Rýni: Fjölskylda, ofskynjun og upplifun



[container] „Englaryk, einnig kallað PCP, er eiturlyf sem meðal annars veldur ofskynjunum.“

Svo hljóðar fyrsta niðurstaðan sem fæst ef orðinu englaryk er slegið upp á leitarsíðu. Englaryk er einnig titill nýútkominnar skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur sem fjallar um táningsstúlkuna Ölmu og fjölskyldu hennar. Frásögnin hleðst upp í kringum fjarstæðukennda upplifun stúlkunnar en hún hittir Jesú á förnum vegi í sumarfríi fjölskyldunnar á Spáni. Í kjölfarið er saga fjölskyldunnar sögð en atferli Ölmu eftir vitrunina hvetur aðra í fjölskyldunni til að stunda sjálfskoðun. Titill bókarinnar hefur margar vísanir, meðal annars fer Alma að sjá heiminn í dýrðarljóma eftir uppákomuna með Jesú og í frásögninni er íhugað hvort um ofskynjanir hafi verið að ræða eða hvort sköpunarverkið sé í raun og veru fullkomið. Með þessum og öðrum hætti er tilvistarspeki hugleidd á einstaklega manneskjulegan hátt. Lesandi er knúinn til þess að hugleiða upplifun Ölmu sem raunverulega en um leið hika aðrar persónur sögunnar við útskýringar hennar og trúa henni ekki, og lesandi þarf einnig að taka tillit til þeirra skoðana. Þannig er daðrað við hið fantasíska, því ekki er vitað hvort atburðurinn átti sér stað, hvort að raunveruleikalögmálin hafi riðlast, eða hvort Jesú fundurinn sé tálsýn eða skynvilla geðveikrar manneskju.

Þó að upplifun Ölmu sé miðlæg í frásögninni þá er sagan ekki einskorðuð við hana. Hver og einn fjölskyldumeðlimur fær sitt rými. Þó að frásögnin sé línuleg röð atburða sem gerast á einum vetri er oft skyggnst inn í huga persónanna sem minnast og íhuga fortíðina og er þannig flakkað fram og aftur í tíma. Minningar persónanna hafa oft meðferðarlegt gildi fyrir þau, enda er einn vettvangur frásagnarinnar sálfræðimeðferð fjölskyldunnar. Fjölskyldurfaðirinn Pétur fær sálgreinandann Snæfríði til þess að taka fjölskylduna í meðferð og von hans er að hún nái að tjónka við Ölmu.  Í einhverjum skilningi er Englaryk falleg fjölskyldusaga og það er hressilegt að margar persónanna eru börn. Þau þjóna ekki þeim tilgangi að segja á allegórískan hátt sögu foreldra sinna heldur eru þau fullgildar persónur og þeirra reynsluheimur og rödd skiptir meginmáli. Einnig sleppur lesandi við kliskjukennda umfjöllun um börn því þó að þau virðist saklaus á yfirborðinu eru þau jafn mannleg og foreldrar þeirra og búa til jafns við þau yfir brestum og fegurð.

Í Englaryki má greina ádeilu á tvískinnunginn sem einkennir trúmál á Íslandi sem og vangaveltur um fjölskyldu og samfélag og hvernig einstaklingar þrífast innan þess. Stíll Guðrúnar Evu er raunsæislegur og hnitmiðaður, en textinn er töfrandi og á lævísan máta heldur hann lesanda allt til loka. Þessi sallafína og einfalda saga er stærri en hún gefur sig út fyrir að vera og á eflaust eftir að ásækja lesendur sína, líkt og fleiri sögur Guðrúnar Evu hafa gert.

Guðrún Helga Sigurðardóttir, meistaranemi í almennri bókmenntafræði.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *