[container] Sænski listamaðurinn Jonathan Josefsson er kominn til landsins en sýning með tíu veggteppum eftir hann mun opna í Norræna húsinu á morgun, laugardag. Jonathan Josefsson öðlaðist talsverða frægð í heimabæ sínum Gautaborg laust eftir síðustu aldamót fyrir athyglisverða veggjalist sína, eða graffíti. Orðstír Jonathans var í samræmi við vinnubrögð hans; hann vandaði til verka, þaulhugsaði hvert smáatriði og fór ekki huldu höfði heldur lét gælunafn sitt, Ollio, fylgja verkinu með stolti.
Hinn ástríðufulli graffari fór síðar í listaháskóla þar sem sérgrein hans var textíll. Jonathan tók snemma á námsferlinum ástfóstri við teppagerðarvélina og fannst hún eiga margt sameiginlegt með spreybrúsanum. Á síðastliðnum átta árum hefur Jonathan helgað sig teppagerð og á þeim tíma þróað fágaðan stíl og tækni. Nálgun Jonathans á teppagerðina er frumleg og skírskotunin í veggjalistina er ótvíræð. Veggteppin hans byggjast á litríkum formum sem saman mynda eina heild, þau eru flæðandi, áferðarfögur og iðandi af leik. Teppin eru yfirleitt áberandi; skærir litir glæða þau sterkri nærveru með þeim afleiðingum að umhverfið í kring virðist daufara en ella. Sterk nærvera er óhjákvæmilega rík í veggjalistinni; graffarinn vill nefnilega gjarnan beina athygli vegfarandans að sköpunarverki sínu en það getur oft verið erfitt í umhverfi sem er gegnumsýrt af sjónrænu áreiti. Jonathan tileinkar sér þessa nálgun í sköpun sinni og þrátt fyrir að teppin hans séu innbyrðis ólík þá hafa þau öll sterkan karakter – og berjast um athygli áhorfandans.
Aðspurður segir Jonathan ferlið vera það sem helst greinir að miðlana tvo; teppagerðina og veggjalistina:
„Þegar ég geri teppin mín er ég aleinn á vinnustofunni minni og einblíni algjörlega á það verkefni í nokkrar vikur. Þegar ég graffa er ég yfirleitt utandyra og gjarnan í félagskap með góðum vinum mínum sem deila með mér svipuðum listrænum hugmyndum og skoðunum“.
Teppagerðin er í augnablikinu veigamikill þáttur í sköpun Jonathans en þó er veggjalistamaðurinn Ollio hvergi af baki dottinn. Jonathan vill halda í upprunaleikann og ástríða hans fyrir veggjalist kraumar enn. Textílvinnan skapar ef til vill ágætis mótvægi við hina gáskafullu veggjalist og gefur færi á annars konar útrás í sköpun þrátt fyrir að miðlarnir tveir kallist vissulega á.
Jonathan hefur haldið sýningar vítt og breitt um Evrópu og nú liggur leið hans til Íslands. Sýningin í Norræna húsinu opnar á laugardaginn klukkan tólf og mun listamaðurinn heiðra gesti með nærveru sinni til klukkan fimm þann dag.
Nína Þorkelsdóttir,
meistaranemi í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu.
[/container]
Leave a Reply