Íslendingar hafa löngum verið í vandræðum með hugtakið „nonfiction“. Þá er auðvitað átt við texta sem ekki er skáldaður. Hann er því óskáldaður. Þar með erum við komin með tvo meginflokka bókmennta, skálduð rit og óskálduð. Er það ekki miklu betra en að tala um „flokk fræðirita og rita almenns eðlis“ (hvað eru eiginlega rit almenns eðlis?) eins og bókaútgefendur gera gjarnan?
Þar höfum við tvo grunnflokka bókmennta, óskálduð verk og skálduð, sem geta verið ýmist þýdd eða frumsamin. Einfalt og þægilegt. Aðrar merkingar orðsins skáldaður eiga ekki að flækjast fyrir lengur, þær eru flestum fyrndar.
Undirflokkar óskáldaðra bókmennta
Skáldverk eru þekkt fyrirbæri, og óþarfi að fjalla frekar um þau hér, en lítum aðeins betur á óskáldaða efnið. Þar hefur orðið þróun.
„Creative nonfiction“ snýst nefnilega öðru fremur um að búa til sögu úr sannsögulegu efniTil eru nokkrir undirflokkar óskáldaðra bókmennta, s.s. fræðirit, ævisögur, sjálfsævisögur, átthagasögur, ferðasögur og sagnfræðirit af ýmsu tagi. Það er líka til stór flokkur þar sem höfundurinn fjallar um sannsögulegt efni og miðlar því með aðferðum skáldskaparins. Hann notar þá gjarnan sjálfan sig sem sögumann og býr til sögu úr heimildunum. Slík skrif má kalla sannsögur. Á ensku eru þær í seinni tíð iðulega kallaðar „creative nonfiction“. Mér finnst nóg að tala um sannsögur, þó að sumir vilji bæta „skapandi“ eða „listrænar“ fyrir framan til að tengja betur við enska hugtakið. „Creative nonfiction“ snýst nefnilega öðru fremur um að búa til sögu úr sannsögulegu efni, þ.e. að nýta aðferðir skáldskaparins til að miðla efninu, einkum með því að sviðsetja. Til verður sönn saga sem er vel sögð og getur verið sumpart eins og skáldsaga aflestrar.
Sannsögu má hins vegar ekki rugla saman við sögulega skáldsögu, því sannsaga heldur sig við sannleikann en söguleg skáldsaga er skáldað verk sem „lýsir atburðum og persónum á fyrri tímum og endurskapar sögulegt baksvið þeirra,“ eins og segir í bókinni Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Í sögulegum skáldsögum nýta höfundarnir sér sögulegar heimildir eins og þeim hentar eða í þeim mæli sem þær liggja fyrir en skálda óspart inn í og láta verk sitt lúta lögmálum skáldskaparins.
Nýlegar sannsögur
Dæmi um íslenskar sannsögur eru t.d. endurminningabækur Sigurðar Pálssonar, Bernskubók, Minnisbók og Táningabók. Margir undruðust að Sigurður skyldi fá Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir eina þessara bóka en ástæðan er einföld: Hann beitir listrænum aðferðum við að miðla efninu. Nýtir sjálfan sig sem sögumann, sviðsetur og veltir vöngum. Beitir stíltilþrifum og tón af mikilli list. Bókin verður fyrir vikið ekki ólík uppvaxtarsögu aflestrar, sönn saga vel sögð.
Í rauninni má nýta aðferðir sannsögunnar á hvaða efnivið sem er.Ferðasögur eru líka oftar en ekki í þessum flokki. Þar má nefna ferðasögur Huldars Breiðfjörðs, Góðir Íslendingar og Múrinn í Kína þar sem persóna höfundarins heldur uppi fjörinu. Sjálfsævisögur eru iðulega í sannsagnastíl líka, afbragðsdæmi þar um er uppgjörsbókin Hljóðin í nóttinni eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur, sem er nánast eins og skáldsaga aflestrar vegna þess hve mikið höfundurinn sviðsetur. Ævisögur rúmast líka undir hatti sannsögunnar. Þar má nefna bókina Mynd af Ragnari í Smára eftir Jón Karl Helgason (sjá nánari umfjöllun hér) þar sem höfundur klippir saman efni sem spannar áratugi og mótar það í sögu sem gerist á þremur dögum. Sigrún og Friðgeir eftir Sigrúnu Pálsdóttur er dæmi um það þegar sagnfræðingur tileinkar sér listræn efnistök og hagræðir sannsögulegu efni til að ná fram sem mestum áhrifum. Mörk – saga mömmu eftir Þóru Karítas Árnadóttur er annað áhugavert dæmi því þar skrifar höfundur í orðastað móður sinnar um kynferðislega misnotkun. Í bókinni Og svo tjöllum við okkur í rallið eftir Guðmund Andra Thorsson er persóna höfundarins alls staðar nálæg svo að frásögnin verður jafn mikið um höfundinn sjálfan og um yfirlýst umfjöllunarefni, föður hans; hér gildir að skapa úr sjálfum sér sögumann sem lesandinn kann að meta. Eins og gjarnan er í sannsögum spjallar sögumaðurinn við lesandann í stað þess að tala yfir hausamótunum á honum.
Í rauninni má nýta aðferðir sannsögunnar á hvaða efnivið sem er. Ég hef séð kennslubækur í þessum dúr. Þá eru hinar háþróuðu aðferðir skáldskaparins teknar til handargagns og lexíunni komið fyrir í sögu. Sannsögu. Við höfum svo gaman af sögum. Þær eru grunnform mannlegra samskipta og geyma erfðaefni mannlegra kjara.
[Myndskreyting Sóley Stefánsdóttir]
[fblike]
Deila