Orð ársins 2023: Gervigreind(in)

Ágústa Þorbergsdóttir, Starkaður Barkarson og Steinþór Steingrímsson, starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, skrifa um orð ársins.

Allt frá 2018 hefur á Árnastofnun verið valið orð ársins á grundvelli þeirra gagna sem stofnunin safnar um málnotkun. Það er einkum hin svokallaða Risamálheild sem er lögð til grundvallar við valið en í henni er safn texta, nærri 2,5 milljarða lesmálsorða, sem stöðugt er bætt við, til að mynda af fréttamiðlum, samfélagsmiðlum og opinberum vefsíðum. Með því að skoða tíðni orða liðins árs og bera saman við árin á undan eru búnir til þrír tíðnilistar: listi yfir ný orð árið 2023 sem ekki koma fyrir árin fjögur á undan, listi yfir orð sem birtust tvöfalt oftar á liðnu ári en árin fjögur þar á undan og listi yfir orð sem birtust oftar á liðnu ári en árin fjögur næst á undan.

Listarnir þrír voru svo skoðaðir gaumgæfilega og tíu orð sem uppfylltu einhver eða öll af eftirfarandi skilyrðum valin:

  • Orðið endurspeglar samtímann eða samfélagsumræðu.
  • Orðið hefur möguleika á að lifa áfram í daglegri notkun eða sem minnisvarði um atburði sem áttu sér stað á árinu.
  • Orðið er lýsandi fyrir málnotkun, annaðhvort almennt eða á tilteknu sviði.
  • Orðið er nýtt í málinu eða gamalt orð sem hefur fengið nýja merkingu.        

Hér á eftir er fjallað um þau tíu orð sem voru valin og byrjað á því orði sem var valið orð ársins, gervigreind, og valið rökstutt. Í framhaldi er fjallað um hin orðin sem komu til greina.

Valið þetta árið var að mörgu leyti erfiðara en árin á undan. Ekkert eitt stóð upp úr eins og árin á undan þar sem sóttkví, bólusetningar, eldhræringar og innrás Rússa inn í Úkraínu settu mark sitt á umræðuna. Áfram var fjallað um þessi mál á liðnu ári en kannski af minni ákafa og án þess að ný orð eða gömul skytu upp kollinum. Fréttir af átökunum á Gaza hafa tekið mikið pláss og þess sér merki í vali okkar (mannúðarhlé) og að sjálfsögðu er enn mikið rætt um neikvæð áhrif mannsins á náttúruna og viðbrögð okkar við þeim (vistkjöt). Menningarátök urðu stundum lífleg og ásakanir gengu á báða bóga – þeir sem ásökuðu aðra um menningarnám voru sakaðir um dyggðaskreytingu. Andleg heilsa og málefni hafa einnig verið áberandi, rætt var um kvilla eins og samkenndarþreytu og mömmuskömm sem sumir freistast kannski til að lækna með hugvíkkandi efnum á meðan aðrir beita sjálfsvinsemd – eða taka sér frí, hvort sem það er ástarfrí eða samfélagsmiðlafrí.

Gervigreind(in) (no. kvk.)

Undanfarin ár hefur ný gervigreindartækni sem byggist á marglaga tauganetum vakið mikla athygli. Tauganetin eru stærðfræðilíkön sem geta geymt og unnið með t.d. myndir eða texta. Þau eru þá greind í eindir sem hægt er að staðsetja í netinu með vigurreikningi. Mest áberandi eru svokölluð myndandi gervigreindarlíkön en þá er átt við að líkönunum sé fyrst og fremst ætlað að framkalla eða mynda eitthvað tiltekið efni, yfirleitt texta eða myndefni.

Árið 2022 komu út fyrstu útgáfur DALL-E 2, Midjourney og Stable Diffusion sem eru allt forrit sem kalla má myndgervla, þau geta framkallað raunsæjar (og óraunsæjar) myndir samkvæmt textalýsingu notenda. Síðan þá hafa myndir gerðar af þessum líkönum orðið æ meira áberandi enda auðvelt fyrir hvern sem er að búa til myndir eftir eigin höfði.

Undir lok ársins 2022 var ChatGPT hleypt af stokkunum. ChatGPT er spjallmenni sem getur svarað fyrirspurnum og búið til texta á fjölmörgum tungumálum. Nýjasta útgáfan byggist á gervigreindarlíkaninu GPT-4, sem er það sem kallað er myndandi mállíkan, þ.e. líkan sem getur búið til, eða myndað, texta. Tæknin byggist á hæfni líkananna til að finna mynstur í risastórum textasöfnum, yfirleitt textum sem safnað hefur verið af internetinu. Í fyrra voru fjölmörg önnur sambærileg líkön gefin út, bæði af tæknirisum og öðrum. Umræða um þessi líkön hefur verið áberandi á Íslandi, rétt eins og annars staðar í heiminum en orðið gervigreind kemur 2076 sinnum fyrir í völdum gögnum Risamálheildarinnar fyrstu 10 mánuði ársins 2023 en aðeins 339 sinnum árið áður. Orðið kemur einnig fyrir í fjölmörgum samsetningum, t.d.  gervigreindarforrit, gervigreindartækni, gervigreindarlíkan og gervigreindarmállíkan og koma þau orð einnig mun oftar fyrir í ár en árin á undan. Athygli vekur að –gervigreind kemur mun sjaldnar fyrir sem síðari liður í samsetningum. Þó eru undantekningar þar á, t.d. samræðugervigreind.

Í umræðu um þessa nývinsælu gervigreindartækni er áberandi að notaður er greinir og talað um gervigreindina. Ef við veltum fyrir okkur hvers vegna það skyldi vera, þá má hafa í huga að málfræðingar skipta stundum nafnliðum í íslensku í ákveðna og óákveðna nafnliði. Til ákveðinna nafnliða teljast meðal annars þeir nafnliðir þar sem aðalorðið er nafnorð með viðskeyttum greini. Þegar nýjar upplýsingar eru kynntar verður að nota óákveðinn nafnlið, aðalorðið stendur þá án greinis. Málfræðingar tala svo stundum um gamlar upplýsingar þegar vísað er til þess sem hefur verið nefnt í samtali eða frásögn eða þegar vísað er til einhvers sem fellur undir almenna þekkingu þess sem rætt er við. Þá er notaður ákveðinn nafnliður, sbr. dæmi (1) og (2):

(1) Sólin skín.
(2) Lögreglan er komin á vettvang.

Gamlar upplýsingar í þessu samhengi eru stundum skilgreindar á þá leið að þeir sem tala saman haldi nokkurs konar skrá yfir þá hluti sem eru í umræðunni. Það sem er á dagskrá í samtali flokkast undir ‘gamlar upplýsingar’ en svo eru sumir hlutir alltaf ‘á skrá’ og þess vegna má vísa til þeirra með nafnorðum með greini í upphafi samræðna sbr. dæmi (3), fyrirsögn sem birt var á Vísir.is 27. september 2023:

(3) Gervigreindin geti ekki útrýmt þýðendum.

Hvers kyns gervigreindarhugbúnaður hefur um langt skeið verið notaður á ótal sviðum. En þegar vísað er í gervigreind með þessum hætti í textum frá nýliðnu ári, þ.e. í ákveðnum nafnlið án þess að kynnt sé fyrst til sögunnar við hvað er átt sérstaklega, er nánast undantekningarlaust átt við nýju líkönin, þ.e. hugbúnað sem byggir á myndandi mállíkönum á borð við GPT-4 eða myndgervla eins og Midjourney. Það má því kannski segja að setningagerðin staðfesti að myndandi gervigreindarlíkön séu á dagskrá í umræðunni þessi dægrin.

Elsta dæmi sem við finnum  um íslenska orðið gervigreind er í þýðingu Halldórs Halldórssonar á bók Noams Chomsky Mál og mannshugur, sem kom út á íslensku 1973.[ii] Einar Kárason notar svo lýsingarorðið gervigreindur í skáldsögunni Þetta eru asnar Guðjón frá 1981[iii] og má þá reikna með að nafnorðið hafi verið orðið nokkuð þekkt. Talsverðan fjölda notkunardæma frá níunda áratugnum má finna á Tímarit.is en þá far ýmist talað um gervigreind/gerfigreind, tölvugreind eða tölvuvit þegar talað var um það sem er kallað artificial intelligence á ensku. Oddur Benediktsson, frumkvöðull í tölvunarfræði á Íslandi, talaði t.d. um tölvuvit í fyrirlestri vorið 1984 þar sem hann fjallaði um greiningu talaðs máls, vélmenni og leikjaforrit á borð við skákforrit sem þá þóttu vera orðin það fullkomin að þau virtust gæða tölvurnar viti.

Í nágrannamálunum ber hugtakið yfirleitt meiri keim af ensku en hjá okkur. Danir og Norðmenn tala um kunstig intelligens, Þjóðverjar um künstliche Intelligenz og Svíar um artificiell intelligens. Færeyingar skera sig þó úr því þeir tala um vitlíki, sem færeyska ríkisútvarpið,  Kringvarp Føroya, valdi einmitt orð ársins 2023.[iv]

Rekja má sögu gervigreindar til áranna eftir síðari heimsstyrjöld. Þá jókst áhugi vísindamanna á nýrri fræðigrein sem kölluð var cybernetics á ensku en það hefur verið þýtt ‘stýrifræði’ á íslensku. Í grein frá árinu 1950 talaði stærðfræðingurinn Alan Turing um eftirhermuleikinn (e. the imitation game) og velti fyrir sér hvort vélar gætu hugsað og hvernig hægt væri að meta það.[v] Enska hugtakið artificial intelligence er svo fyrst notað árið 1955 af John McCarthy, prófessor í Stanford-háskóla, um það sem hann kallar vísindin sem fást við smíði greindra véla. Sumarið eftir stóð hann fyrir tveggja mánaða málstofu í samstarfi við tíu aðra vísindamenn en hún er stundum sögð marka upphaf gervigreindar sem sérstaks rannsóknarsviðs. Á málstofunni var meðal annars rætt um hvað sviðið skyldi kallað. Þeir sem þá þegar stunduðu skyldar rannsóknir notuðu meðal annars hugtökin stýrifræði (e. cybernetics) og sjálfvirkjafræði (e. automata studies) en John McCarthy þótti of mikið af ótengdum rannsóknum falla þar undir, þ.e. einhverju sem tengdist ekki því að gæða vélar einhvers konar greind. Á málstofunni sammæltust þátttakendur um að nota nýja hugtakið artificial intelligence yfir þau fræði. Fræðileg orðræða krefst nákvæmrar orðanotkunar og með því að festa ákveðna merkingu orðsins er stuðlað að skýrum og öruggum tjáskiptum eins og íðorðastarf miðar að. Síðan þá hefur gervigreind orðið alltumlykjandi í umhverfi okkar þó að hugtakið sé oft aðeins notað um nýjustu tækni. Þegar tæknin verður sjálfsagðari hluti af tilverunni eru frekar notuð meira lýsandi orð, t.d. ruslsöfnun (við forritun), leikjavélar (í tölvuleikjum) eða talgervlar, svo að eitthvað sé nefnt enda hefur verið haft eftir John McCarthy að „þegar það er farið að virka kallar enginn það gervigreind lengur“. Í því ljósi verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig talað verður í framtíðinni um þá nýju gervigreindartækni sem á nýliðnu ári hefur almennt verið kölluð gervigreind(in).

Mannúðarhlé (no. hk.)

Stríðsátök voru áberandi í fréttum síðasta árs sem fyrr. Stríðið í Úkraínu heldur áfram og Ísraelar hafa haldið uppi nánast linnulausum árásum á Gasaströndina síðan Hamas-liðar réðust inn í Ísrael 7. október. Friðarsinnar kalla eftir því að átökum linni eða komið verði á vopnahléi en hjálparstofnanir hafa lagt áherslu á að stríðandi fylkingar komi sér saman um mannúðarhlé svo að hægt sé að veita neyðaraðstoð. Mannúðarhlé er tímabundið hlé á átökum. Tilgangurinn með því er að gefa hjálparstofnunum færi á að koma hjálpargögnum til fólks sem lendir á milli stríðandi fylkinga. Mannúðarhlé krefst samþykkis allra sem að átökum koma og er yfirleitt í gildi í tiltekinn tíma og á fyrir fram skilgreindu svæði þar sem hjálparstofnanir þurfa að geta starfað. Mannúðarhlé kom fyrir 120 sinnum árið 2023 í gögnum Árnastofnunar en finnst ekki árin fjögur þar á undan. Elstu dæmi um orðið eru frá 2014 og þá í tengslum við stríðið í Sýrlandi. Skylt orð, sem kemur þó mun sjaldnar fyrir, er mannúðargöng. Með mannúðargöngum er átt við skilgreindar leiðir og aðferðir til að ferja fólk frá átakasvæðum eða hjálpargögn til þeirra.

Hugvíkkandi (lo.)

Orðið hugvíkkandi kemur fyrst fyrir á Tímarit.is árið 1969 í viðtali við Geir Vilhjálmsson sálfræðing.[vi] Orðið er þýðing á enska orðinu psychedelic sem kemur frá grísku orðunum psukhḗ (hugur, sál) og dêlos (sýnilegt, augljóst). Í greininni, sem birtist í Vikunni, er hugtakið skýrt sem svo að hugvíkkandi lyf hafi „mjög sterk sálræn áhrif og virðast víkka út meðvitundina þannig að hún nær yfir mun stærra hluta heilabúsins“. Í greininni eru hugvíkkandi efni eins og LSD, hass og marijúana, greind frá fíknilyfjum á borð við ópíum, heróín og morfín, þau talin að mestu skaðlaus og tengd við sállækningar enda á „læknirinn mun greiðari aðgang að hinum dýpri sviðum í huga sjúklingsins þegar hann er undir áhrifum þessara hugvíkkandi lyfja“.

Orðið skynörvandi hefur einnig verið notað um þessi efni en það hefur yfir sér sama, frekar jákvæða, merkingarblæ. Undanfarna áratugi hefur hins vegar verið mun algengara að nota orðin ofskynjunarlyf þegar vísað er til þessara efna sem óneitanlega hefur yfir sér neikvæðari blæ, eins og flest orð sem hefjast á forskeytinu of-. Enda hefur umræðan um efni eins og LSD og ofksynjunarsveppi oftast nær verið neikvæð seinustu áratugina eftir að lofsöngur bítlaáranna um þau þagnaði að mestu.

Á síðustu árum hefur notkun orðsins hugvíkkandi hins vegar aukist jafnt og þétt, frá því að koma ellefu sinnum fyrir í völdum undirmálheildum Risamálheildarinnar árið 2019 til þess að birtast 403 sinnum fyrstu 10 mánuði ársins 2023. Það gerist samfara því að umræðan um jákvæð áhrif og möguleika þessara lyfja, einkum við meðhöndlun geðraskana, hefur aukist. Þannig voru t.d. stofnuð samtök áhugafólks um hugvíkkandi efni árið 2022 og snemma á liðnu ári var haldin ráðstefna um hugvíkkandi efni í Hörpu. Umræðan um efnin minnir um margt á það sem Geir sagði í viðtalinu árið 1969 þar sem hann ræðir um inntöku hugvíkkandi efna undir handleiðslu sérfræðinga og í sérstöku umhverfi. Hvort það umhverfi sé að finna í skógum Amazon eða inni á Landspítalanum nefnir hann ekki en það má segja að umræðan í dag snúist að hluta til um það að gera notkun hugvíkkandi efna sjálfsagðan hlut í meðferð geðraskana.

Dyg(g)ðaskreyting (no. kvk.)

Samkvæmt gögnum Risamálheildarinnar kemur orðið dygðaskreyting fyrst fyrir 2018 á DV í grein eftir Egil Helgason: „Dygðaskreyting er það víst farið að heita á íslensku þegar fólk tilkynnir með áberandi hætti hvað siðferði þess er gott. Enska hugtakið er virtue signalling. Um þessi áramót felst dygðaskreytingin helst í því að kaupa ekki flugelda heldur rótarskot, sem sagt trjágræðlinga – og kunngjöra það helst á netinu.“[vii]

Næstu þrjú ár kemur það samtals 19 sinnum fyrir í völdum gögnum Risamálheildarinnar en 21 sinni árið 2022 og 23 sinnum fyrstu tíu mánuði ársins 2023. Einnig hefur borið á hugtakinu dyggðaflöggun sem var m.a. sett inn á Nýyrðavef Árnastofnunar á liðnu ári en það kom þó aðeins sex sinnum fyrir í Risamálheildinni í fyrra.

Sú hegðun að kunngjöra góðverk sín er að sjálfsögðu afar gömul og sá Jesús tilefni til að hnýta í þá sem iðka réttlæti sitt fyrir mönnum þeim til sýnis: „Þegar þú gefur ölmusu skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.“[viii]

Jesús varaði lærisveina sína á fleiri stöðum við að flagga góðmennsku sinni og því er ekki að undra að hugtakið virtue signaling kemur fyrst fyrir, snemma á þessari öld, í ritum um guðfræði. Það fær þó ögn breytta merkingu upp úr 2015 og snýr þá síður að þeirri hegðun að kunngjöra góðverk sín heldur fremur að flagga réttum og göfugum skoðuðum og þá einkum á samfélagsmiðlum.

Það vekur athygli að í fyrstu var rithátturinn ‘dygðarskreyting’ einkum notaður en er á líður fer meira að bera á ‘dyggðaskreyting’. Lengi vel var enginn greinarmunur gerður á ritháttunum ‘dygð’ og ‘dyggð’ en heimspekingar hafa seinustu árin gert greinarmun á og tengt dygð við siðgæði og mannkosti en dyggð við trúmennsku (sbr. lýsingarorðið dyggur).[ix]

Menningarnám (no. hk.)

Hugtakið menningarnám kemur fyrst fyrir á Tímarit.is árið 1997 í grein um póstmódernisma í listum.[x] Þar er það notað yfir það að taka traustataki handíðir og trúartákn úr öðrum heimshlutum og skilgreina sem list á vestræna vísu. Höfundur tekur fram að hér vísi nám til hernáms en ekki lærdóms og er orðið notað yfir það sem á ensku er kallað cultural appropriation. Næstu tvo áratugi kemur orðið nokkrum sinnum fyrir á Tímarit.is en þá vísar ‘nám’ ávallt til lærdóms. Það er svo ekki fyrr en nýlega að orðið fær þá merkingu sem nú virðist hafa fest í sessi.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skilgreint svo: „Það að þjóðfélagshópur í yfirburðarstöðu tekur yfir siði og venjur minnihlutahóps.“[xi] Sem dæmi um menningarnám má til að mynda nefna þegar hvítt fólk málar andlit sitt svart, nokkuð sem kallað er blackface á ensku og er þýtt sem negragervi í Orðabók Aldamóta (ordabok.is)[xii]  – en sú þýðing hefur ekki náð fótfestu. Önnur dæmi um menningarnám er þegar stúlkur klæða sig upp sem Pocahontas eða vestrænt fólk fær sér fléttur að hætti Bobs Marley.

Umræðan um menningarnám fer tíðum af stað, jafnt hér sem erlendis, í aðdraganda eða kjölfar hrekkjavökunnar eða þegar einhver frægur einstaklingur fléttar hárið, klæðir sig upp eða hagar sér á hátt sem sumum þykir bera vott um óvirðingu gagnvart menningu annarra. Umræða um menningarnám fór hins vegar á flug á Íslandi í fyrra í kjölfar þess að Íslenska óperan setti upp ítölsku óperuna Madame Butterfly snemma á árinu þar sem leikarar voru klæddir upp og farðaðir að japanskri hefð sem sumir vildu kenna við yellowface.

Ef marka má Risamálheildina þá er það fyrst árið 2014 sem umræða um menningarnám fer af stað. Í færslum sem birtast á samfélagsmiðlunum Twitter og Bland er ekki gerð nein tilraun til að þýða orðið heldur er enska hugtakið cultural appropriation notað óþýtt. Í Morgunblaðinu, snemma árs 2015, er orðið menningarstuldur hins vegar notað í umræðu um rapparann Iggy Azalea og nokkrir taka það upp í kjölfarið. Á svipuðum tíma fer hugtakið menningarnám hins vegar að sækja í sig veðrið og virðist nú hafa yfirhöndina enda kemur menningarstuldur aldrei fyrir í gögnum RMH á liðnu ári en menningarnám 52 sinnum.

Sitt sýnist hverjum um þessa þýðingu enda vísar orðið nám í huga flestra frekar til lærdóms en yfirtöku. Ef Íðorðabanki Árnastofnunar er skoðaður sést einnig að hugtakið menningarnám er í tveimur íðorðasöfnum notað yfir enska hugtakið acculturation sem getur t.d. falið í sér aðlögun barns að menningarháttum samfélags.[xiii] Eiríkur Rögnvaldsson fjallaði ítarlega um þetta á Málspjallinu á Facebook[xiv] og veltir þar upp þeirri spurningu hvort orðin menningartaka, menningarrán eða jafnvel menningarhrifs væru heppilegri.

Sjálfsvinsemd (no. kvk.)

Orðið sjálfsvinsemd tók stökk á árinu, kom 49 sinnum fyrir fyrstu tíu mánuði ársins 2023 en aðeins fimm sinnum árin fjögur þar á undan. Orðið kemur fyrst fyrir í Morgunblaðinu í ágúst 2013 í viðtali við Ásdísi Olsen sálfræðing[xv] en hún hefur m.a. kennt ýmis námskeið í tengslum við núvitund.

Sjálfsvinsemd er þýðing á enska hugtakinu self-compassion sem hefur verið töluvert í umræðunni frá aldamótum innan sálfræði og þá einkum meðal þeirra sem aðhyllast núvitund. Bandaríski sálfræðingurinn Kristin Neff skilgreindi sjálfsvinsemd á þann hátt að hún samanstæði af þremur meginþáttum: velvild í eigin garð, að leyfa sér að vera mannlegur og núvitund – það að skoða hugsanir sínar og tilfinningar án þess að dæma þær eða bæla.[xvi]

Smá grúsk í Risamálheildinni sýnir að ýmsar aðrar tillögur að þýðingu hafa komið fram, eins og sjálfsmildi, sjálfsumhyggja, sjálfssamúð og sjálfshluttekning. Sjálfsmildi náði mestu flugi og var meira notað en sjálfsvinsemd fyrstu árin. Sjálfsumhyggja var einnig notuð meira en sjálfsvinsemd fyrstu árin þótt ekki sé alltaf skýrt hvort það sé notað sem þýðing á hugtakinu self-compassion eða bara almennt um það að vera góður við sjálfan sig. Sjálfsumhyggja er reyndar gamalt orð og má finna mörg dæmi um notkun þess á Tímarit.is allt frá 19. öld og hefur þá í nær öllum tilvikum yfir sér neikvæðan merkingarblæ, í ætt við eigingirni og sjálfumgleði.

Á vefsíðu Kristins Neffs um sjálfsvinsemd segir að með henni sýnum við okkur sjálfum þá góðvild og umhyggju sem við myndum sýna góðum vini.[xvii] Í því ljósi hittir hugtakið sjálfsvinsemd auðvitað naglann á höfuðið.

Vistkjöt (no. hk.)

Framfarir og nýjungar leiða oft til þess að til verða ný orð. Orðið vistkjöt er dæmi um slíkt en það er notað um kjöt sem er ræktað án þess að dýr sé alið eða slátrað en stofnfrumur úr dýrum eru notaðar til að framleiða kjötið við mjög stýrðar aðstæður. Elsta dæmi um orðið vistkjöt í gögnum Árnastofnunar er frá árinu 2021 en dæmum fjölgaði umtalsvert á síðasta ári.

Orðið vistkjöt er samsett orð. Fyrri liður orðsins, vist-, kemur einnig fyrir í ýmsum samsettum orðum sem hafa vísun til umhverfismála. Elst þeirra er orðið vistfræði sem kom fram upp úr 1970 en yngri eru orðin vistgerð, vistkerfi, vistspor og lýsingarorðið vistvænn. Framleiðsla dýraafurða krefst landsvæðis og því eru skógar ruddir og votlendi ræst fram. Þetta leiðir til þess að vistkerfi eyðast, kolefnisbinding minnkar og magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu stóreykst. Þar sem mannkynið stendur frammi fyrir sívaxandi umhverfisvanda hefur verið leitað nýrra leiða og fjöldi fyrirtækja víða um heim hefur unnið að því að þróa aðferðir til þess að framleiða kjöt með vistvænni hætti en áður og án þess að dýr séu drepin.

Miklar væntingar eru gerðar til þessarar nýju tækni við framleiðslu kjöts með dýravelferð í huga og umhverfissjónarmið þar sem losun gróðurhúsalofttegunda minnkar.[xviii] Enn er þó bið eftir því að hægt verði að kaupa vistkjöt úti í búð.

Mömmuskömm (no. kvk.)

Orðin mömmuskömm, mammviskubit og mömmusmánun eru nýleg í íslensku og merkja öll þá tilfinningu sem mæður upplifa við að ná ekki að sinna öllu því sem ætlast er til af þeim. Orðin eru öll þýðingar á enska orðinu mom-shaming og algengast þeirra er mömmuskömm. Enda þótt þessi orð séu nýleg hefur þessi tilfinning líklega lengi verið til en birst með mismunandi hætti því að móðurhlutverkið hefur breyst á undanförnum áratugum og einnig hugmyndir um hverjar skyldur móðurinnar eru.

Annadís Greta Rúdólfsdóttir hefur ásamt Auði Magndísi Auðardóttur rannsakað tilfinningar foreldra gagnvart foreldrahlutverkinu og þróun móðurhlutverksins í íslensku samfélagi. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom mömmuskömmin meðal annars fram, þ.e. sú tilfinning mæðra að vera aldrei að gera nóg og standa sig ekki nógu vel og að fá sektarkennd yfir því að verja tíma í vinnu, nám og að sinna eigin þörfum. Rannsóknir sýna að feður finna mun sjaldnar til sektarkenndar vegna foreldrahlutverksins.[xix]

Nýjar samsetningar með orðunum –skömm, -viskubit og –smánun og hafa verið áberandi á síðustu árum. Mörg þessara orða eiga sér erlendar fyrirmyndir eins og í þessu tilviki sem snýr að íslenskri þýðingu á enska orðinu mom-shaming. Fyrir fáeinum árum var talsvert rætt um flugskömm en það er þýðing á sænska orðinu flygskam sem vísar til sektarkenndar flugfarþega yfir áhrifum flugferða á umhverfið. Þessi skömmustutilfinning yfir flugi hefur einnig verið nefnd flugviskubit en ekki eru allir ánægðir með þá orðmyndun og benda á að samsetningin sé gölluð þar sem hvorki er til flugviska viskubit.[xx] Enda þótt ýmsir hafi talið flugviskubit vera misheppnað orðskrípi þá hefur það „náð flugi“ og mörg dæmi finnast um orðið í Risamálheildinni en þar eru djammviskubit, flugviskubit, mammviskubit og sólviskubit algengustu orðin, fyrir utan samviskubit, sem mynduð eru með seinni liðnum –viskubit . Fyrir utan mömmuskömm og flugskömm má nefna drusluskömm, smitskömm, fituskömm og plastpokaskömm sem nýlegar samsetningar með seinni liðnum –skömm. Í sumum tilvikum hafa komið fram ýmsar tillögur að þýðingum á enskum orðum sem enda á –shaming, sbr. orðin druslusmánun, drusluskömm, druslustimplum og skækjuskömm sem hafa öll verið notuð til að þýða enska orðið slut-shaming.

Samkenndarþreyta (no. kvk.)

Hugtakið kulnun kom fram fyrir um 50 árum og á undanförnum áratugum hefur kulnun í starfi mikið verið rannsökuð. Helstu einkenni hennar eru örþreyta, streitueinkenni og skert vinnufærni.[xxi] Ýmis önnur orð hafa verið sett fram um slíkt magnleysi í starfi, s.s. örmögn­un, fag­þreyta, starfs­þreyta og útbrennsla.[xxii] Orðin samkenndarþreyta og samúðarþreyta eru greinar af sama meiði og hafa verið notuð til að þýða enska orðið compassion fatigue sem hefur verið notað um það þegar fagfólk gefur meira af eigin orku til vinnu sinnar en það fær til baka. Á síðustu árum hefur álag aukist á starfsfólk velferðarþjónustu og hefur aukin athygli beinst að slíkri þreytu starfsfólks og nauðsyn þess að hlúa að þeim sem hjálpa öðrum.

Orðið samúðarþreyta kemur fyrir í þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi í janúar 2022 þar sem heilbrigðisráðherra var falið að skipa starfshóp sem hefði það markmið að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla geðheilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum.[xxiii] Samkvæmt greinargerð með þingsályktunartillögunni þróa margar fagstéttir með sér einkenni sem eru sambærileg einkennum áfallastreituröskunar þegar þær verða ítrekað vitni að þjáningu, angist og sorg skjólstæðinga sinna og er atgervisflótti greinanlegur hjá fagfólki sem vinnur við það að hjálpa öðrum. Til að sporna við þessum einkennum er mælt með samkenndarsátt (enska compassion satisfaction) svo að starfsmenn fái orku til baka frá umhverfinu sem vegur á móti orkunni sem þeir gefa af sér við það að hjálpa öðrum. Hægt er að stuðla að samkenndarsátt með íhlutun, t.d. með fræðslu og námskeiðum, með því að fá handleiðslu frá fagaðila, hafa skýr mörk á milli einkalífs og vinnu, gefa svigrúm fyrir slökun, hugleiðslu og núvitundaræfingar og loks með því að taka eftir því sem vel er gert og veita styrkleikum athygli.

Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga en var endurflutt sama haust og orðið samkenndarþreyta var tekið upp í stað samúðarþreytu þar sem talið var að samkennd næði betur merkingu enska orðsins compassion en samúð.

-frí (no. hk.)

Í íslensku eru til margar samsetningar með seinni liðnum frí. Þar má nefna gamlar samsetningar eins og sumarfrí, vetrarfrí, helgarfrí, jólafrí, páskafrí, veikindafrí og vaktafrí. Eftirfarandi fríorð eru hins vegar nýleg og ekki enn ljóst hvort þau nái að festast í málinu.

Ástarfrí er nýlegt orð sem var nokkuð í umræðunni á árinu. Orðið er notað um rómantískt frí þar sem par á notalegar stundir saman og gerir vel við sig.

Orðin símafrí og samfélagsmiðlafrí voru einnig notuð meira á árinu en áður. Með því að taka sér frí frá síma og samfélagsmiðlum er reynt að draga úr skjátíma, forðast truflun og stuðla þar með að andlegri vellíðan.

Skjálftafrí voru einnig í umræðunni á árinu. Orðið var notað um Grindvíkinga sem voru orðnir langþreyttir á jarðhræringum og fóru út úr bænum til að komast í slík frí til að fá hvíld frá jarðskjálftum.

Algengast er að samsetningar með frí merki ‘leyfi’ eða ‘tími án skyldustarfa’, sbr. sumarfrí, vetrarfrí, jólafrí, og orðið ástarfrí hefur einnig þá merkingu, þ.e. að eiga tíma án skyldustarfa með ástinni sinni. Seinni liðurinn frí í orðunum símafrí, samfélagsmiðlafrí og skjálftafrí hefur ekki þessa tengingu við orlof eða leyfi heldur merkir að vera ‘laus við’, þ.e. að vera án síma, samfélagsmiðla og jarðskjálfta.

Ágústa Þorbergsdóttir, Starkaður Barkarson og Steinþór Steingrímsson.


[i] Sjá t.d. 12. kafla: Merkingarflokkar nafnliða og setningagerð í Höskuldur Þráinsson, 2005. Setningar. Íslensk tunga 3. Almenna bókafélagið.

[ii] Noam Chomsky. 1973. Mál og mannshugur. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

[iii] Einar Kárason. 1981. Þetta eru asnar Guðjón. Reykjavík: Mál og menning.

[iv] http://malrad.fo/news_article.php?NewsArticleId=295

[v] Computing Machinery and Intelligence. Mind 49: 433-460.

[vi] https://Tímarit.is/page/4461856?iabr=on#page/n35/mode/2up

[vii] https://www.dv.is/eyjan/2018/12/31/dygdaskreyting-flugeldar-og-brennur-og-aramotasidir-sem-eru-breytingum-undirorpnir/

[viii] https://biblian.is/biblian/matteusargudspjall-6-kafli/

[ix] https://www.visindavefur.is/svar.php?id=489

[x] https://timarit.is/page/3312918?iabr=on#page/n7/

[xi] https://islenskordabok.arnastofnun.is/ord/6888

[xii] https://snara.is

[xiii] https://idordabanki.arnastofnun.is/leit/menningarn%C3%A1m

[xiv] https://www.facebook.com/groups/348609846533094/

[xv] http://mbl.is/greinasafn/grein/1476267

[xvi] https://en.wikipedia.org/wiki/Self-compassion

[xvii] https://self-compassion.org/

[xviii] https://www.ruv.is/frettir/innlent/2022-10-04-vistkjot-i-budir-upp-ur-2030

[xix] https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/torgid/35350/ah3ur1

[xx] https://blogg.ordabokin.is/tag/ordaothol

[xxi] Kristinn Tómasson. (2008, 17. mars). Hvað er kulnun í starfi og hvað er helst til ráða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7244

[xxii] https://kjarninn.is/skodun/handleidsla-sjalfsraekt-og-fagthroski-gegn-ormognun-i-hjalparstarfi/

[xxiii] https://www.althingi.is/altext/152/s/0341.html