Verkið sem nú er sýnt í Kassanum, Þjóðleikhúsinu eftir ástralska höfundinn Suzie Miller, er margverðlaunað enda afskaplega vel skrifað. Höfundurinn Suzie Miller er sjálf með lögfræðimenntun og hefur starfað á sviði mannréttindalögfræði þannig að hún er heldur betur á heimavelli á því sviði sem hún fjallar um hér.
Sviðsmyndin er stílhrein og glæsileg. Hvítir ferkantaðir ljósarammar mynda afmarkaða umgjörð um heim Tessu, (ramma laganna) en annars minna pallar og hönnun sviðsmyndarinnar á réttarsal. Tessa er klædd í rústrauða buxnadrakt og silkiblússu, enginn myndi trúa að hún væri ekki yfirstéttastelpa í húð og hár.
Hún er aðalpersónan í leikritinu, stjörnulögfræðingur. Hennar hlutverk í réttinum er að verja sakborninga og tryggja að þeir fái réttláta málsmeðferð. „Réttlát málsmeðferð“ byggist á því að sekt hins stefnda sé sönnuð. Það getur verið erfitt í nauðgunarmálum, þar eru sjaldnast vitni og orð stendur gegn orði.
Tessa er stjörnulögfræðingur og snillingur í að benda á misræmi í frásögn brotaþola og afhjúpa þannig veikleika ákærunnar sem leiðir til sýknunar hins ákærða af því að hann neitar að sjálfsögðu sök. Af þessum árangri er Tessa stolt, sigrar hennar í þessum dómsmálum sýna að hún er framúrskarandi lögfræðingur. En svo snýst taflið við og hún upplifir lögin sem hún hefur helgað líf sitt á nýjan og óvæntan hátt þegar hún sjálf er í hlutverki brotaþola.
Suzie Miller kallar verk sitt „Prima Facie“ en það þýðir: „Við fyrstu sýn“. Í námi sínu hefur Tessu verið kennt að lögin séu hafin yfir gagnrýni, þau hafi verið sett til verndar einstaklingum og samfélagi og allir eru jafnir frammi fyrir þeim. En fari menn að horfa á þau gagnrýnum augum, segir Suzie Miller, og skoða hverjir settu lögin upphaflega og fyrir hverja og hvernig fólk af ólíku kyni, kynþáttum og stéttum stendur í raun andspænis lögunum – þá opnast augu þeirra og munu ekki lokast aftur því að mismununin blasir við.
Femínistar hafa lengi bent á hvernig sönnunarbyrðin í nauðgunarmálum hefur „tilhneigingu“ til að snúast alltaf gegn fórnarlambinu, konunni, sem var of drukkin, of fáklædd, of glyðruleg og lygin að auki sem lýsir sér í gríðarlegri hugkvæmni hennar við að koma ákæranda í þá stöðu sem hann er í og reyna að eyðileggja framtíð hans. Hún hefur jafnvel misþyrmt sjálfri sér, barið sig og bundið – allt til að klekkja á manninum sem „sagður er hafa níðst á henni“. Oft eru áverkarnir samt ekki nógu miklir til að kæra verði tekin gild og þegar upp er staðið gat hún sjálfri sér um kennt.
Leikritið Orð gegn orði leiðir áhorfandann gegnum reynslu unga og eldklára lögfræðingsins sem Ebba Katrín Finnsdóttir leikur, ein á sviðinu allan tímann. Hlutverk Tessu er mjög erfitt, einkum undir lokin en túlkun Ebbu Katrínar og leikur var hárfínn og áhrifamikill allt til enda. Þetta var leiksigur sem maður sér ekki oft.
Þóra Karítas Árnadóttir leikstýrir Orði gegn orði, sérhæfingar hennar á sviði mannréttindabaráttu og ofbeldis gegn konum sér stað í greiningunni sem liggur að baki þessari fínu sýningu.
Og nú geisar umræðan en ekki láta það verða til þess að þetta sé „sýning sem þegar hefur verið séð“ eins og stundum verða örlög verka sem töluð eru í kaf.
Sjáið hana sjálf!
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.