógetanum fyrr en allt er um seinan og fylgir Flóðbylgjan nákvæmlega sömu formúlu.

hugras_bolgen7

Einfaldleikinn er þó myndinni ekki til vansa, þar sem hann myndar rými til að kynnast fjölskyldunni og leggja áherslu á ægifegurð fjallanna við fjörðinn. Náttúran er allt að því persónugerð í kvikmyndinni. Opnunaratriði myndarinnar eru einmitt gömul fréttaskot og klippur úr heimildamyndum um skriður á borð við þá sem er í myndinni. Það er því ljóst frá fyrstu mínútu að aðalpersónurnar deila sviðsljósinu með náttúrunni. Fjölmörg skot og senur eru af firðinum og fjallinum, þar sem horft er yfir kyrrlátt og stillt landslagið. En áhorfandinn er jafnframt meðvitaður um blekkingu þess. Fjallið er allt annað en kyrrt, það er á stöðugri hreyfingu.

Flóðbylgjan er fyrsta skandínavíska stórslysamyndin sem gerð hefur verið. Hún er tæknilega vel útfærð, mjög falleg og vel gerð. Það er ekki sá hasar í henni sem áhorfendur eiga að venjast frá stórslysamyndum Hollywood og er það einn stærsti kostur myndarinnar.
Flóðbylgjan er fyrsta skandínavíska stórslysamyndin sem gerð hefur verið. Hún er tæknilega vel útfærð, mjög falleg og vel gerð. Það er ekki sá hasar í henni sem áhorfendur eiga að venjast frá stórslysamyndum Hollywood og er það einn stærsti kostur myndarinnar. Hún fer rólega af stað, spennan magnast hægt en verður allt að því óbærileg þegar ljóst er að stutt er í skriðuna. Eftir hamfarirnar er áherslan enn á Kristian og afdrif fjölskyldu hans. Einfaldleikinn heldur sér því og myndin verður ekki ofhlaðin ýmsum hliðarsögum, líkt og hættan er með þær myndir sem koma úr smiðju Hollywood. Þessi mynd er því ekki fyrir þá sem þrá spennu á hverri einustu mínútu, þar sem hæg framvindan gæti talist jafnvel langdregin á köflum.

Flóðbylgjan er saga um sambúð manna og náttúrunnar. Hún er jafnframt viðvörun gegn hroka og boðar auðmýkt gagnvart hinum ógurlegu náttúruöflum sem búa í fjallinu. Ægifegurð er orð sem lýsir landslaginu í firðinum fullkomlega. Skriðan mun fara af stað, flóðbylgjan mun skella á landinu. Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær, aðstæður sem eru Íslendingum nánast í blóð bornar.

[line] Greinarhöfundur vill koma á framfæri þökkum til Snæbjarnar Guðmundssonar, jarðfræðings, fyrir sérlega aðstoð við ritun þessa dóms.

Um höfundinn
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir er með mastersgráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún er sérhæfð í mesópótamískum bókmenntum og vinnur að þýðingum þeirra, ýmist af súmersku eða akkadísku.

[fblike]

Deila