Kraftaverkið sem vatt upp á sig

Guðmundur Atli Hlynsson skrifar kvikmyndadóm um Kraftaverkið í Gullspång (s. Miraklet i Gullspång, e. The Gullspång Miracle). Guðmundur er með bakgrunn í íslensku og fjölmiðlafræði og stundar nú meistaranám í menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Hann er sjálftitlaður kvikmyndanördi sem hefur undanfarið starfað við kvikmyndagerð.

Kraftaverkið í Gullspång er sænsk heimildarmynd eftir Mariu Frederiksson. Myndin var frumsýnd árið 2023 og sýnd á RIFF sama ár en er nú í almennum sýningum í Bíó Paradís. Hún segir frá norsku systrunum Kari og May sem fyrir röð tilviljana komast í kynni við konu, Olaugu, sem lítur að þeirra mati nákvæmlega eins út og hálfsystir þeirra, Lita, sem framdi sjálfsvíg þrjátíu árum áður. Við tekur áhugaverð atburðarás en Frederiksson fylgir (hugsanlegu) systrunum þremur og sambandi þeirra sem flækist með hverri mínútunni. Það er erfitt að rýna í myndina án þess að kafa í söguþráðinn og því hvet ég lesendur sem vilja láta sér koma á óvart að hætta lestri.

Í upphafi myndarinnarhreinlega geislar af þeim Kari og May er þær lýsa atburðarásinni sem leiddi til þess að þær hittu Olaugu. Snemma sjáum við þær fara í DNA-próf sem gefur til kynna að Olaug sé í raun tvíburasystir Litu. Áhorfendur skyggnast inn í veruleika systranna tveggja á þeim tímapunkti þegar þær eru að kynnast Olaugu betur og eru afar spenntar fyrir nýjum fjölskyldumeðlimnum. Kraftaverkinu. Síðar færist sjónarhornið meira til Olaugar er hún kemst í kynni við fleiri meðlimi fjölskyldunnar og kynnist sögu þeirra betur.

Kraftaverkið í Gullspång er skýrt dæmi um heimildarmynd sem nær að verða verulega spennandi. Það er greinilegur söguþráður í henni og flétta sem kemur reglulega á óvart. Kvikmyndatakan er prýðisgóð; stílhrein og alla jafna er lítið um hreyfingar á myndavélinni. Vel tekst að fanga hversdagsleika persónanna enda myndefnið að miklu leyti tekið upp inni á heimilum þeirra. Systurnar eru allar á áttræðisaldri og það er eitthvað svo raunverulegt og sannfærandi við hvernig þær birtast í myndinni. Til dæmis eru mörg skot af þeim liggjandi í sófa eða jafnvel rúmi að velta hlutunum fyrir sér. Samræðum, símtölum og gömlu myndefni af fjölskyldunni er snilldarlega tvinnað saman í því skyni að magna upp söguna. Samspil klippingar og tónlistar er til mikillar fyrirmyndar en á köflum vinna allir þessir hlutir saman líkt og vaxandi styrkur eða crescendo í klassískri tónlist. Þetta er frábærlega gert en í heildina notar leikstjórinn þessar aðferðir um of svo þær fara að missa máttinn undir lokin.

Þegar líður á myndina fer Olaug að kafa betur í örlög tvíburasystur sinnar Litu. Í framhaldi sést hvernig samband hennar við „nýju“ systkini sín verður erfiðara. Hún er í grunninn mjög ólík þeim; ólst upp á ríku heimili og er með öllu trúlaus. Systkini hennar eru hins vegar strangtrúað kristið fólk alið upp á litlum sveitabæ. Þau hafa varið þrjátíu árum í að taka í sátt sjálfsvíg Litu og er því illa við að Olaug fari að rífa upp gömul sár. Á sama tíma og meiri togstreita verður á milli systkinanna og rannsókn Olaugar á andláti tvíburasystur sinnar vindur fram má sjá kvikmyndatökuna verða óreiðukenndari en áður. Myndavélin er meira á hreyfingu, hlutir sem skipta máli eru ekki endilega í forgrunni o.s.frv. Þetta kallast á við hinar erfiðu tilfinningar sem eru komnar upp á yfirborðið, það er nánast eins og heimildarmyndin sé að hlaupa úr höndum Frederiksson. Ekkert virðist vera að fara eftir plani.

Áhorfendur finna fyrir leikstjóranum upp að vissu marki allan tímann. Strax í fyrstu senu heyrist í Frederiksson biðja May aftur og aftur að endurleika senu fyrir sig og síðan spyr hún systurnar oft og tíðum spurninga. Auðveldlega hefði verið hægt að hafa leikstjórann fyrirferðarminni í myndinni og að mínu viti bætir viðvera hennar litlu við söguna. Þessi fyrirferð nær ákveðnum hápunkti í tveimur senum undir lokin þegar Frederiksson sjálfri bregður meðal annars fyrir á skjánum. Þessi atriði voru til þess fallin að kippa mér úr myndinni. Kannski hefði þetta stungið minna ef leikstjórinn væri hreinlega aðeins fyrirferðarmeiri alla myndina; sjálfstæð persóna í sögunni og hefði skýrari rödd.

Rannsókn Olaugar á andláti Litu, erfiðleikar í samskiptum systkinanna, klipping, kvikmyndataka og tónlist gera það að verkum að Kraftaverkið í Gullspång fer þegar líður á að minna á sannsögulegar glæpaheimildarmyndir. Eftir að vera stillt upp sem slíkri og búa til ákveðnar væntingar hjá áhorfendum um stóra úrlausn fjarar sá þráður eiginlega út. Það er eins og leikstjórinn sjálfur átti sig á því að það er enn áhugaverðara að fylgjast með þessu fólki en að reyna að svipta hulunni af gömlum leyndarmálum. Þetta er eiginlega bara jákvætt, því endirinn kemur á óvart og er að mínu mati áhrifameiri en stór lausn á málinu – líf May, Kari og Olaugar heldur bara áfram.

Kraftaverkið í Gullspång er algjör rússíbanareið. Á köflum er myndin alveg verulega spennandi og á öðrum hjartnæm og falleg. Maria Frederiksson hefur gott vald á forminu en fellur stundum í þá gryfju að ofnota klisjur true-crime heimildarmynda til að magna upp söguna. Það kemur samt ekki að sök. Sagan sjálf er svo forvitnileg og heillandi að ég á auðvelt með að mæla með þessari mynd fyrir hvern sem er.

Þrjár stjörnur af þremur.

Heimildaskrá:

Guðmundur Atli Hlynsson er með bakgrunn í íslensku og fjölmiðlafræði og stundar nú meistaranám í menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Hann er sjálftitlaður kvikmyndanördi sem hefur undanfarið starfað við kvikmyndagerð.

Pistillinn var unninn í námskeiðinu Vinnustofa í menningarblaðamennsku við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.