Goðsagan um Phedru, prinsessuna fögru frá Krít sem varð drottning hetjunnar Þeseusar frá Aþenu, hefur verið sögð í óteljandi útgáfum og nú er ein þeirra komin, í túlkun breska leikskáldsins Söruh Kane, á fjalir Þjóðleikhússins: Það er Kolfinna Nikulásdóttir sem leikstýrir.
Sagan segir þetta: Hetjan Þeseus (Þröstur Leó Gunnarsson) yfirgefur konu sína strax morguninn eftir brúðkaupið en gefur sér þó tíma til að nauðga dóttur hennar, stjúpdótturinni Strófu (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) áður en hann yfirgefur höllina og heldur á vit ævintýranna. Það fáum við að vita síðar í endurliti.
Eftir situr Phedra, eiginmannslaus og haldin af þrá til stjúpsonar síns, Hippolitosar (Sigurbjartur Sturla Atlason). Hippolitos er fyrsta persóna verksins sem áhorfendur sjá og kynnast þar sem hann liggur í gríðarstóru rúmi á sviðinu og horfir á ofbeldismyndir, étur hamborgara og sælgæti, fróar sér, þurrkar afurðirnar í óhreina sokka og hendir þeim og öðru rusli á gólfið. Hann er sóðalegur og sljór, alveg laus við alla samlíðan eða áhuga á öðru fólki. Líf hans er absúrd, hann bíður eftir að eitthvað gerist sem gefur því merkingu. Sigurbjartur Sturla er mjög góður í hlutverki þessa óþolandi ungmennis, sýnir þjáningu hans og greind í stuttum svipmyndum og býr til dýpt í karakterinn.
Þegar Phedra segir honum frá óendanlegri þrá sinni til hans, stuggar hann henni frá sér eins og hverri annarri plágu. Hún hefur við hann munnmök gegn mótmælum hans og hann svarar með mikilli andlegri grimmd. Það er gaman að Margrét Vilhjálmsdóttir skuli vera komin aftur í íslenskt leikhús, hún er súperleikkona, glæsileg, með skýra framsögn og túlkar hina ástsjúku drottningu af dýpt. Enginn getur komið vitinu fyrir hana því að ást hennar á Hippolítusi er „grand passion“ sem ansar engum rökum og er handan sið- og samfélagsregla á eigin róli – af ætt geðveikinnar.
Dóttir Phedru, Strófa, varar móður sína við og segir henni að hegðun hennar geti orðið bani þeirra allra, múgurinn muni rífa þau í sig. En ekkert fær stöðvað drottninguna. Hvaðan kemur þessi ofsafengna ástríða? Ef til vill er það að Hippolitus er forboðið viðfang nóg til að gera hann ómótstæðilegan í hennar augum, hún verður að fá hann. Hann gerir ekkert annað en staðfesta vöntun hennar með kulda sínum og fyrirlitningu. Drottningin hengir sig en skilur eftir sjálfsmorðsbréf þar sem hún sakar hann um nauðgun.
Hún tekur hann með sér í dauðann, bindur endi á innihaldslaust líf hans og gefur því merkingu um leið. Hann gleðst.
Hippolítus hefur ekki nauðgað stjúpmóður sinni, það er frekar öfugt en hann svarar fyrir sig með miskunnarlausri grimmd og háði sem er nauðgun í hennar augum. Þegar presturinn (Hallgrímur Ólafsson) reynir að fá hann til að neita sök í nauðgunarákærunni lætur Sarah Kane Hippolítus segja: „Ef fórnarlambi nauðgunar finnst að því hafi verið nauðgað þá er það svo hvað sem lögin segja.“
Ofbeldi er meginþema í verkum Söruh Kane og nauðgun er ein herfilegasta birtingarmynd þess. Um leið hefur verknaðnum verið ranglega slegið saman við hugtakið kynlíf eða kynmök og þar með reynt að hreinsa það af árásinni sem í henni býr og hræðilegum afleiðingum hennar á fórnarlambið. „Það eru ekki til orð yfir það sem þú gerðir mér“ segir Strófa við Hippolitus þegar hann reynir að fá hana til að segja að þau hafi verið náin. Strófa er heilsteypasta persóna verksins og Þuríður Blær túlkaði það mjög vel.
Í viðtölum um verkið vildi Sarah Kane ekki gangast við því að vera femínisti og undirstrikaði að enginn skyldi rukka sig um ákveðnar skoðanir vegna kyns hennar, aldurs, stéttar eða kynhneigðar eða kynþáttar, sitt erindi væri að sýna grimmdina og djöfulskapinn sem fólk sýndi hvert öðru, oft í nafni ástarinnar.
Ekkert vantaði upp á grimmd og djöfulskap í uppgjöri lokaþáttarins og tvær sagnir urðu þar sterkastar og eigum við að segja valkvæðar niðurstöður þ.e. að hópur „refsinorna“ ( Danshópurinn Seiðr) steig fram á sviðið og sýndi femínískan kraft sinn og vald á táknrænan og ansi magnaðan hátt og kóngurinn mætir á svæðið.
Konungurinn og stríðshetjan Þeseus mætir dulbúinn í lokapartýið þar sem múgurinn rífur í sig hina spilltu yfirstétt og tekur glaður þátt í villimannslegum drápum barna sinna, Hippolítusar og Strófu (sem hann þekkir ekki aftur) og dansar af vettvangi – „sexy devil“ fulltrúi feðraveldisins -laus allra mála.
Það er full ástæða til að óska Kolfinnu Nikulásardóttur og allri hennar áhöfn til hamingju með þessa sterku sýningu sem heldur áfram að vekja spurningar og hroll með áhorfendum.
Þýðing textans var í höndum Kristínar Eiríksdóttur, búninga hannaði Filippía Elísdóttir, tónlistin var Tuma Árnasonar, sviðshreyfingar: Seiðr og Ernesto Camilo Aldazábal Valdés.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.