Guðbergur Bergsson,
Dauði Francos
Dauði Franciscos Francos þjóðarleiðtoga Spánar. Dagbók frá 1975. Dauði fyrir opnum tjöldum.
JPV útgáfa
Sú saga er sögð í minni fjölskyldu að á meðan á löngu dauðastríði spænska einræðisherrans Franciscos Francos stóð á haustmánuðum 1975 hefði afi minn spurt á hverjum morgni, er hann ekki dauður enn? Ég ætla ekki að þykjast muna þetta sjálf, hef eflaust verið með 7 ára hugann annars staðar, en sagan lifir. Og sú saga rímar reyndar ágætlega við aðra sem sonur minn sagði mér um daginn, en sú er þannig að grínistinn Chevy Chase hafi lýst því yfir í byrjun hvers þáttar af bandaríska skemmtiþættinum Saturday Night Life í margar vikur eftir lát Francos: „Generalissimo Francisco Franco er ennþá dauður!“ (hér má sjá brot fyrir áhugasama, ekki síst mæli ég með klippunni sem var ætluð heyrnardaufum). Dauðastríð einræðisherrans teygði því anga sína víða þetta ár og lengi síðan, í fjölmiðlum, á heimilum, og manna á milli. Í raun mætti segja að hann hafi ekki almennilega verið kveðinn niður fyrr en jarðneskar leifar hans voru fluttar úr grafhýsinu í Dal hinna föllnu (Valle de los caídos) 2019, eftir áratugalangar deilur og mátti því lengi að ósekju spyrja – er hann ennþá dauður? Franco vissi hvað hann var að gera þegar hann lét reisa sér grafhýsi (þótt það væri opinberlega reist fyrir þá sem féllu í borgarastyrjöldinni og þar var fyrsti falangistinn, José Antonio Primo de Rivera, í heiðurssæti), og grafhýsið mætti frekar nefna grafhöll – slíkt er umfangið – en Franco tryggði þar vissulega að hann gleymdist ekki svo glatt.
Nú höfum fengið skrif um þetta á íslensku, í bók Guðbergs Bergssonar, Dauði Francos, sem er byggð á dagbókum hans frá Madrid haustið 1975. Í aðfaraorðum er þess getið að áður hefðu birst kaflar úr dagbókinni í Þjóðviljanum sama ár, þann 12. desember, en reyndar birtust tveir hlutar til viðbótar, sá síðasti 16. desember. Þá skrifaði hann einnig pistil um Franco í Þjóðviljann 2. nóvember sem er a.m.k. að einhverju leyti af sama meiði undir yfirskriftinni „Djöflar deyja aldrei“. Þetta er ritstýrð dagbók, að því leyti að það er að henni formáli og eins er greinilegt að einhverju hefur verið hnikað til í textanum því þar er að finna ýmsar vísanir til samtímans. Þetta er í raun áhugaverð blanda – dagbókin er um margt sérstök bókmenntagrein, bundin hversdeginum, viðbrögðum við atburðum dagsins, getur verið ákaflega ópersónuleg og einskorðast jafnvel við veðurlýsingar, en á stundum má þar sjá köfun í innra líf, en ávallt er hún rígbundin sínum tíma. Hún er dag-bók. En hér er það aðeins málum blandið, eins og segir í formála:
Sagan er því byggð á mörgum sögum og rakin frá ýmsum sjónarhornum: mínum eigin athugunum, frásögum fólks á æðri stöðum og fréttum í útvarpi og sjónvarpi að ótöldum greinum í dag- og vikublöðum. Sagan er ekki tilbúningur, hún er sú fyrsta sinnar tegundar og hvergi til nema í frásögu minni. Hún er löng, byggð á raunverulegum atburðum, og í henni eru ótal smáatriði svo vegna þeirra hef ég bæði þurft að stytta hana og færa á vissan hátt í stílinn en samt er hún að mestu í réttri röð þótt ég hafi stundum gleymt að dagsetja hana í dagbókinni. (13)
Að mörgu leyti eru þeir viðburðir sem raktir eru hér eins og sniðnir fyrir Guðberg, gróteskar og mjög svo nákvæmar lýsingar á líkamsstarfsemi, Rabelais-ískur viðsnúningur þar sem hið háa verður lágkúrulegt og líkamlegt, kvenfyrirlitning er hér af ýmsu tagi, þó alltaf með þeim formerkjum að hér séu skoðanir spænsks almennings endurspeglaðar. Margt er bráðfyndið og furðum líkast, en kallast þó á við aðrar lýsingar á dauða einræðisherra, eins og kvikmyndina Dauði Stalíns (The Death of Stalin, Armando Iannucci 2017) byggð á myndasögum eftir Fabian Nury og Thierry Robin, sem er mjög svo farsakennd lýsing á umstanginu við það dánarbeð.
Á meðan á öllu þessu stendur í Madrid, berast reglulega fréttir af því, ekki síst frá erlendum fjölmiðlum, að nú sé hann dauður, en spænska þjóðin fer að öllu með gát því vel geti verið að í „einræðisherrum sé til sú lævisa ótukt að látast deyja drottni sínum til að „prófa“ hið sanna innræti þegnanna til leiðtoganna og fari ekki saman hugur þjóðar og leiðtoga verður að berja á fólki á nýjan leik með auknu valdi og beygja alla undir hið rétta hugarfar“ (31). Þetta minnir einnig á fyrrnefnda kvikmynd, en valdamennirnir sem áttu allt sitt undir Stalín, eru einmitt gegnsýrðir af þess konar paranoju.
Fjölmiðlar á Spáni hvetja svo þjóðina til að sýna lotningu og fórnfýsi eða eins og Guðbergur segir:
Halda mætti að á bak við hvatningu stjórnvalda í ritskoðuðu dagblöðunum væri skylda, ef leiðtoginn létist, að þjóðin fórnaði sér um leið og hryndi niður honum til samlætis eða dýrðar svo úr yrði sameiginlegt andlát leiðtoga og þegna, en risi hann upp frá dauðum, ekki á efsta degi heldur vegna kraftaverks, gæti hann staðið yfir valnum með sama pálma í höndunum og áður og horft yfir valinn sem vaknaði þá líka frá dauða til nýs lífs. (11)
Það var þétt setinn bekkurinn við sjúkrabeðið, fjölmargir læknar og svo kirkjunnar menn sem reyndu með öllum sínum ráðum að halda lífi í kallinum. Kaþólska kirkjan á að lífga við sálina, helgir dómar „úr sið hinnar heilögu kaþólsku kirkju og trúar, til dæmis beina úr dýrlingum liðinnar tíðar og annars helgidóts […] er raðað eftir sérstökum reglum umhverfis rúmið þar sem leiðtoginn liggur“ (8) og amerísk læknavísindi líkamann samkvæmt „vísindahjátrú samtímans“ (9). Sjúkrabeð hans „hlýtur að hafa litið út eins og sambland af vísindageimstöð og seiðhjalli fyrir tíma“ (9).
Nú skyldu margir ætla sem lesa þessa frásögn Guðbergs, að hér hefði Guðbergur aldeilis gefið sér lausan tauminn, sleppt fram af sér beislinu, í þessum mjög svo farsakenndu lýsingum á andláti síðasta einræðisherrans í Evrópu (a.m.k. á 20. öld…). En nei, yfirskriftin gæti eins verið: Þetta eru engar ýkjur – því dauðastríð Francos, var einmitt það, langur farsi. Þarna mættust hátækni læknavísindanna, helgigripir kirkjunnar, þar á meðal handleggurinn af Teresu frá Avila „órotinn þótt hún hafi látist 1582“ (80), og allskonar pólitískir plottarar sem lögðu á ráðin um hver tæki völdin. Stundum tekur textinn á sig nokkurn skáldlegan blæ eins og í fyrstu dagbókarfærslunni: „14. október árið 1975. Þegar Francisco Franco reis árla morguns úr rekkju í höllinni, El Pardo, fann hann að hann gekk ekki heill til skógar að málaratrönunum þar sem hann ætlaði að færa í lit á striga hornprúða hirti“ (14). Guðbergur lýkur reyndar þessari lýsingu á því að Franco hafi verið lélegri málari en Mussolini og Hitler. Lýsingarnar á honum gera óspart grín að honum, hann er á einum stað sagður vera „eins og gamalt en ódauðlegt vélmenni“ (16) og konu hans Carmen Polo de Franco er heldur ekki hlíft þar sem hún „sést koma úr El Pardo með bros á vör. Brosið róar á vissan hátt blaðamenn og þjóðina, þótt allir viti að hún er svo munnvíð og stórtennt að hún getur varla lokað munninum og virðist því vera sífellt með bros á vör“ (42).
Spænski rithöfundurinn og bókmenntafræðingurinn Carmen Martín Gaite lýsir í bók sinni Bakherbergið (El quarto de atrás 1978) valdatíma Francos þannig að vald hans hafi verið óvéfengjanlegt og alltumlykjandi. Hann hafi komið sér inn á öll heimili, skóla, kvikmyndahús og kaffihús og gert út um frumkvæði og fjölbreytni, kæft samræður og hlátur. Hann hefði í raun lamað tímann og svo dó hann loksins og: „Tíminn þiðnaði. Maðurinn sem hafði borið ábyrgð á að fylgjast með flæði tímans og vakta hann var horfinn“ (137). Þetta kemur heim og saman við lýsingar Guðbergs, því Spánverjar voru á vissan hátt lamaðir eftir þessa löngu áratugi einræðis, og þegar dauðinn nálgast þá „er eins og hugur almennings vakni af svefni, heilinn fari skyndilega að starfa utan venju. Það brakar hátt í næstum hverri ryðgaðri spænskri höfuðskel eftir langt einræði og litla frjálsa starfsemi“ (52). Þarna birtast víðtæk tök einræðisins á þjóðlífi, fjölmiðlum, lömuðum stjórnmálum, skoðunum fólks o.fl. o.fl., í gegnum ritskoðun, handtökur, og aftökur – jafnvel fram á síðustu daga Francos. Þegar hann loksins deyr, þá leysist eitthvað úr læðingi. Að mestu er textinn bundinn við dauðastríðið, en þó er líka gefin breiðari mynd af því sem átti sér stað á þessum tíma, eins og t.d. baráttunni milli Spánar og Marokkós um yfirráð yfir Spænsku Sahara og arftöku Juans Carlosar.
Ég sagði hér áðan að hér væru engar ýkjur á ferð, en það segir kannski ekki alla söguna. Einn þráð gat ég ekki stillt mig um að toga aðeins í. Á einum stað segir:
Blöð og fjölmiðlar eru óþreytandi að birta myndir og teikningar af líffærum leiðtogans, sumar myndir eru meira að segja í lit. Tilgangurinn með þessu er að fræða landsmenn, sanna að ekki sé verið að fela neitt heldur lýsa læknismætti véla og helgra dóma og sýna sameiginlega baráttu jarðnesks og himnesks afls gegn dauðanum. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni – seinna varð algengt í fjölmiðlum – að allt var fyrir opnum tjöldum í fari hinna frægu…“ (9-10)
Í færslu merktri 27. október segir svo: „vikublöðin eru farin að birta litmyndir af innyflum hans. Líklega hefur tengdasonurinn Villaverde tekið þær og selt sem verslunarvöru til að hagnast á markaði dauðans“ (59-60). Engar þessara mynda eru þó birtar í bókinni enda segir í aðfaraorðum: „Ég á allar myndir sem teknar voru og birtar af Franco og líffærum hans á dánarbeðinum en þori ekki að birta þær hérna með dagbókartextum vegna höfundarréttar.“
Þetta þótti mér nokkuð forvitnilegt, bæði fyrir þær sakir að ég hafði aldrei heyrt um þess háttar myndir eða séð og auk þess fannst mér skýringin einkennileg þar sem um væri að ræða áður birtar myndir. Hafði ég þá einnig séð því haldið fram að engar nýjar myndir hefður birst af Franco frá því að hann kom síðast opinberlega fram í byrjun október 1975 og þar til hann lá í kistunni. Ég fór því og lagðist í smá rannsóknir. Einföld google-leit skilaði engum niðurstöðum, og ekki heldur uppflettingar í dagblöðum þess tíma á spænska Tímarit.is – prensahistorica.mcu.es. Það eina sem ég rakst á voru myndir sem birtust í vikublaðinu La Revista árið 1984 og ollu nokkru fjarðafoki. Þar sést leiðtoginn tengdur við miklar græjur með fjölmörgum snúrum og leiðslum sem halda í honum lífinu (sjá grein um þetta hér). Ég fékk þetta svo staðfest frá vini mínum í Madrid, Paco Ferrandiz mannfræðingi, sem mikið hefur rannsakað arfleifð Franco-tímans, auk þess sem hann hefur setið í nefndum á vegum stjórnvalda til ráðgjafar um framtíð grafhýsisins í Dal hinna föllnu. Hann segir að myndir af sjúkrabeðinu hafi ekki birst fyrr en þarna, þegar myndum sem tengdasonur Francos, Cristóbal Martínez-Bordiú, Markgreifinn af Villaverde, átti, var lekið til tímaritsins La Revista sem þá átti í mikilli samkeppni við annað slíkt blað, Hola, og varð uppi nokkur fótur og fit. Þannig hlýtur lýsing Guðbergs sem dagsett er 27. október 1975 að eiga í raun við myndbirtinguna 1984.
Í texta Guðbergs þjóna lýsingar á myndum af sjúkrabeðinu annars vegar því hlutverki að staðfesta ýmsar ævintýralega uppákomur sem þar urðu – í þessari blöndu af nútímatækni og helgigripum (eða helgidóti eins og hann orðar það) og hins vegar til að sýna fram á hversu uppteknir fjölmiðlarnir voru af dauðastríðinu. Þá er þetta einnig hluti af þeim þræði sem spunninn er í nokkrum heimsósómaanda um hegðun fjölmiðla nútildags og opinberun alls sem viðkemur fræga fólkinu og nefnt er nokkrum sinnum í verkinu. Nú er alls ekki loku fyrir það skotið að Guðbergur hafi haft aðgang að þessum myndum, því vel var hann tengdur inn í ýmsar kreðsur í Madrid, en ekki birtust þær í spænskum dagblöðum á þessum haustmánuðum 1975.
Dauði einræðisherra opinberar óhjákvæmilega valdatíð hans, líkamlegir veikleikar fletta ofan af honum, ef svo má segja, og óðagotið, hræðslan og valdabaráttan allt um kring verður farsakennd og hlægileg. Einungis í dauðanum má skopast að þeim, einungis með dauða þeirra bráðnar tíminn. Generalissimo Francisco Franco er ennþá dauður!
Gunnþórunn Guðmundsdóttir