RIFF: Ævintýraleg martröð

[container] Finnska kvikmyndin Þau hafa flúið (He ovat paenneet) er önnur kvikmynd leikstjórans J.P. Valkeapää í fullri lengd, en hann hefur áður gert myndina Gestinn (Muukalainen, 2008). Sjálfur segir hann að hugmyndin að myndinni hafi kviknað kvöld eitt þegar hann var að lesa Grimms-ævintýrin fyrir börnin sín. Hann vildi gera kvikmynd sem næði að fanga anda ævintýranna en myndi á sama tíma fjalla um málefni sem eru raunveruleg í nútímasamfélagi. Söguþráðurinn er sprottinn út frá þeim vanda sem upp er kominn í Finnlandi, þar sem ungt fólk hættir snemma í skóla en fer ekki út á vinnumarkað.

Myndin segir frá Joni (Teppo Manner) sem hrökklast úr herþjónustu vegna stams og þarf þess í stað að vinna á heimili fyrir vandræðaunglinga. Á heimilinu kynnist hann Raisu (Roosa Söderholm) sem er vistmaður. Með þeim tekst vinátta og saman ákveða þau að flýja. Á flóttanum flækjast þau frá einum stað til annars, og finna sér skjól á svo ólíkum stöðum sem afskekktri eyju og æskuheimili Raisu.

Framan af er myndin fyrirsjáanleg og allt að því langdregin þar sem Joni og Raisa keyra á milli staða á handahófskenndan hátt og í rauninni gerist fátt. Skyndilega verður þó algjör viðsnúningur á atburðarásinni og á skjánum birtast hrollvekjandi og martraðakenndar senur. Best er að segja ekki meira um söguna sjálfa fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá myndina.

Einn helsti styrkleiki myndarinnar er ákaflega falleg myndataka sem nær að fanga ferð þeirra og umbreyta henni í einhverskonar ævintýraheim. Er þetta sérstaklega áberandi í draumkenndum senum þar sem Joni og Raisa eru undir áhrifum eiturlyfja. Myndatakan verður sjálfstætt listaverk sem dregur áhorfendur inn í ferð þeirra. Einnig tekst leikstjóranum vel upp við að sýna hið einstaka samband sem þróast milli unglinganna tveggja en þó verður að segjast að persónusköpunin sjálf er ekki upp á marga fiska. Þrátt fyrir það er Teppo Manner í hlutverki Joni stjarna myndarinnar, hann nær því sem hægt er úr þeim litla efnivið sem naumt skammtað hlutverkið gefur honum.

Annmarkar myndarinnar felast aftur á móti helst í því hversu tilviljanakennd atburðarásin virðist vera, næstum eins og leikstjórinn hafi skrifað handritið jafnóðum án þess að hafa neina skýra hugmynd um hvað hann vildi gera næst. Myndin skilur áhorfendur þessvegna eftir svolítið ráðvillta. Ef við hugsum aftur um þann vilja Valkeapää að fanga anda ævintýranna þar sem söguhetjurnar takast á við hið illa og sigra að lokum þá má segja að honum hafi tekist ætlunarverk sitt að mestu. Hvað varðar snertiflöt við þann vanda sem steðjar að ungu fólki í Finnlandi þá falla Joni og Raisa vissulega í flokk ungs fólks í erfiðleikum, en Valkeapää vinnur ekkert með þann vanda og staða þeirra breytist ekki eftir því sem líður á myndina.

Niðurstaða: Tilviljanakennd atburðarás sem þó nær að halda athygli manns með algjörum viðsnúningi um miðbik myndarinnar. Kvikmyndatakan lyftir svo myndinni upp úr meðalmennskunni.

Rakel Brynjólfsdóttir, meistaranemi í bókmenntafræði.

[/container]

 

 

 

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *