Akademísk flugeldasýning

[x_text]
Afmælisárið, árið sem við héldum uppá 100 ára kosningarétt kvenna á Íslandi, er nú senn á enda. Hátíðarhöldin tóku á sig fjölbreyttar myndir. Við fögnuðum með margvíslegum viðburðum, verkefnum, uppákomum, ráðstefnum, fyrirlestrum og sýningum, um land allt, árið um kring.
Kannski voru það samt ungu femínistarnir, stelpur um og undir tvítugu, sem stálu senunni, utan við hina skipulögðu dagskrá. Þær gerðu usla, hristu upp í viðmiðum okkar um hið gerlega og hið sómasamlega, þær rufu samfélagsleg tabú um hvað konur mega segja, sýna og gera, í hnotskurn þá gáfu þær feðraveldinu, og stöðluðum og niðurnjörvandi hugmyndum um stöðu og hlutverk kvenna, langt nef. Ég er að tala um frökku stelpurnar sem beruðu brjóstin á samfélagsmiðlum og í raunheimum til þess að endurheimta yfirráða- og skilgreiningarrétt yfir eigin líkömum. Ég er að tala um hugrökku stelpurnar sem skiluðu skömminni, þegar þær opinberuðu sín dimmustu leyndarmál um kynferðislegt ofbeldi og misnotkun, undir hastaginu #þöggun, í kvennahópnum beauty tips á facebook. Ég er að tala um hinar kraftmiklu og eldkláru stelpur í Hagaskóla, sem stálu senunni og sigruðu Skrekk 2015 með femíníska ljóða- og dansgjörningnum „Elsku stelpur“ sem endaði á orðunum:

Stelpur krefjast athygli
ekki reyna að hundsa okkur.
Stelpur krefjast tækifæra
ekki reyna að hindra okkur.
Stelpur krefjast virðingar
ekki reyna að stoppa okkur.
Stelpur krefjumst jafnréttis
látum ekkert stoppa okkur.

Á afmælisárinu kom fram sú kenning að íslenska kvennabaráttu megi skoða út frá lögmálum gosvirkni, og því var velt upp hvort komið sé að nýju gosi eða það jafnvel hafið.[1] Sjálf er ég ekki í vafa um að svo sé. Þessi spennumyndun, gosvirkni og orka hjá ungu femínistunum hefur smitað út frá sér og hreyft við kynslóðunum á undan sem þegar hafa tekið þennan femíníska slag – aftur og aftur – og hún hefur seytlað inní hið akademíska samfélag. Slík orka og kraftur var þannig alltumlykjandi á hátíðar- og afmælisráðstefnu um borgarleg réttindi kvenna í 100 ár sem haldin var í Hörpu dagana 22. – 23. október 2015.

Hvar sem borið var niður fór ráðstefnan fram úr björtustu vonum – og gildir þá einu hvort horft er á skipulag, aðbúnað og viðgjörning, þátttöku, eða dagskrána sjálfa; fyrirlesara, sem og inntak og efni fyrirlestra.
Ráðstefnan, sem var akademísk flugeldasýning, var lokahnykkur og kannski um leið hápunktur á skipulagðri afmælisdagskrá þar sem þjóðin hélt uppá 100 ára kosningarétt kvenna á Íslandi. Á ráðstefnunni var litið um öxl, kafað í knýjandi viðfangsefni úr samtímanum og horft til framtíðar. Hvar sem borið var niður fór ráðstefnan fram úr björtustu vonum – og gildir þá einu hvort horft er á skipulag, aðbúnað og viðgjörning, þátttöku, eða dagskrána sjálfa; fyrirlesara, sem og inntak og efni fyrirlestra. Ég ætla að byrja á því hrósa skipulagi ráðstefnunnar. Sér í lagi því ráðslagi að alla ráðstefnuna var aðeins ein dagskrá í gangi, sem öll fór fram í einum sal. Með því náðist einhver samfella og kraftur í salinn, sem ég held að allir þátttakendur hafi upplifað á eigin skinni og sem ítrekað lýsti sér í gæsahúð, andköfum og stolti. Ráðstefnugestir voru þannig að upplifa sömu viðburðina, sem gerði það að verkum að í matar- og kaffihléum gat fólk skipt á skoðunum um efni og inntak fyrirlestra sem allir höfðu hlustað á, í stað þess bera saman ólíkar upplifanir og svekkja sig á þessari eða hinni málstofunni sem fólk annað hvort missti af eða sótti. En þannig vill það oft verða þegar ráðstefnum er skipt upp í margar litlar málstofur, þar sem allir eru stöðugt að koma eða fara, og flestir velja að dvelja innan síns þekkingarheims og þægindaramma þar sem líkir tala við líka án þess að þurfa að stíga út fyrir fyrirfram skilgreind fræði- og áhugasvið.

hugras_kvennaradstefna_gestir
Sjálf man ég varla eftir því að hafa setið tveggja daga massíva ráðstefnu og verið svona jafn hrifin – þar sem hver ný málstofa og fyrirlesari náði á einhvern hátt að toppa – eða „bæta við“ það sem á undan var komið. Þá verður það að teljast til tíðinda að hátt í 600 manns sæki alþjóðlega ráðstefnu á sviði kvenna- og kynjafræða á Íslandi, og að hvenær sem borið var niður á tveggja daga samfelldri dagskrá hafi um 300 manns verið í salnum og fylgst með þeirri dagskrá sem fram fór, og með twitterfærslum sem birtust á stórum skjá þar sem snjallir tístarar drógu fram athyglisverða punkta, og oft á tíðum hárbeittar pælingar sem tengdust umræðuefninu hverju sinni, og vörpuðu þeim út á alnetið.

hugras_kvennaradst_twitter
En snúum okkur þá að hinni eiginlegu dagskrá. Í stuttum pistli eins og þessum er ekki ráðrúm til þess að fjalla um hvern dagskrárlið fyrir sig. Hér verður því staldrað við nokkra hápunkta sem á einhvern hátt hreyfðu við mér. Fyrri dagurinn var helgaður baráttunni fyrir almennum kosningarétti og þróun borgaralegra réttinda kvenna á þeim hundrað árum sem liðin eru síðan norrænar konur hlutu kjörgengi og kosningarétt. Dagskráin var fræðandi, skemmtileg og vekjandi en um leið dálítið hátíðleg. Hún hófst á sögulegu yfirliti, er norski sagnfræðingurinn Gro Hagemann flutti svokallaðan Jóns Sigurðssonar fyrirlestur, þar sem hún rakti sögu kosningaréttarins og baráttunnar sem um hann stóð. Í málstofu sem á eftir fylgdi báru norrænir sagnfræðingar svo saman bækur sínar um þá sögu í sínum löndum, en öll fagna þau aldarafmæli kosningaréttar kvenna um þessar mundir. Í næstu málstofu var fókusinn settur á samtíman og spurt hvort þau lýðræðislegu réttindi sem barist var fyrir hefðu gangast öllum. Þar var sjónum m.a. beint að áskorunum sem tengjast þróun fjölmenningarsamfélags og rýnt í samhengið milli kyns og annarra mismununarbreyta. Þar voru m.a. skoðaðir þættir eins og kyngervi, stéttarstaða, kynþáttur/uppruni og trúarbrögð, og hvernig þeir samtvinnast og móta eða takmarka aðgengi fólks að virkri samfélagsþátttöku, ákvörðunartöku og völdum. Það sem sérstaklega stóð upp úr þar var áhugaverður fyrirlestur Ronalds Craig, en hann er ráðgjafi embættis umboðsmanns jafnréttismála í Noregi. Hann fjallaði um skaðsemi hatursorðræðu, en slík umræða á brýnt erindi við samtímann þótt hún sé ennþá óþroskuð og skammt á veg komin hér á landi.

hugras_kvennaradst_vigdis_groharlem
Frú. Vigdís Finnbogadóttir og Gro Harlem Brundtland

Fyrri dagurinn endaði með hátíðarmálstofu til heiðurs frú Vigdísi Finnbogadóttur, þar sem hún ásamt Gro Harlem Brundtland fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, fóru yfir sviðið og rifjuðu upp margvíslegar áskoranir sem fylgdu því að vera konur og fyrirmyndir sem ruddu brautina og stigu inní rótgróinn karlaheim lýðræðiskjörinna þjóðhöfðinga. Ég held að þessi dagskrárliður hafi snert streng í brjóstum allra sem á hlýddu.

Seinni daginn var sjónum beint að þeim ógnum sem steðja að borgarlegum réttindum kvenna í nútímasamfélagi, og þar var drepið niður á flestum sviðum mannlegrar tilveru. Fyrst var sjónum beint að hinu opinbera rými og stöðu kvenna þar. Þar vil ég sérstaklega nefna sláandi fyrirlestur Mary Anne Franks, sem ræddi stöðu kvenna í netheimum og þær ógnir og áskoranir sem þar birtast. Þá flutti Freyja Haraldsdóttir áhrifamikinn fyrirlestur um það hvernig fötlunarfordómar og sexismi tvinnast saman og birtast sem hindrun fyrir fullri pólitískri þátttöku. Hápunkturinn, fyrir mig persónulega var síðan málstofa um líkamann, þar sem fjallað var um líkama kvenna í samhengi við réttindi þeirra og stjórnmálaþátttöku. Fyrst í pontu þar var lögfræðiprófessorinn og baráttukonan Catharine MacKinnon, en hún fjallaði um mannréttindabrot í klámi, eða klám sem brot á mannréttindum. Í fyrirlestri sínum skaut hún föstum skotum að nýlegri ályktun Amnesty International um lögleiðingu vændis, og uppskar lófatak og fagnaðarlæti út salnum. Næst steig á stokk femíníski stjórnmálafræðingurinn Anne Phillips – en fyrirlestur hennar fjallaði um staðgöngumæðrun og þau flóknu siðfræðilegu vandamál sem henni fylgja.

Catharine A. MacKinnon
Catharine A. MacKinnon

Fyrirlesturinn hitti einhvernveginn beint í mark þar sem frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hafði verið lagt fram á Alþingi Íslendinga fyrr í vikunni. Loks fjallað Nimco Ali femínisti og aktívisti á írónískan hátt um aðgerðir á kynfærum kvenna – og það hvernig svipaðar aðgerðir hafa fengið ólíka merkimiða eftir því hvort þær eru framkvæmdar í nafni hefða og trúar í Afríku og Miðausturlöndum eða í nafni fegurðar og frelsis kvenna til að ráða yfir eigin líkama á Vesturlöndum.

Í ráðstefnulok var svo horft til framtíðar, og spurt hver væru næstu skef í baráttunni fyrir kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna. Segja má að þar hafi Þórdís Elva Þorvaldsdóttir komið, séð og sigrað hjörtu ráðstefnugesta.

Phumzile Mlambo-Ngcuka, aðstoðarframkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna
Phumzile Mlambo-Ngcuka

Meðan hún flutti sína þrumuræðu, varpaði einhver fram þeirri hugmynd í twitterfærslu sem varpað var yfir salinn, hvort Þórdís Elva yrði næsti forseti Íslands, og um leið og það var komið í loftið, varð það einhvern veginn svo hárrétt. Síðust á mælendaskrá var svo Phumzile Mlambo-Ngcuka, aðstoðarframkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastýra UN Women – og var það áhrifamikill lokapunktur á glæsilegri ráðstefnu sem svo sannarlega hreyfði við fólki, vakti spurningar, og blés ráðstefnugestum eldmóð í brjóst. Að lokum ber að geta þess að til stendur að gera allt efni ráðstefnunnar aðgengilegt á youtube, og mun það birtast á rás Hugvísindasviðs og á heimasíðu RIKK sem hafði umsjón með skipulagningu ráðstefnunnar. Kona er strax farin að hlakka til að hlusta og njóta á ný.

Irma Erlingsdóttir forstöðumaður RIKK, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir
Irma Erlingsdóttir forstöðumaður RIKK, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir

[1] Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, „Gosvirkni í íslenskri kvennabaráttu.“ Fyrirlestur á vegum Mannfræðifélags Íslands, haldinn í Þjóðminjasafninu 30. september 2015.[/x_text]

Um höfundinn
Þorgerður H. Þorvaldsdóttir

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir sagn- og kynjafræðingur, er sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni. Sérfræðisvið hennar er femínískar kenningar um samtvinnun (intersectionality), kynjajafnrétti, útvíkkun jafnréttisstarfs og jafnrétti minnihlutahópa.

[x_text][fblike][/x_text]

Deila